21 amma

Sr. Bolli Pétur Bollason.

Eftir sr. Bolla Pétur Bollason:

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason er með ýmsar áhugaverðar viðmiðanir í nýju bók sinni Um tímann og vatnið. Ein þeirra snýr að þeirri staðreynd að það er í raun skammur tími síðan Jesús Kristur gekk hér á jörðinni, það er ekki nema 21 amma síðan og hópurinn sá kæmist fyrir í strætó og afarnir meira að segja líka.

Hugsið ykkur, það er ekki lengra síðan en Jesú gekk hér á jörðinni í holdi og blóði sem minnir okkur ekki einvörðungu á það að bera virðingu fyrir tímanum, heldur líka að Jesús er miklu nær okkur í tíma en við oft höldum. Það er einmitt ekki svo galið að spá svolítið í tímann þegar enn ein fæðingarhátíð frelsarans gengur í garð og þegar daginn fer að lengja. Það verður komið annað vor áður en við vitum af.

Og þar sem Jesús er þetta nálægt okkur í tíma ætti það líka að vera óþarft að efast eins mikið um tilvist hans og sé það óþarft ætti tíminn sömuleiðis að vinna með þegar við hugsum um sögu hans og gjörðir. Aðeins 21 amma síðan engillinn sagði við fjárhirða á Betlehemsvöllum, „Yður er í dag frelsari fæddur.” Allt í lagi, við skulum halda því til haga að allar þessar ömmur hafi þá verið langlífar.

Hinn skammi tími rennir ekki bara stoðum undir sannleiksgildi aðalpersónu kristninnar, heldur ætti tíminn sá að gera okkur í raun jafn auðmjúk og Jesús var fyrir sögunni, stundinni, tilvistinni. Höfum jafnframt í huga að það liðu rétt um 50 ár frá því atburðir jóla áttu að hafa gerst þar til þeir voru skrásettir í guðspjalli Lúkasar. Sem viðmiðun eru bráðum 60 ár liðin frá því Kennedy var skotinn og margir á lífi sem muna nákvæmlega hvar þeir voru staddir þegar sá voðaatburður átti sér stað.

Og síðan má alltaf spyrja sig hvort maður sé að nýta þennan hraðfleyga tíma vel, kanntu raunverulega að meta hann? Það má vafalaust heimsækja eins og eina ömmu og einn afa í stað þess að vera með nefið stöðugt ofan í snjallsímanum, það má vafalaust kíkja í kirkjuna sína og heyra meira um litla Jesúbarnið í Betlehem í stað þess að skrifa langar greinar með það að marki og miði að afsanna tilvist þess þarna í jötunni hjalandi fyrir aðeins 21 ömmu síðan. Og er síðan eitthvað sannara en hjalandi barn?

Kæri lesandi, ég vildi bara vekja þig til vitundar um þetta meðan þú bíður eftir jólunum og hvað það er líka dýrmætt að njóta augnabliksins þegar stundin flýgur þetta líka svona hratt. 

Gleðileg Jól! 

Höfundur er prestur.