7 tillögur um bætt gögn á Covid.is

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri skrifar.

Ísland virðist vera í einstakri stöðu til að halda utan um tiltölulega hrein og því gagnleg gögn um veikindi og smit vegna mismunandi afbrigða kórónuveirunnar. Betri birting gagna getur hjálpað bæði okkur hér og alþjóðasamfélaginu sem er að fást við sama vandamál.

Ég legg því til að birting gagna á Covid.is verði bætt með eftirfarandi hætti:

1. Sundurliðun á smitum sem greinast í einkennasýnatöku og sóttkvíarsýnatöku

Sundurliða mætti betur gögn um smit sem greinast í einkennasýnatöku og sóttkvíarsýnatöku. Gögn úr einkennasýnatöku hafa meiri möguleika á að vera kerfisbundið skökk, því einstaklingar ákveða sjálfir hvort þeir fara í slíka sýnatöku. T.d. má telja mögulegt að óbólusettir fari síður en aðrir, því þeir kæri sig minna um það. Út frá gögnum úr sóttkvíarsýnatöku má trúlega betur sjá mismunandi líkur bólusettra og óbólusettra á að greinast með veiruna eftir að hafa komist í snertingu við smitaða.

Athygli vekur að fáir virðast vera skráðir í sóttkvíarsýnatöku og vaknar því grunur um að sumir sem ættu að vera skráðir með þeim hætti hafi verið skráðir í einkennasýnatöku, e.t.v. vegna þess að þeir eru líka með einkenni. Yfirvöld geta kannski athugað hvort skráning í einkennasýnatöku sé að koma frá fólki sem hefur verið skikkað í sóttkví og leiðrétt gögnin ef ástæða er til. Þá má birta gögn um það hve margir sem hafa farið í sóttkvíarsýnatöku eru einkennalausir og hve margir hafa einkenni, því allir sem smitast eru spurðir um það í kjölfar greiningar.

2. Sundurliðun á smitum í sóttkví eftir bólusetningarstöðu þess sem líklega smitaði viðkomandi

Þegar fólk fer í sóttkví eftir samneyti við einn smitaðan einstakling, og greinist jákvætt, má athuga hversu vel sá sem líklega smitaði viðkomandi var bólusettur. Þetta hjálpar til við að sjá gagnsemi bólusetningar til að koma í veg fyrir smit.

3. Sundurliðun á smitum með sama hætti og sundurliðun á nýgengi

Bæði eru birtar tölur um dagleg smit og 14 daga nýgengi (fjöldi smita á hver 100.000 innan tiltekins hóps). Tölurnar eru þó ekki sundurliðaðar með sama hætti núna. Í tölum fyrir nýgengi má sjá flokkun smita eftir bólusetningarstöðu og hvort viðkomandi er fullorðinn eða barn. Hið sama mætti sýna fyrir dagleg smit.

4. Nánari sundurliðun á tölum eftir bólusetningarstöðu og fyrri smitum

Sundurliðun í tölum um nýgengi er óbólusettir, fullbólusettir, þríbólusettir. Væntanlega telst fólk ekki komið með bólusetningarstöðu fyrr en tveimur vikum eftir sprautu. Sundurliða má þetta betur, t.d. eftir fjölda sprauta og sjá einnig hverjir eru að smitast skömmu eftir að hafa fengið sprautu, áður en þeir „fá stöðuhækkun“ ef svo má segja. Þá þyrfti að koma fram hverjir eru að smitast sem hafa smitast áður. Þetta er dálítið af gögnum, en má vel setja í töflu sem hægt er að sækja og vinna með.

Með sama hætti ætti að gera nánar grein fyrir bólusetningarstöðu þeirra sem leggjast inn á spítala og gjörgæslu og jafnvel deyja, þ.m.t. hvort þeir lenda í tveggja vikna glugganum í kjölfar nýjustu sprautu og eru þannig á milli flokka.

5. Nánari sundurliðun eftir aldri

Það er vel þekkt að veiran hegðar sér með mjög mismunandi hætti í mismunandi aldurshópum. Sundurliiða mætti því smittölur betur eftir aldri, t.d. eftir áratugum, með sama hætti og andlátstölur hafa verið birtar.

6. Sundurliðun eftir afbrigðum veirunnar

Sundurliðun smita bólusettra og óbólusettra eftir afbrigðum veirunnar getur skipt miklu máli við mat á styrk bóluefna gegn delta, ómikron og framtíðarafbrigðum. Þetta þarf einnig að vera hægt að sjá eftir aldurshópum. Sama á við um sundurliðun á bólusetningarstöðu þeirra sem smita aðra, sbr. 2 hér að ofan.

7. Upplýsingar um undirliggjandi vandamál og aldursbil þeirra sem leggjast inn á spítala

Gæta þarf að persónuvernd, en grófar tölur um það hve margir sem leggjast á spítala og gjörgæslu eru með undirliggjandi vandamál (t.d. sykursýki, offitu, hjartavandamál og alvarlega sjúkdóma). Einnig þarf aldur að koma fram til að hægt sé að leggja mat á hættuna sem steðjar að mismunandi hópum og líkur á að þeir leggist inn og þar með skapi álag á heilbrigðiskerfið. Áður hefur verið byrjað að sundurliða hverjir hafa smitast inni á spítalanum og hverjir hafa lagst inn vegna veirunnar. Hér er lagt til að fleira verði birt, þ.e. hve margir sem leggjast inn eru með undirliggjandi vandamál.

Aðgengi að gögnum er grundvallaratriði í vísindum og færa má sterk rök fyrir því að birting gagna með þessum hætti sé einnig lýðræðislegt grundvallaratriði við þær kringumstæður sem nú eru uppi. Við erum að taka miklar ákvarðanir um réttindi borgaranna, jafnvel mismunun, og lýðræðislegar umræður um þær þurfa að vera upplýstar. Þessar umræður og birting gagna skipta augljóslega einnig máli fyrir persónulegar ákvarðanir fólks.

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri.