Á ég sósíalismanum eitthvað að þakka?

Eftir jón Ragnar Ríkharðsson:

Þegar ég lýsi megnri andúð á sósíalismanum finna sumir þörf til að benda mér á allt það góða sem þessi hræðilega stefna hefur gert fyrir mig. Þeir rugla saman sósíalistum og sósíalisma — þeim sem boða stefnuna og stefnunni sjálfri.

Vissulega eigum við verkamenn og sjómenn sósíalistum mikið að þakka en ekki stefnunni sjálfri. Það er reyndar mikil einföldun að þakka sósíalistum einum allt sem gott var gert fyrir okkur verkafólk og sjómenn.

Sósíalismi þýðir ekkert annað en grimmt ofbeldi sem engum er til góðs nema e.t.v. leiðtogum sósíalista og velunnurum þeirra. Þannig að í reynd er sósíalisminn mesta sérhagsmunagæslan sem pólitíkin býður upp á.

„Eigi kommúnísk vitund að þróast og málefnið sjálft að sigra krefst það gerbreytingar á mönnunum,“ segir Karl Marx m.a. í Þýsku hugmyndafræðinni. Sósíalisminn getur m.ö.o. ekki þróast án þess að fyrst takist að breyta eðli mannsins.

Sem betur fer tekst engum að breyta mannlegu eðli því það mun leiða til einsleitni, stöðnunar og að lokum brjóta niður alla innviði. En sósíalisminn mun (komist hann til valda) neyða alla til að hugsa og haga sér eins. Og það mun drepa lýðræðið og okkar góða samfélag um leið.

Útrýming allra stétta

Sósíalisminn í sinni einföldustu mynd þýðir ekki aðferðafræði í kjarabaráttu heldur útrýmingu allra stétta og að verkafólkið sjálft ákveði launin.

Það var enginn sósíalismi sem orsakaði baráttu verkalýðsins fyrir bættum kjörum heldur fjölbreyttari atvinnuhættir á Íslandi. Einn ötulasti baráttumaður fyrir hagsmunum verkafólks og kosningarétti kvenna hét Skúli Thoroddsen og hann var frjálslyndur stjórnmálamaður sem sat m.a. á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn gamla.

Jón Ragnar Ríkharðsson.

Hans pólitísku skoðanir má m.a. lesa á bls. 2 í Þjóðviljanum (1. tbl. 30. október 1886). Skúli vildi þar efla einkaeign landsmanna m.a. með sölu á þjóðjörðum og kirkjueignum. Þannig að Skúli var kapítalisti og stundaði m.a. sjálfstæðan atvinnurekstur.

Frjálslyndi kapítalistinn Skúli Thoroddsen barðist fyrir því að verkafólk fengi laun greidd í peningum og sú barátta vannst að lokum. Hann bar alla tíð hag verkalýðsins fyrir brjósti sem sýnir að stuðningsmenn verkafólks finnast víðar en í hópi sósíalista.

ASÍ var stofnað árið 1916 og einokað af Alþýðuflokknum. Það þýddi m.a. að hægri sinnaðir verkamenn voru áhrifalausir og sama gilti um sósíalista.

Árið 1938 ræddu verkamenn innan Sjálfstæðisflokksins við Bjarna Benediktsson um þann vanda sem fólst í áhrifaleysinu innan verkalýðshreyfinarinnar. Það leiddi til stofnunar Óðins sem var félag verkamanna innan Sjálfstæðisflokksins.

Samstaða sjálfstæðismanna og sósíalista

Sjálfstæðismenn og sósílistar stóðu saman í baráttunni gegn einokun krata innan ASÍ. Þessir annars andstæðu og ólíku hópar stofnuðu „Samband íslenskra stéttarfélaga“ árið 1939 en þau lögðust af árið 1940. Þá lét Alþýðuflokkurinn undan kröfum sjálfstæðismanna og sósíalista — þannig að þeir fengu loksins full réttindi innan ÁSÍ.

Samvinna sjálfstæðismanna í verkalýðsstétt við bæði sósalista og krata (eftir aðstæðum hverju sinni) sýnir að áherslur varðandi kjaramál voru svipaðar hjá öllum þessum flokkum. Að eigna einni stjórnmálastefnu árangurinn í kjarabaráttu verkafólks er ósanngjörn einföldun á stórri og flókinni sögu.

Verkalýðsbaráttu á að stunda óháð flokkapólitík því hagsmunir verkafólks snúast ekki um einstakar stjórnmálastefnur. Eftir gríðarlega pólitíska baráttu innan verkalýðshreyfingarinnar þar sem stjórnmálaflokkar börðust um yfirráðin varð jákvæð þróun undir lok síðustu aldar. Þá hvarf áberandi flokkapólitík úr verkalýðshreyfingunni vegna þess að verkalýðsfélög hafa fólk úr öllum flokkum innan sinna vébanda.

Þess vegna er það slæmt að Sósíalistaflokkurinn vilji stjórna hagsmunafélögum launafólks — það á enginn stjórnmálaflokkur að gera. Vegna þess að verkalýðspólitík á ekki að snúast um einstakar stjórnmálastefnur heldur vinna að hagsmunum sinna umbjóðenda sem koma úr öllum mögulegum samtökum og flokkum.

Gróf sögufölsun

Að halda því fram að sósíalisminn sem stjórnmálastefna geti þakkað sér kjarabætur launafólks er gróf sögufölsun notuð í pólitískum tilgangi.

Eftir bráðum fjörutíu ár sem starfandi verkamaður til sjós og lands man ég ekki eftir vinnufélaga sem er sanntrúaður sósíalisti og þekki engan úr þeirri stétt sem heldur þessari hræðilegu stefnu á lofti.

Sósíalisminn þjónar ekki okkar hagsmunum þótt þakka megi nokkrum fylgjendum hans ýmislegt gott sem við verkafólk njótum í dag.

Það þjónar launþegastéttinni best að vera laus við alla flokkapólitík — sérstaklega hræðilegustu stjórnmálastefnu sögunnar. Sem er klárlega sósíalisminn.

Nei — ég á sósíalismanum ekkert að þakka, en get þakkað Guði fyrir að hafa sloppið við að þola þessa stefnu á eigin skinni.

Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.