Eftir Kristinn Sigurjónsson:
Í dag er dagur gegn sjálfsvígum, og titillinn er valinn vegna falins vanda sem enginn vill tala um. Undanfarið hafa verið miklar umræður um sjálfsvíg, þegar einstaklingur ákveður að enda sitt líf, þá er það vegna þess að honum finnst allt ganga sér í óhag. Orsakirnar geta verið margvíslegar, mest hefur verið skrifað um þá sem ánetjast eiturlyfjum og lenda þannig annað hvort í blindgötu eða missa geðheilsuna sem er algengur fylgifiskur eiturlyfjanna.
Kerfið gegn feðrum
Feður sem lenda í tálmunum upplifa það að kerfið vinnur gegn þeim, því það gerist ekkert þrátt fyrir áralanga baráttu og milljóna kostnað. Í umgengnisdeilunum verða þeir fyrir fölskum ásökunum um ofbeldi og það jafnvel kynferðislegt. Fjölmiðlar bregðast algjörlega í þessu og birta fréttina eins og hér sé rökstuddan grun að ræða.
Mér er minnistætt þegar fréttamaður RÚV sagði beint út að faðir væri grunaður um kynfeðislegt ofbeldi í máli sem þá var í fjölmiðlum. Í þessu máli eins og í öllum hinum var enginn fótur fyrir þessu, en faðirinn er ekki bara dæmdur af fjölmiðlum heldur líka af samfélaginu. Þeir fá hvergi vinnu, enginn vill tala við þá og ef þeir reyna að bera hönd fyrir höfuð sér, þá er ráðist á þá af fjölmiðlum af enn meiri hörku og kommentakerfið fylgir eftir fyrirsögninni með endalausum svívirðingum og fordæmingum, Hér eru tveir fjölmiðlar sérlega athafnasamir í að ráðast á karlmenn og feður.
Þessir feður eiga svo líka sína fjöldskyldu sem les þetta í fjölmiðlum, sem gerir stöðu þeirra enn verri, því ásakanirnar og innrætingin er svo gegndarlaus, að fólk fer að trúa því að faðirinn sé ómenni.
Ofan á allt þetta er svo barninu innrætt að faðirinn sé óhæfur aumingi. Margir trúa því að þegar barnið vaxi úr grasi þá lagist þetta, en ég þekki nokkur dæmi þar sem uppkomin börn virða feður sína eins og þeir séu úrhrak vegna innrætingar í æsku, þ. e. a. s. foreldrafirringar.
Umræðan er þöguð í hel
Á þeirri hálfri öld sem ég hef fylgst með þessum málum, hef ég nánast aldrei séð einhverja umfjöllun í fjölmiðlum að karlmenn geta líka verið fórnarlömb. Þegar reynt er að laga þetta, þá er ráðist á þá sem það vilja og ber þar hæst þingmaðurinn Brynjar Nielsson sem hefur orðið fyrir gegndarlausum árásum vegna frumvarps til að leysa þetta.
Sjálfur hef ég heyrt af mönnum sem hafa gefist upp og tekið sitt eigið líf, frægast er þó Hage málið sem gerðist 1984 og endaði með því að Atle Joar Hage var kominn í blindgötu og tók sitt eigið líf og síðar var því úrskurður dómstóla að þetta hafi verið mesta réttarmorð Noregs. Örlítið hefur verið skrifað um þetta í erlendum fagtímaritum og blöðum og þar verið bent á að sjálfmorð fráskyldra feðra sem standa í umgengnisdeilum er margfalt hærri en annarra feðra. Því miður eru þessi mál þögguð í hel og þar sem bryddað hefur verið á því að kanna þessi mál, þá kemur holskefla af niðrandi tali um að það sé óþarfi. Gott dæmi um þetta er umræðan um karlaathvarf.
Hópur fólks sem hefur reynt að bera blak af ásökunum á feður, stofnaði karlaathvarf sem er í reynd núna ekkert nema kennitala og það tókst ekki þrautalaust, þar sem þeir fá engan stuðning hjá valdhöfum, heldur bara höfnun, vantrú og niðurlægingu.
Mismunur kynjanna
Á sama tíma geta leitað til kvennaathvarfsins og fengið þar aðstoð og lögfræðiaðstoð í forræðisdeilum á kostnað skattgreiðenda, þá er enginn stuðningur fyrir karlmenn sem eru í umgengnisdeilum.
Síðastliðinn sunnudag var viðtal við verkefnastýru Bjarkarhlíðar, þar sem hún rekur mikla aukningu í komum karlmanna þangað. Þessi frétt hverfur nær samdægurs af forsíðu Vísis og þegar leitað er að henni (daginn eftir) þá finnst hún ekki, þvílík er þöggunin, en það er búið að tala um nauðsyn karlaathvarfs að minnsta kosti síðan 2005, þegar þáverandi formaður félags um ábyrga feður (forveri félags um foreldrajafnrétti) benti þáverandi borgarstjóra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, á að 7% feðra sem leita til félagsins hafa kvartað undan líkamlegu ofbeldi af hendi sambýliskvenna sinna og er þá ótalið andlega ofbeldið eins og að þeir fái aldrei að sjá börnin sín, sem er nokkuð algengt.
Ég er sannfærður um að ef aðstæður foreldra væru jafnaðar og farið eftir 7. gr barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem nefnir rétt barns til að þekkja báða foreldra sína þá væri hægt að losna við margan harmleikinn í samfélaginu.
Höfundur er fv. lektor við Háskólann í Reykjavík