Á hvaða vegferð erum við?

Harvey Weinstein ásamt lögmannateymi sínu. Enn hefur ekki verið réttað yfir honum.

Eftir Brynjar Níelsson:

Samkvæmt frétt á ruv.is í gær, og mörgum miðlum vestanhafs undanfarna daga, hafa nokkrir nemendur við lagadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum krafist þess að deildarforseti hennar, Ronald Sullivan, verði rekinn úr starfi vegna þess að hann hafi tekið að sér málsvörn í dómsmáli fyrir Harvey Weinstein, þekktan kvikmyndaframleiðanda, sem sakaður er um kynferðisbrot gegn tveimur konum.

Hafa þessir nemendur hrundið af stað undirskriftasöfnun og spyrja hvort lögfræðingar framtíðarinnar vilji virkilega fá útskriftarskírteini undirritað af manni sem varði einn af helstu skúrkum Metoo hreyfingarinnar.

Þessi óhugnarlega frétt á RUV hefur ekki vakið athygli annarra fréttmiðla eða allra þeirra félaga hér á landi sem kenna sig við mannréttindi og lýðræði. Ekki hef ég heldur orðið var við nokkrar áhyggjur þeirra sem tilheyra þessu svokallaða háskólasamfélagi, sem er að verða eitt furðulegasta fyrirbæri samtímans.

Ég geri enga kröfu um að nemendur lagadeildar Harvard-háskóla verði reknir fyrir að skrifa undir kröfu að þessu tagi. Hins vegar er það áhyggjuefni ef laganemar í einum virtasta háskóla í heimi telji rétt að kennarar verði reknir úr starfi í nafni MeToo byltingar fyrir að koma að málsvörn sakaðra manna í kynferðisbrotamálum.

Þeir nemendur hafa ekkert með útskriftaskírteini í lögfræði að gera hvort sem það er undirritað af Ronald Sullivan eða öðrum.

Ofstæki og fasismi í nafni femínisma

Hliðstætt mál, þó ekki eins galið, kom upp hér á landi þegar stjórn Háskólans í Reykjavík ákvað að víkja lektor úr starfi vegna ummæla hans um konur á lokaðri fésbókarsíðu. Þau ummæli voru ekki alvarlegri en svo að vera í versta falli fornaldarleg.  

Brynjar Níelsson alþingismaður.

Eftirtektarvert var í því máli að ekki heyrðist hósti né stuna frá samkennurum eða nemendum skólans nema þá helst til að réttlæta brottreksturinn.

Fóru þar fremstir í flokki kennarar við lagadeild skólans — af öllum.

Þeir mega nú eiga það samkennarar deildarforsetans við lagadeild Harvard-háskóla, að þeir standa í lappirnar gegn ofstækinu, að minnsta kosti enn sem komið er.

Ef ofstæki og fasismi í nafni femínisma og MeToo heldur áfram á þessari braut er betur heima setið en af stað farið.  

Ef ofstæki og fasismi í nafni femínisma og MeToo heldur áfram á þessari braut er betur heima setið en af stað farið.  

Það sorglega er að allt þetta ofstæki er hluti af einvers konar jafnréttis-og mannréttindabaráttu, eins öfugsnúið og það nú er. Það er svo sem ekkert nýtt að háskólar á vesturlöndum séu í framlínunni þegar knésetja á hið frjálsa vestræna samfélag.

Kominn er tími til að þeir sem tilheyra þessu háskólasamfélagi hér á landi hysji nú upp um sig brækurnar og andmæli þessu ofstæki sem þar þrífst og feti í fótspor kennara við lagadeild Harvard-háskóla.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.