Á Íslandi búa tvær þjóðir

Eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur:

Vextir á Íslandi nálgast rússneskt vaxtastig eftir 14 stýrivaxtahækkanir í röð. Tugþúsundir landsmanna finna fyrir þessum veruleika og fyrir vikið er flótti úr óverðtryggðum lánum yfir í verðtryggð. Þar bíða fólks vissulega lægri afborganir en á móti leggst verðbólgan af fullum þunga á höfuðstólinn. Það er rammíslenskur veruleiki. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur stöðuna sem svo að tímabil hárra vaxta verði langt og á meðan munu fjölskyldur festast í verðtryggðum lánum.

Staða fólks til að mæta vaxtahækkunum er hvorki jöfn hvað varðar tekjur né um á hvaða æviskeiði það er statt. Háir vextir eru sérstaklega þungir fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur, fólkið sem er með frekar ný lán á sama tíma og nauðsynleg útgjöld heimilis eru hlutfallslega mikil. Það er mun erfiðara nú en áður fyrir ungt fólk að kaupa fyrstu íbúð. Afleiðingar vaxtahækkana eru að ungt fólk í foreldrahúsum á núna lítil tækifæri á að kaupa íbúð ef mamma eða pabbi geta ekki hjálpað til. Baklandið hefur allt um það að segja hver tækifærin eru varðandi það að geta keypt íbúð. Fólk á leigumarkaði er fast þar.

Rússneskt vaxtastig fyrir heimilin 

Á Íslandi búa í dag tvær þjóðir: Annars vegar er það þjóðin sem lifir í krónuhagkerfinu; heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki. Hins vegar eru það stórfyrirtækin sem standa fyrir utan krónuhagkerfið, fyrirtækin sem gera upp í evru og dollara. Það er auðvitað skiljanlegt að stórfyrirtækin vilji starfa í öruggara umhverfi og njóta betri lánskjara. En þetta öryggi ætti að vera markmiðið fyrir þjóðina alla.

Sársaukafullar vaxtahækkanir hafa ekki áhrif á þessi fyrirtæki en hafa aftur á móti mikil áhrif á fólk með húsnæðislán á krónuvöxtum og þau fyrirtæki sem eru eftir inni í krónuhagkerfinu. Það eru litlu og meðalstóru fyrirtækin og fólkið sem er að reyna að eignast heimili. Fyrstu kaupendur og barnafjölskyldur. Stóra spurningin er þá hvers vegna almenningi og atvinnulífinu öllu bjóðast ekki sömu kjör. Hluti íslensks atvinnulífs starfar í hagstæðara lánaumhverfi en hinn hlutinn.  

Færeyski draumurinn

Val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat. Það er pólitísk ákvörðun að halda sig við krónuna. Ríkisstjórn sem ver óbreytt ástand þarf að svara því hvers vegna henni þykir réttlætanlegt að láta bara hluta samfélagsins taka á sig kostnaðinn af margfalt hærri vaxtahækkunum sem fylgja íslensku krónunni. Hvers vegna íslensk millistétt á að þola höggin sem fylgja krónunni.  Óbreytt staða um gjaldmiðil þýðir einfaldlega að tækifærin verða ekki jöfn.

Þau sem halda því fram að íslenskur veruleiki sé einhvern veginn þannig að hann þoli ekki stöðugan gjaldmiðil þurfa þá að svara því hvað það sé í gangverki Færeyja sem geri að verkum að almenningur þar er í góðri sambúð við danska krónu – sem er tengd við evru. Færeyjar sem eru á margan hátt aðeins fámennari útgáfa af Íslandi. Þar hefur hagvöxtur verið mikill síðustu ár, eins og hér, sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein, eins og hér, og ferðaþjónusta vaxandi. Og í Færeyjum hefur íbúum fjölgað umfram íbúðabyggingar. Kunnuglegt stef? 

Vaxtaumhverfið er samt gjörólíkt og kjör sem þar bjóðast langtum betri en á Íslandi. Eitt stærsta velferðarmálið fyrir fólkið í landinu er að koma okkur út úr vítahring krónunnar. Til þess þurfa stjórnmálin þrek til að gera meira en að bregðast alltaf bara við til skemmri tíma. Þau þurfa að hafa framtíðarsýn til að gera betur fyrir fólkið í landinu.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.