Ábyrgðin er okkar: Við Íslendingar stöndum á krossgötum

Eftir Elliða Vignisson:

Sjálfstæðisflokkurinn ber meiri ábyrgð en aðrir flokkar á Íslandi. Kjósendur hans, ég þar á meðal, ætlast til þess að í honum sé að finna kjölfestu og stefnu sem ekki sveiflast með dægurstefnu og skoðunum áhrifavalda í dýrum sundfötum. Sjálfstæðisflokkurinn er það afl sem mótaði það Ísland sem við þekkjum í dag. Stefna hans er samofin þjóðarsálinni. Því fylgir ábyrgð sem við Sjálfstæðismenn viljum standa undir.

Við gerum meiri kröfu til Sjálfstæðisflokksins en annarra

Af þeim sökum leyfum við okkur oft að leggja mælistiku á Sjálfstæðisflokkinn sem við vitum að enginn annar flokkur gæti mælst eftir. Við ætlumst til meira. Við viljum stefnu. Við viljum stjórn. Við viljum forystu. Við trúum því að stefna Sjálfstæðisflokksins – trúin á einstaklinginn, trúin á gæði landsins, trúin á mikilvægi fulls sjálfstæðis- sé enn sem fyrr leiðin til áframhaldandi lífsgæða. Við trúum því að verðmætasköpun sé undirstaða velferðar. Enginn annar flokkur en Sjálfstæðisflokkurinn getur mætt þessari trú.

Öllum ljóst

Það eru ekki bara við Sjálfstæðismenn sem leitum til Sjálfstæðisflokksins með þetta hlutverk. Seinustu daga hefur forystufólk í öllum flokkum leitað allra leiða til að spá í og skilgreina Sjálfstæðisflokksinn. Fjölmiðlar rýna í stöðuna, samstarfsfólk í ríkisstjórn varpar ljós á sitt viðhorf til forystuflokksins, óbreyttir þingmenn ræða Sjálfstæðisflokkinn frekar en sinn eigin, álitsgjafar ausa úr viskubrunnum sínum. Það er öllum ljóst hvaða flokkur er forystuafl. Þar breyta skoðanakannanir engu.

Krossgötur

Um margt stöndum við Íslendingar nú á krossgötum. Það eru að eiga sér stað breytingar sem við verðum að horfast í augu við. Við erum að hefja ferðalag þar sem reynir á einmitt þann styrk sem Sjálfstæðisflokkurinn býr yfir.

Dæmin eru mörg en ég ætla að nefna þau þrjú stærstu:

  • Málefni flóttamanna

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sem kjarnast öðru fremur í kringum trúna á einstaklinginn. Það hvort einhver er frá Alsír, Færeyjum, Úkraínu eða Vatíkaninu er staðreynd sem heilt yfir skiptir okkur ekki máli. Það skiptir okkur meira máli -hver ertu og fyrir hvað stendur þú? Hvað það varðar eru viðhorf okkar til landamæra opin. Við erum hins vegar einnig flokkur sem heiðrar mikilvægi þess að vernda hagsmuni þjóðarinnar. Við viljum taka á móti einstaklingum frá öðrum þjóðum á grundvelli mannúðar og hagsmunum hinnar íslensku þjóðar. Við viljum gera skýran greinamun á milli þeirra sem hingað koma til að sinna vinnu og byggja sér framtíð og þeirra sem koma hingað á öðrum forsendum. Við viljum að kjörnir fulltrúar okkar meti hvað innviðir okkar ráða við. Að tryggt sé að við vitum hvar mörkin liggja að því að  hagsmunir þjóðarinnar séu að veði. Við viljum að okkar stjórnmálafólk heiti okkur því að við örþjóðin tökum ekki á móti svo mörgum að velferð okkar og lifnaðarháttum stafi ógn af.

  • Orkumál

Fáir efast um mikilvægi orkuskipta. Jafnvel þeir sem efast um að hnattræn hlýnum sé af mannavöldum telja mikilvægt að sækja innlenda orku. Staðreyndin er eftir sem áður sú að við erum að missa boltann í þessum mikilvægu málum. Í fyrsta skipti í sögunni er orka í landinu að verða uppseld og jafnvel heimilin standa frammi fyrir því að ef ekkert verður að gert þá gæti veruleikinn á næstu árum orðið sá að við höfum ekki næga orku til að knýja heimilin, hvað þá ný atvinnutækifæri sem oftar en ekki hverfast um aðgengi að orku. Tal um að það þurfi bara að fara betur með orkuna er ryk í augu fólks, kasta í þeim tilgangi að hindra sýn á að hinn raunverulegi vandi er að vinstri flokkarnir vilja ekki nýta íslenska orku. Við vitum öll að það að þarf að virkja meira og það er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins að tryggja að það verði gert.  Ekki seinna – núna.

  • Ríkisútgjöld

Við Sjálfstæðismenn trúum því að það sé betra að treysta á einkaframtakið en vöxt hins opinbera. Jafnvel í málaflokkum sem við viljum nýta til jöfnunar tækifæra, svo sem í heilbrigðismálum, menntamálum og félagsþjónustu, þar trúum við því að einkaframtakið geti veitt þjónustuna.  Gildir þá einu þótt við teljum rétt að hið opinbera greiði kostnaðinn. Við trúum því einfaldlega að nánast ætíð geti einkaframtakið gert hlutina betur en hið opinbera. Til viðbótar við heildar umsvif opinbera markaðarins þá svíður sá veruleiki að frá árinu 1998 hefur íbúum landsins fjölgað um 32% en ríkisútgjöldin hafa aukist um 165% á föstu verðlagi. Aukningin í fjárlögum 2023 nemur 14% sem er mesta aukning ríkisútgjalda frá 1991. Okkur þykir sem hærra hlutfall af launum fólks eigi að verða eftir hjá þeim sjálfum.

Langur listi yfir mál þar sem horft er til Sjálfstæðisflokksins

Á krossgötum samtímans er margt annað þar sem við mörg hver horfum til Sjálfstæðisflokksins. ,,Vógisminn“ er á undanhaldi, blessunarlega, og þar þarf að stíga fast fram. Viðhorfið til þjóðaröryggis er á hreyfingu í átt að stefnu Sjálfstæðisflokksins. Langlundargerð launþega á einkamarkaði gagnvart ásælni opinbera geirans er á þrotum. Framkoma framkvæmdavaldsins og löggjafavaldsins gagnvart atvinnulífinu er löngu orðin óþolandi – framgangur atvinnuvegaráðherrans er þar bara toppurinn á ísjakanum. Listinn er lengri en hægt er að gera skil í stuttum pistli.

Fylgt úr hlaði

Í dag er spurn eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil leyfa mér að segja að það er meiri spurn eftir stefnunni en flokknum sjálfum. Ég er ekki fæddur í gær. Ég skil þær fórnir sem hefur þurft að færa í ríkisstjórn með VG og jafnvel ekki síður Framsóknarflokknum sem sjaldnast veit hvort hann er að koma eða fara – þegar hann veit það þá passar hann a.m.k. upp á að segja ekki frá því. Mín skoðun er sú að flokkurinn minn sé leiddur af færasta stjórnmálamanni sinnar kynslóðar. Án hans væri núverandi ríkisstjórnarsamband vart mögulegt. Það -ásamt stefnu sem er eftirspurn eftir- er veganesti sem ég trúi að geti orðið, og þurfi að verða, forsenda þess að við höldum til móts við nýja tíma.

Höfundur er sjálfstæðismaður.