Eftir Bergþór Ólason:
Margir merkir fundir hafa verið haldnir á Þingvöllum, síðan Grímur Geitskór fann Alþingi, þann fagra og helga stað. Staðurinn á sér sérstakan sess i brjósti okkar allra.
Þar hafa menn sagt upp lögin og strengt þess heit að fara eftir þeim, öllum sem sett voru , tekið kristna trú og síðar formlega gert landið að sjálfstæðu lýðveldi og fleira mætti upp telja.
Nú fara þingmenn, sem styðja ríkisstjórn landsins, til fundar í dag á Þingvöllum vegna neyðarástands sem skapast hefur, vegna þess að umgangur ráðamanna (eins, eða fleiri) sýnist hafa verið á skjön við reglur og jafnvel lög.
Fundarefnið er vafalítið að reyna að þjappa óbreyttum þingmönnum að baki ráðherrum, sem í pólitískum skollaleik samþykktu orkupakka, sem tálgaði og veikti stokkinn sem stigið var á forðum, til að strengja heitin um að standa vörð um og virða sjálfstæði landsins, lög þess og reglur.
Við verðum að vona að í stað þess að slá skjaldborg um rangindi og veiklyndi, kvikni aftur í brjósti þingmanna eldmóður og kjarkur til að strengja ný heit um sömu hluti, sem öllu skipta enn í dag; sjálfstæði þjóðarinnar, sanngirni og samhjálp.
Ekki hafa allir fundir á staðnum helga heppnast vel, fundir sem haldnir hafa verið til að líma saman sundraða flokka og svikin loforð.
Megi nú verða heilladagur, þar sem þingmenn finna aftur sitt erindi, sem sumir þeirra hafa týnt.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins.