Að reikna sig til óbóta

Eftir Konráð S. Guðjónsson:

Eftir áföll er fátt eðlilegra en að spyrja sig: Hvernig gat þetta gerst? Hvað hefði átt að gera öðruvísi?

Nýlega urðu margir Íslendingar fyrir slíku áfalli við eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar, sem var svo stórt að forstjóri Vinnumálastofnunar sagði að aldrei hefðu jafn margir misst vinnuna í einu, ekki einu sinni í fjármálakreppunni.

Í leit að svarinu við því hvernig hefði mátt koma í veg fyrir gjaldþrot WOW air hafa heyrst ýmsar hugmyndir. Eitthvað hefur borið á þeirri hugmynd að ríkisvaldið hefði átt að stíga inn í reksturinn á síðustu mánuðum með því að leggja til fé. Annars vegar svo fyrirtækið gæti komist yfir erfiðasta hjallann og þannig dafnað til lengri tíma eða hins vegar til þess að milda höggið með því að vinda hægt og bítandi ofan af starfsemi flugfélagsins.

Útreikningarnir og rökin fyrir þessum inngripum eru á yfirborðinu sannfærandi. Ríkið hefði í raun aðeins þurft að leggja til um 5 milljarða króna og þannig komið í veg fyrir greiðslur atvinnuleysisbóta, viðhaldið skattstofnum og þannig hagnast margfaldað á fjárfestingunni. Sé kafað lengra ofan í rökin virðist sem menn hafi reiknað sig til óbóta og því gott tækifæri til að minna á hvers vegna ríkið eigi að forðast afskipti á samkeppnismarkaði.

5 milljarða reikningur til skattgreiðenda?

Í fyrsta lagi reyndi umrætt félag mánuðum saman að fá aukið fé inn í reksturinn með litlum árangri. Það tókst í skamman tíma síðastliðið haust og liðu innan við tveir mánuðir þar til sækja þurfti fjármagn á ný.  Þær tilraunir skiluðu engum árangri og ekki nægilega margir töldu hag sinn í að setja nægilega mikið fé í reksturinn á nægilega stuttum tíma – hvers vegna ætti ríkið þá að vilja það?

Konráð S. Guðjónsson.

Í ljósi þess sem á undan var gengið var augljóst að um mikla áhættu hefði verið að ræða á kostnað skattgreiðenda. Ef ríkið hefði stigið inn en samt hefði illa farið væri niðurstaðan sú sama og í dag nema með 5 milljarða króna reikning stílaðann á skattgreiðendur þar að auki.

Lífið heldur áfram

Í öðru lagi er það ekki hlutverk ríkisins að stíga inn í rekstur á samkeppnismarkaði. Ef til dæmis matvöruverslun myndi leggja upp laupana myndi ríkið ekki stíga inn þó að slíkt gæti orðið þungt högg ef um stóra keðju væri að ræða. Ástæðan er að ef eftirspurnin er enn til staðar stíga aðrir aðilar inn – aðrar verslanir keppast um að ná í þau viðskipti sem sú sem hættir skilur eftir sig og nýjar verslanir líta dagsins ljós. Hið sama gildir um flugmarkað.

Til Íslands fljúga 27 flugfélög í sumar og nú þegar hafa innlend sem erlend flugfélög boðað aukið sætaframboð strax í sumar. Áfangastaðurinn Ísland og Keflavíkurflugvöllur hafa ekki farið neitt, svo ætla má að til lengdar muni önnur félög fylla þann hluta skarðs WOW air sem eðlilegur rekstrargrundvöllur er fyrir.

Öðru máli gegnir ef um er að ræða markaðsbrest þar sem er náttúruleg einokun eða ekki er unnt að veita nauðsynlega þjónustu á markaðslegum forsendum. Um 40-50 brottfarir eru á dag frá Keflavíkurflugvelli og ef það er markaðsbrestur er allt lífið einn stór markaðsbrestur.

Ríkisinngrip skapa freistnivanda

Í þriðja lagi skapa inngrip ríkisins í áhættusaman atvinnurekstur þegar illa gengur freistnivanda til þess að tekin sé meiri áhætta en ásættanlegt er. Áhætta er nauðsynleg til að fyrirtæki nái árangri og ríkið getur gert ýmislegt til að draga úr þeirri áhættu. Þó er ekki réttlætanlegt að ríkið beri þá áhættu og hlaupi undir bagga ef hún raungerist þegar á hólminn er komið.

Þegar þjóðaröryggi liggur við og ef um er að ræða sanna markaðsbresti er bein aðkoma ríkisins að atvinnustarfsemi oft æskileg og þekkjum við mörg dæmi þess. En þegar um er að ræða atvinnugrein þar sem ríkir hörð samkeppni er best að ríkið standi á hliðarlínunni og leyfi einkaframtakinu að keppast um hylli neytenda, þó hægt sé að reikna ríkinu hagnað til óbóta með eftiráspeki.

Höfundur er hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.