Ætla stjórnendur Seðlabankans virkilega ekki að axla ábyrgð?

Eftir Örnu McClure:

Á miðvikudaginn í síðustu viku kom umboðsmaður Alþingis með stórmerkilegt álit um stjórnsýslu seðlabankans.

Ólíkt fyrirsögnum helstu fjölmiðla þá er aðalatriðið í álitinu ekki að svar Seðlabankans hafi ekki verið í samræmi við lög.

Draga má þrjátíu blaðsíðna álitið saman:

• Forsvarsmenn Seðlabankans leyndu umboðsmann Alþingis mikilvægum gögnum sem komu í veg fyrir að hann gæti rækt eftirlitshlutverk sitt sem skyldi. Þetta var gert í nóvember 2015. Má velta upp hvort stjórnendurnir hafi gert slíkt hið sama gagnvart bankaráði og þannig komið í veg fyrir að bankaráð gripi inn í fyrr. 

• Forsvarsmenn Seðlabankans hundsuðu athugasemdir ríkissaksóknara um að engin nothæf refsiheimild væri til vegna allra reglna sem bankinn hafði sett á grundvelli sérstakt bráðabirgðaákvæðis við gjaldeyrislögin. Þessar upplýsingar fékk bankinn vorið 2014.

• Forsvarsmenn Seðlabankans vísu í eldra álit umboðsmanns sem og lög, máli sínu til stuðnings, en fóru með rangt mál. Á engan hátt var hægt að draga þær ályktanir sem stjórnendur bankans gerðu. Má velta upp hvort svör ráðherra í Alþingi um starfsemi gjaldeyriseftirlitsins, bæði fyrr og nú á fimmtudag hafi verið sannleikanum samkvæm. Ráðherra hefur væntanlega leitað til seðlabankans við vinnslu svaranna og treyst því að þær upplýsingar sem hann fékk þaðan væru réttar. 

• Umboðsmaður Alþingis sá ástæðu til að minna forsvarsmenn Seðlabankans á að í jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar fælist ekki að ef bankinn hefði brotið gegn einum aðila ætti hann að halda áfram og brjóta gegn öllum öðrum. Út á það gengi jafnræðisreglan ekki.

• Umboðsmaður Alþingis sá jafnframt ástæðu til að minna forsvarsmenn Seðlabankans á að það kæmi í þeirra hlut að tryggja að fullnægjandi lagastoð væri fyrir hendi áður en bankinn réðist til atlögu. Bankinn gæti ekki varpað þeirri ábyrgð á aðra. 

• Umboðsmaður Alþingis sá einnig ástæðu til að minna forsvarsmenn Seðlabankans á að meðalhófsreglan og rétt stjórnsýsla felur í sér að skýra vafa borgurum í hag og fella mál niður ef vafi er á um fullnægjandi lagastoð. Benti umboðsmaður á að sérstakur saksóknari hefði fellt niður fjölda kæra frá Seðlabankanum og dregið til baka ákærur. Slíkt samræmdist góðum stjórnsýsluháttum. 

• Þá margítrekaði umboðsmaður Alþingis að hann hefði fyrst viðrað þá skoðun sína að fullnægjandi lagastoð fyrir refsikenndum viðurlögum væri umdeilanleg árið 2011. Hann steig ekki fastar til jarðar þar sem forsvarsmenn seðlabankans kváðust ekki hafa stofnað nein stjórnsýslumál. Í ljósi þess og að til stóð að færa ákvæði reglnanna inn í lögin, lét hann staðar numið. Eftir þessi samskipti fór bankinn í húsleit hjá Samherja.

• Að lokum minnti umboðsmaður Alþingis bankaráð á hlutverk sitt að hafa eftirlit með því að bankinn starfaði í samræmi við lög og reglur.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég horfi á framangreinda punkta klóra ég mér í hausnum yfir því að tilteknir stjórnendur Seðlabankans (1) sjái ekki ástæðu til að segja starfi sínu lausu og axla þannig ábyrgð, eða (2) eftirlitsaðilar sjá ekki ástæðu til að láta tiltekna stjórnendur axla ábyrgð með því að víkja. 

Ég minni líka á að bankinn hefur í tugum tilvika lagt á stjórnvaldssektir eða gert sáttir. Í öðrum tilvikum hafa aðilar þurft að „sitja á sakamannabekk” í mörg ár og sitja uppi með tilheyrandi lögmannskostnað.

Þessir aðilar hljóta að spyrja sig eins og Indriði: „Á ég að gera það”?

Höfundur er lögmaður og starfar hjá Samherja.