Ætlum við ekkert að tala um hættuna hér á landi af völdum Kórónaveirunnar?

Ólafur Elíasson.

Eftir Ólaf Elíasson:

Ég var að lesa mig í gegnum viðbragðsáætlun við heimsfaraldri á heimasíðu Landlæknisembættisins.

Viðbragðsáætlunin gerir ráð fyrir tveimur sviðsmyndum. Annars vegar faraldri sem sýkir 50% þjóðarinnar og dauðsföll verði 3%. Og hins vegar faraldri sem sýkir 25% þjóðarinnar og dauðsföll verði 1 %.

Sé litið til Covid-19 sem núna geisar þá telja þeir erlendu sérfræðingar sem ég hef verið að horfa á á netinu (Fræðimenn á vegum Alþjóða Heilbrigðisstofnunarinnar m.a.) að fari faraldurinn af stað af fullum krafti megi búast við að allt að helmingur einstaklinga í vestrænum samfélögum smitist og dauðsföll verði á bilinu 1 til 2 prósent. Línuritin í íslensku viðbragðsáætlunni gera ráð fyrir að faraldurinn gangi yfir á 11 til 12 vikum.

Þegar ég les þessa viðbragðsáætlun upplifi ég hana sem yfirborðkennt plagg um að hinir og þessir fari eftir verklagi miðað við mismunandi aðstæður en lítið er um skýr fyrirmæli hvernig þjóðin sjálf geti komist sem skárst frá þessu og hvernig þjóðin eigi sameiginlega að höndla ástand sem skapast við slíkar aðstæður. Nánast ekkert er talað um hvað almenningur eigi að gera sjálfur. Bara að hinir og þessir eigi að gefa fyrirmæli á meðan faraldurinn stendur yfir.

Tökum sem dæmi örstuttan kaflia um matvæli. Í honum eru tilmæli til matvöruverslana. Þar er ekkert talað um magn matvæla sem þurfa að vera í landinu. Heldur eru óljós fyrimæli um að birgja sig upp af nauðsynlegum vörum samkvæmt tilmælum frá embætti Landslæknis. Ekkert er talað um magn og hversu lengi matvælin eiga að duga. Meira er talað um að lögreglan þurfi að vakta búðirnar.

En ég spyr, hver er birgðastaðan núna? Eru til matarbirgðir í landinu til 12 vikna. Svo er talað um veirulyf verði skömmtuð. Eru til veirulyf sem hafa áhrif á COVID-19 vísusinn og ef svo er, hvað mikið er til af þeim í landinu?

Nú eru Kínverjar t.d. að prufa víruslyfið „remdesivir“ við COVID-19. Eigum við það lyf til? Nú liggur fyrir að um 5% sýktra muni þurfa öndunaraðstoð sem í verri sviðsmyndinni eru 8000 manns. Eru til öndunarvélar og sjúkrarúm fyrir allt þetta fólk?

Ég verð bara að segja að ég fyllist alls ekki trausti þegar ég les þetta. Er ekki skynsamlegra að hvetja fólk til að byrgja sig upp af matvælum og byrja að stunda skipulagða sóttvarnarhegðun á vinnustöðum og í prívatlífi. Væri ekki skynsamlegra að nota færið núna, áður en þetta hellist yfir okkur. Hefja þjóðarátak í því að kenna þjóðinni að forðast smitleiðir og læra hvernig komast megi hjá smiti? Æfa sig í því að halda fjölskyldu sinni í sóttkví, sem er örugglega heilmikið og flókið mál og sjá vankantana á því núna og laga þá áður en þetta skellur á. Er ekki svolítið seint að byrja á því þegar faraldurinn nær hámarki?

Auðvitað eru í þessari áætlun ágætlega útfærðar áætlanir um lokun landsvæða og nauðsynlegur strúktúr stjórnsýslunnar í faraldri teiknaður upp í skipuritum. Eins og ég sé þetta hins vegar þá getur engin viðbragðsáætlun talist alvöru viðbragðsáætlun ef fólkið í landinu hefur ekki lesið hana, hefur enga hugmynd um hvernig á að framkvæma hana og veit ekkert um hvað hún snýst. Og svo verður mér algerlega flökurt þegar sí og æ er verið að leggja áherslu á að ekki megi skapa uppnám í samfélaginu vegna faraldursins.

Við fólkið í þessu landi getum alveg metið það hvort við eigum að vera stressuð yfir yfirvofandi faraldri sem mun að öllum líkindum leggja tvö til þrjú þúsund íslendinga að velli. Þá miða ég við dánartíðni annarstaðar í heiminum.

Er ekki betra að hafa áhyggjur af þessu núna og gera eitthvað í málunum heldur en að fljóta sofandi að feigðarósi? Hefur einhver sett sig eitthvað inn í þetta? Það væri gott að fá málefnalega umræðu.

Höfundur er píanóleikari og M.B.A. og leiddi m.a. Indefence-hópinn.