Ætlum við nokkuð að falla lóðbeint aftur á rassgatið?

Eftir Gest K. Pálmason:

Eins og margir hafa bent á og flest okkar eru að upplifa á eigin skinni eru óvenjulegir tímar svo ekki sé meira sagt. Það er þó ekki á margra vitorði að búið er að kortleggja ferð samfélaga eins og okkar í gegnum krísur sem þessar á marga vegu, meðal annars tilfinningalega.

Þó svo ekki sé hægt að segja til upp á dag hvar við erum stödd á kúrfunni er áhugavert að heimsækja módelið og staðsetja sig í því. Ef þú ert með kort er jú líklegra að þú endir á réttum stað, eða getir sneitt hjá hindrunum á leið á áfangastað.

Hetjufasinn:

Samfélagið okkar hefur staðið þétt saman í þeim aðgerðum sem staðið hafa hingað yfir í baráttunni við COVID-19.

Við treystum sérfræðingunum, fáum hetjusögur úr heilbrigðiskerfinu, fyllumst orku og stolti yfir að tilheyra þessu magnaða samfélagi, einkafyrirtæki leggja til sérhæfðan sjúkrabúnað „nafnlaust“, við ferðumst innandyra, semjum lög, framleiðum „Hlýðum Víði“ boli, upplifum tilgang, leggjum af mörkum, verslum fyrir frænku í sóttkví, sækjum í öryggi kjarnafjölskyldunnar og hvað gerist? Við náum frábærum árangri í baráttunni við veiruna, stöndumst álagið og horfum nú á farsótt í rénun.

Fyrstu skrefin í afléttingu hafta hafa verið tilkynnt og vorið er komið. Þetta er kallað hveitibrauðsdagarnir.

Fjölmiðlar hætta að flytja fréttir af þeim sem standa sig vel og fara að fjalla um það sem gengur illa

En nú tekur að öllum líkindum við nýtt tímabil, líklega í haust. Sagan segir að flestir þeirra sem týni lífinu á Everest látist á leiðinni niður. Líklega er það vegna þess að ef markmiðið þitt er að ná toppnum þá hefur þú þá þegar náð því og verður örlítið kærulausari á leiðinni niður.

Ef markmiðið er að komast á toppinn og komast heill heim horfir málið allt öðruvísi við og þú þarft að hafa augun á boltanum lengur. Nú brennur á okkar samfélagi að hafa augun á boltanum!

Aftenging:

Næst mun líklega taka við mjög krefjandi tímabil þar sem við munum takast á við (ó)fyrirséðar afleiðingar þessa ástands og flestum er þá tíðrætt um efnahag.

Á þessum tímapunkti áttum við okkur á því að verkefnið er líklega stærra en við héldum, það muni taka lengri tíma og muni hafa meiri breytingar í för með sér en við ætluðum. Að kerfin sem við trúðum á og hjálpuðu okkur í gegnum heilsufarsverkefnið hafi ekki það sem til þarf til að koma okkur í gegnum samfélagslegu- og efnahagslegur áskoranirnar og við förum að efast um þau og aftengjast þeim.

Það getur verið sálrænt erfitt.

Hér upplifir maður tilfinningar eins og maður hafi það ekki af, sé orkulaus, að brenna út, sér ekki fyrir endan á verkefninu. Fjölmiðlar hætta að flytja fréttir af þeim sem standa sig vel og fara að fjalla um það sem gengur illa, hvað misfórst og mistókst. Brestir koma í samstöðuna og það vaknar tilhneiging til að einangra sig, ef ekki alveg einn þá með „sínu fólki“.

Aukin spenna og pirringur vaknar.

Hvergi skiptir meira máli að gangast við og vinna með eigin líðan og farsæld en á þessu tímabili. Viðurkenna sannleikann eins og hann er en mæta honum með von og bjartsýni að vopni.

Síðan munum við ná botni og byrja að stíga, fyrst tvö skref áfram og eitt afturábak á sífellt meiri hraða þar til við höfum fundið okkar nýja norm. Þá fyrst gefst tími til að líta tilbaka og athuga hvað við létum flakka af því gamla, hvaða nýtt varð til og hvernig við ætlum að ná sáttum við nýtt norm.

Sátt við nýtt norm. Innihalda og vaxa upp úr í visku. Þar er endamarkið. Þar til næsta áskorun kemur.

Gestur K. Pálmason.

Ef við getum tekið eitthvað gott með okkur úr hetjufasanum yfir í aftengingarfasann og síðan visku út úr heildarkrísunni, þá er eitthvað áunnið.

Ef við föllum lóðbeint aftur á rassgatið á það þroskastig sem við vorum á fyrir krísu þá verður sársaukinn ekki til neins. Ég held við ættum ekki að velja þá leið.

Höfundur er stjórnendaþjálfari.