Ætti fremur skilið fálkaorðu en sitja undir skítkasti kommúnista, sósíalista og stjórnleysingja

Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri og verðandi sendiherra í Rómaborg.

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Hér á eftir fer mitt ‘Homage’ eða ‘Laudatio’ til yfirmanns míns, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins. Að mínu mati má það furðu sæta, að nú skuli sæta gagnrýni, þegar einhver valdamesti embættismaður landsins, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, ákveður að hætta sem slíkur og er skipaður sendiherra í Rómarborg eftir afar glæsilegan og farsælan feril sem embættismaður í yfir 30 ár.

Það er erfitt að stjórna fjármálaráðuneytinu við hvaða aðstæður sem er, en fáir hafa fengið jafn oft jafn erfiða stöðu í fangið og embætismaðurinn Guðmundur Árnason. Menntun embættismannsins er heldur ekki af lakari endanum; stúdent frá MH, bakkalárpróf í stjórnmálafræði frá Stirling-háskóla í Skotlandi 1989, meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá háskólanum í Sussex í Englandi 1990 (Wikipedia). Ef þetta er ekki menntun fyrir sendiherra, þá hvað?

Þetta eiga ekki að vera nein eftirmæli eða minningargrein, enda um gríðarlega öflugan og vel menntaðan reynslubolta á besta aldri að ræða, sem er rétt rúmlega sextur að aldri og því enn í fullu fjöri. Rétt er að minnast þess að Guðmundur hefur starfað í Stjórnarráðinu óslitið frá árinu 1991 eða í meira en 32 ár, geri aðrir betur. Og það er hreint út sagt ömurlegt að sjá jafnvel fyrrverandi 2. flokks fjármálaráðherra ráðast að þessum merkilega embættismanni fyrir það eitt að vilja söðla um síðustu árin í starfi úr einu embætti í annað. Hvað halda sumir fyrrverandi hálfpartinn lánlausir ráðherrar eiginlega að þeir séu? Eru þeir að verða stressaðir af því ‘karríerinn’ er á enda og engar sendiherrastöður í boði fyrir þá eða aðra fyrrverandi krataforingja?

Guðmundur var skipaður deildarstjóri í forsætisráðuneytið í ársbyrjun 1992, skipaður skrifstofustjóri í sama ráðuneyti frá ársbyrjun 1996, var í leyfi þaðan frá 1998 til 2000 er hann starfaði sem ráðgjafi (e. Senior Advisor) við Norræna þróunarsjóðinn í Helsinki (NDF) þar sem hann sinnti einkanlega málefnum Afríku, hóf á ný störf sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti árið 2000, settur ráðuneytistjóri í menntamálaráðuneyti í september 2002, skipaður ráðuneytisstjóri í því ráðuneyti í mars 2003. Hann fór aftur til starfa í forsætisráðuneytinu frá janúar 2009 til loka apríl sama ár (Wikipedia).

Guðmundur var settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu í júni 2009. Þetta var sem sagt sá embættismaður sem ásamt vösku liði stóð vaktina í hruninu. Þetta er maðurinn sem stóð frammi fyrir því að skera þannig niður með sósíalistanum Steingrími J. Sigfússyni að flest okkar náðu með sparnaði og ráðdeildarsemi að halda eigum okkar og hafa þokkalega ofan í okkur á þessum erfiðu tímum. Ráðuneytisstjórinn gat jafnt unnið með VG ráðherra, Samfylkingunni, Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum (ekki einfalt verkefni). Þetta er maðurinn sem var vakandi og sofandi yfir velferð okkar allra (líka atvinnulífinu) eftir að bankakerfið hrundi. Þetta er maðurinn sem var í brúnni og fylgdi neyðarlögunum um bankana eftir, sem er sennilega það sem bjargaði þessari þjóð. Þetta er maðurinn sem hélt utan um gjaldeyrishöftin en tókst að afnema þau nokkrum árum síðar. Þvílík og önnur eins ‘afrekaskrá’, en þetta heldur áfram svo ótrúlegt má virðast.

Þetta er maðurinn, sem þurfti allt frá árinu 2009 að finna lausnir í erfiðum fjárlögum, gjaldeyrisskorti og algjöru tekjuhruni ríkisins. Þetta er maðurinn sem stóð í brúnni þegar tekjurnar tóku að aukast en einnig þegar þurfti að bjarga atvinnulífinu og heimilum landsins í Covid. Hversu oft hef ég séð ljósin brenna í mínu ráðuneyti – fjármálaráðuneytinu – þegar ég sjálfur var að fara heim seint að kvöldi úr Tollhúsinu við Tryggvagötu. Ég vissi að þarna voru embættismennirnir, sem allir skammast út í, að vinna sína vanþakklátu vinnu alla nóttina. Þótt ég standi stundum í ströngu við þessa sömu embættismenn, m.a. í samningaviðræðum sem formaður stéttarfélags, veit ég að þarna er unnið hörðum höndum.

Ég vil segja takk við Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra, ég vil frekar að hann verði sæmdur stórriddarakross íslensku fálkaorðunnar með stjörnu – enda á hann þessa orðu meir skilið en flestir aðrir – en að þurfa að sitja undir þessu skítkasti kommúnista, sósíalista og stjórnleysingja. Við þyrftum í raun fleiri óeigingjarna og vinnusama embættismenn á borð við Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og verðandi sendiherra Lýðveldisins Íslands í borginni eilífu (l. Urbs Aeterna), höfuðborg trúarinnar (l. Caput fidei), höfuðborg heimsins (l. Caput mundi) við árbakka fljótsins Tíber í hinni undurfögru Ítalíu, sem ég elska svo heitt.

Congratulazione per la promozione! Te la meriti!

P.S. Megi skítkastið í garð embættis- og stjórnmálamanna nú byrja og vona ég að það verði ekki af lakari endanum.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.