Af hvalaathvarfi, köfurum sem leiðbeina löxum og afstöðu til náttúruverndar

Viljinn: Áskell Þórisson.

Eftir Áskel Þórisson:

Íslendingar eru mögnuð þjóð. Við máttum vart vatni halda af hrifningu þegar nokkrir landar okkar hófu að arðræna landið í byrjun þessarar aldar og nú viljum við ólm virkja hverja sprænuna á fætur annarri svo hægt sé að selja nokkrum héruðum á meginlandinu örlítinn hluta af þeirri orku sem þau þurfa á að halda. Við erum meira að segja tilbúin til að fórna nokkrum náttúruperlum í þessu sambandi.

Afstaða okkar til framtíðarinnar kemur víða fram. Stjórnvöld hafa heimilað veiðar á hval í óþökk alþjóðasamfélagsins og þeirra sem láta sig náttúruna varða. Laxeldi í sjó er talið af hinu góða, það gefi góðan pening, og margir hafa af því litlar áhyggjur þótt eldislax sleppi og eyðileggi náttúrulega laxastofna. Á dögunum kom sú hugmynd upp á yfirborðið að kafarar svömluðu í kringum netbúr laxanna og bæðu þá laxa sem sleppa út að hypja sig inn á nýjan leik. Náttúruvernd hefur oftar en ekki verið lögð til hliðar þegar atkvæði eru annars vegar.

Áskell Þórisson.

Í Kína bíða tveir hvalir eftir því að gerast sýningargripir í „hvalaathvarfi“ í Vestmannaeyjum. Leiðindaveður og lítt nothæf milljarða höfn í Landeyjum kom í veg fyrir að hægt væri að flytja mjaldrana til landsins um daginn. Ferðalag hvalanna hlýtur að kosta umtalsvert fé. Þannig er búið að skreyta flugvél frá Cargolux af þessu tilefni og athvarfið hefur varla verið billegt. Hver veit nema hvalirnir verði til þess að hingað komi nokkrir flugvélafarmar af ferðafólki, en við mættum minnast þess að átta milljón tonn af plasti enda árlega í hafinu með ófyrirséðum afleiðingum. Spyrja má hvort ekki væri skynsamlega að koma náttúrulegum heimkynnum hvalanna í gott lag í stað þess að flytja hvali heimshorna á milli með flugvélum.

Svona rétt í restina. Enn er verið að grafa skurði og þurrka upp votlendi – og það í óleyfi. Ekki má byggja svo auman kofa að ekki þurfi að fá leyfi frá skipulagsyfirvöldum. En stjórnvöld láta óátalið þótt sé aukið á loftslagsvandann með skurðgreftri.

Halldór Laxness sagði:

„Því hefur verið haldið fram að íslendíngar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“

Við ættum að hugsa um þessi orð Halldórs um leið og við færumst nær bjargbrúninni.

Höfundur er fv. ritstjóri og félagi í Landvernd. ask@simnet.is