Af hverju eigum við Sigmar að halda vinnunni en Bergþór að láta sig hverfa?

Bergþór Ólason alþingismaður í Kastljósinu.

Eftir Gísla Sigurðsson:

Fjölmiðlamenn hafa mikið vald. Þeir hafa sumir jafnvel meira vald en stjórnmálamenn, því þeir hafa stundum vald yfir örlögum stjórnmálamanna. Þess vegna væri hugsanlega rétt að kjósa helstu áhrifavalda fjölmiðla beinni kosningu. Alla vega ríkisfjölmiðla. Fréttastjórar RUV hafa án efa meira vald en forseti Íslands.

Fyrir nokkrum árum starfaði Sigmar Guðmundsson í Kastljósi RUV. Skeleggur og skemmtilegur fjölmiðlamaður. Hann stýrði þar umfjöllun um pólitík og dægurmál í um fimmtán mínútur á dag á besta sjónvarpstíma, fjóra daga vikunnar. Hann átti við áfengisvanda að stríða. Hann hefur sjálfur lýst því að fyrir kom að hann brást samstarfsmönnum sínum og vinum illa. Jafnvel oftar en einu sinni.

Skandölum hans var þó ekki útvarpað og enginn fjölmiðill andaði ofan í hálsmálið á honum til að verðmeta afsökunarbeiðnirnar sem hann bar fram. Þær fékk hann að bera fram í friði. Eftir einhvern slíkan skandal ákvað hann að taka sig á og hætti að drekka. Hann stýrir núna útvarpsþætti hjá sama fyrirtæki, þar sem hann fjallar um pólitík og dægurmál í tvo til þrá tíma á morgnana á besta útvarpstíma, fimm daga vikunnar. Hann fékk annað tækifæri. Enginn hefur kosið hann til þessara starfa sem veita honum þó mikið vald.

Lítið gert úr afsökunarbeiðnum

Alþingismaðurinn Bergþór Ólason varð sér til skammar á fylleríi, brást samstarfsmönnum sínum og vinum illa. Það komst upp og var útvarpað yfir okkur öll. Margsinnis. Hann hefur beðist afsökunar, en fjölmiðlamenn keppast við að gera lítið úr afsökunarbeiðnum hans. Til dæmis fyrrum samstarfsmenn Sigmars í Kastljósi RUV og Sigmar sjálfur í sínum morgunþætti.

Gísli Sigurðsson.

Bergþór hefur tekið sér launalaust frí frá þeim störfum sem hann var kjörinn til í tæpa tvo mánuði til að leita sér aðstoðar áfengisráðgjafa og sálfræðings. Til að taka sjálfan sig í gegn og bæta sig. Hann hefur tekið sér ótímabundið leyfi frá áfengi. Slík leyfi verða sum löng og sum ekki eins löng, það vitum við Sigmar báðir. Margir telja að hann eigi ekki að fá annað tækifæri. Hann eigi einfaldlega að láta sig hverfa út í ystu myrkur.

Sjálfur hef ég átt mín misstignu spor. Ég hef vaknað illa timbraður og með óbærilegan móral. Ég hef þurft að biðja fólk afsökunar á hegðun sem ég skil ekki sjálfur. Hegðun sem ég viðhafði engu að síður. Við Sigmar og Bergþór erum því alla vega þrír í þessum sporum.

Hver á að fá annað tækifæri og hver ekki?

Hvernig ákveða menn hver á að fá annað tækifæri og hver ekki? Af hverju eigum við Sigmar að halda vinnunni en Bergþór að láta sig hverfa? Hvað gefur okkur Sigmari rétt til að dæma æruna af Bergþóri. Erum við Sigmar ekki vanhæfir til þess? Og ef við dæmum hann engu að síður, gerir það okkur að góðum og réttsýnum mönnum?

Viljum við í alvöru lifa í svona dómhörðu samfélagi? Viljum við taka aftur upp gapastokk og opinberar hýðingar? Viljum við ekki frekar sýna hvert öðru svolítið umburðarlyndi? Og hvað með fyrirgefninguna, töpum við nokkru á að fyrirgefa hvert öðru þegar við misstígum okkur? Jafnvel þó að við séum hvorki að misstíga okkur í fyrsta, né síðasta sinn?

Mér er ljóst að ástæða þess að ég skrifa þetta er að miklu leiti sú hvar ég stend í pólitík. En ég velti fyrir mér hvort það geti verið að þeir sem harðast dæma geri það líka vegna þess hvar þeir standa í pólitík.

Höfundur er skrifstofustjóri.