Af hverju má ekki ræða málin fyrir kosningar?

Eftir Ólaf Ísleifsson:

Umræða um málefni hælisleitenda hefur hafist á flug. Staðreyndir tala sínu máli: Úgjöld til málaflokks hælisleitenda hafa fertugfaldast á starfstíma Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Hver tók ákvörðun um fertugföldun útgjalda? Innflutningur fólks nemur 70 þúsund manns á umliðnum árum. Hver tók ákvörðun um slíka fjölgun? Við tökum við hælisleitendum margfalt á við það sem gerist í nágrannalöndunum. Hvenær var það borið undir þjóðina? Hver tók ákvörðun um innflutning á fólki sem svarar til íbúafjölda Grindavíkur eða Vestmannaeyjabæjar á ári hverju?

Hver tók ákvörðun um að leggja ofurálag á skóla, spítala, heilsugæslu og félagsþjónustu? Málaflokkurinn er í ljósi sláandi staðreynda kominn upp á yfirborðið eftir að hafa verið þaggaður niður árum saman.

Kúvending Samfylkingar og Viðreisnar

Formenn Samfylkingar og Viðreisnar hafa lýst kúvendingu í málefnum hælisleitenda. Samfylkingin sýnist klofin ofan í rót og gengur maður undir manns hönd til að róa og sefa flokksfólkið. Mest munar um fyrrum formenn, Össur og Ingibjörgu Sólrúnu, en Ríkisútvarpinu sem flokksútvarpi Samfylkingar þótti öruggara að fá háskólamann til að útskýra að stefnubreytingin væri engin þvert á það sem öllum var ljóst. Viðsnúningurinn er algjör í ljósi þess að þingmenn þessara flokka hafa beitt sér gegn öllum tillögum til að bæta úr skák í lagalegu tilliti. Helstu talsmenn Samfylkingar þarf ekki að nefna og heldur ekki helsta talsmann Viðreisnar sem gengið hefir fram af ósérhlífnu ofurkappi tilnefndur til verkefnisins af formanni flokks síns.

Samfylking og Viðreisn skynja viðhorfsbreytingu í samfélaginu og kollvarpa fyrri stefnu af því tilefni. Þessi stefnubreyting kann að verða meira í sýnd en reynd og geta kjósendur naumast vænst þess í ljósi fyrri málflutnings að hugur fylgi máli. Um þessar mundir reynir á hvort þessir flokkar láti af andstöðu við nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi málaflokksins.

Vilja ekki umræður

Nú bregður svo við að kallað er eftir því að þessi málefni verði ekki rædd í aðdraganda kosninga. Þorgerður Katrín vill ekki umræður enda veit hún að ekki þarf nema spila ræður helsta talsmanns flokks hennar til að sýna fram á öfgafulla stefnu Viðreisnar fram til þessa, stefnu sem hún deilir með Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum að umtalsverðu leyti. Egill Helgason, sem virðist tala af umhyggju fyrir Samfylkingunni, hvetur til þess að málið verði ekki rætt. Hann skilur að slík umræða gæti orðið skeinuhætt flokki sem glímir við alvarlegan klofning í málaflokknum, jafnvel þótt danski systurflokkurinn hafi tekið upp stefnu danska þjóðarflokksins, sem lengst vildi ganga til að bæta úr tjóninu sem fyrri stefna hefur valdið.

Já, sú hin sama stefna og við höfum fylgt fram á þennan dag. Stefna opinna landamæra að kröfu fámennra öfgasamtaka sem norrænir stjórnmálamenn lýsa sem mistökum.

Ný lína í sandinn

Málfundafélagið Frelsi og fullveldi ályktaði fyrir fullu húsi mánudaginn 26. febrúar að loka landamærunum í ljósi ábendinga Einars S. Hálfdánarsonar hrl. með reglugerð ráðherra og án lagasetningar, að setja skorður við fjölskyldusameiningu í hátt við norrænar fyrirmyndir og að hafna kröfu um svonefnda inngildingu sem felur í sér að Íslendingum verði gert að semja sig að siðum og háttum aðkomufólks í stað þess að halda uppi kröfu um aðlögun þeirra sem hingað vilja leita.

Þá var samþykkt að þeim sem fá samþykki fyrir beiðni um hæli verði gert að lýsa yfir stuðningi við vestræn gildi, lýðræði og mannréttindi, sér í lagi kynjajafnrétti.

Í öllum þessum efnum var ný dregin lína í sandinn. Aðrir munu fylgja á eftir.

Höfundur er doktor í hagfræði og fv. alþingismaður.