Afsögn fjármálaráðherra: Yfirlýsing Bjarna Benediktssonar

Hér fer á eftir í heild sinni söguleg yfirlýsing Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins er hann tilkynnti óvænt um afsögn sína sem fjármála- og efnahagsráðherra á blaðamannafundi í morgun:

„Mér er brugðið og ég er miður mín eftir að hafa séð álit umboðsmanns Alþingis.

Ég vil byrja á að segja að ég hef algjörlega hreina samvisku í þessu máli.

Ég tel að margt í niðurstöðu umboðsmanns orki tvímælis og sé í andstöðu við það sem ég hef áður fengið ráðleggingar um.

Stundum er sagt að lítil þúfa velti þungu hlassi og í þessu tilviki snýst málið um þátttöku eins aðila, sem er mér nákominn, í útboði við sölu Íslandsbanka. Í heild voru þátttakendur í útboðunum tveimur um 24 þúsund.

Það er óumdeilt að ég hafði ekki upplýsingar um þátttöku félagsins. Það kemur mér því verulega á óvart að komist sé að þeirri niðurstöðu að mig hafi brostið hæfi í málinu.

Þetta á ekki síst við í ljósi þess hvernig sölumeðferð eignarhlutanna var háttað en öll framkvæmd sölunnar var lögum samkvæmt í höndum Bankasýslunnar. Hún fór fram með útboðsferli þar sem að mínu áliti var ógerningur fyrir ráðherra að fylgjast með mögulegum vanhæfisástæðum í ferlinu.

Hvað sjálfstæði Bankasýslunnar snertir telur umboðsmaður að stjórnunar- og eftirlitsskylda með stofnuninni sé umfram það sem við höfum gengið út frá til þessa undanfarinn áratug. Það kemur á óvart. Einkum þá vegna þess að engar athugasemdir hafa verið gerðar hvorki um stjórnunar- og eftirlitsþáttinn, né aðgát með hæfisreglum, eftir fyrra útboðið.

Ég legg áherslu á að öll aðkoma mín að málinu var hin sama, skref fyrir skref, í almenna útboðinu fyrir skráningu bankans í Kauphöll og í því útboði sem hér um ræðir.

Þótt það hafi lítið vægi gagnvart hæfisreglum verð ég að taka fram að það er að mínu áliti útilokað að önnur niðurstaða hefði orðið í útboðinu, þótt til þess hefði komið að ég af vanhæfisástæðum hefði falið öðrum að taka þær ákvarðanir sem málið snýst um.

Ég vil taka af allan vafa um að ég tel mikilvægt að virða álit Umboðsmanns Alþingis, sem er sérstakur trúnaðarmaður þingsins, þótt ég hafi á því þessar skoðanir.

Álit hans er að mig hafi brostið hæfi í málinu. Ég virði þá niðurstöðu.

Ég tel, í ljósi þessarar niðurstöðu, að mér sé í reynd ókleift að starfa áfram sem fjármála- og efnahagsráðherra að frekari undirbúningi sölu á eignarhlutum ríkisins.

Ég tel sömuleiðis afar mikilvægt að skapa frið um embættið og öll þau mikilvægu verkefni sem þar eru unnin.

Af þeirri ástæðu hef ég ákveðið að láta af störfum sem fjármála- og efnahagsráðherra. Ég hef þegar rætt þessa niðurstöðu mína við forsætisráðherra. Ég mun ræða við samstarfsflokka mína og þingflokk Sjálfstæðisflokksins um næstu skref.

Ég undirstrika með þessari ákvörðun að völdum fylgir ábyrgð.

Sem formaður Sjálfstæðisflokksins vil ég senda þau skýru skilaboð að við störfum að almannaheill af fullum heilindum og að við berum virðingu fyrir þeim niðurstöðum sem stofnanir samfélagsins komast að, jafnvel þótt við séum ekki alltaf að fullu sammála þeirri niðurstöðu.“