Hversu yndislegt það er,
að setjast niður eftir góða fjölskyldumáltíð, hellt er upp á kaffi, fólk sest svo niður í sófa og einhver stingur upp á því að fara í gegn um fjölskyldualbúmin.
Þegar ég var lítil fannst mér mikið sport að fara með filmur í framköllun, í Sælgætis-og video höllinni sem var rétt hjá heima. Þar á bak við sælgætisborðið var starfsmaður á fullu að taka upp nýframkallaðar myndir og hengja upp, ég efast ekki um að hann hafi rekið upp hlátur við og við í vinnunni. Eða kannski var hann kominn með leið á þessu og óskaði í hljóði eftir tæknivæddari tíma og sjálfsafgreiðslu á sælgætisbörum..
Síðar sótti ég myndirnar, þar sem þær voru glansandi fínar í pappírsumslagi. Mamma tók síðan við þeim og raðaði vandlega inn í albúmin, sem voru mjög skipulögð enda mikilvægt að hafa ævi okkar vel setta upp fyrir komandi kynslóðir og gesti að skoða.
Það sem hægt var að hlæja að einni mynd, þessi eina mynd var tekin ( ekki 200 myndir og sú besta valin ). Þessi mynd náði einhverju augnabliki þar sem einhver var ekki tilbúinn, þar sem einhver var bleyjulaus á strigaskóm að borða banana, þar sem einhver var með pirringssvip yfir myndatökunni en gat ekkert gert í því að svipurinn festist á filmu, það var ekki hægt að snúa við uns myndin hafði verið tekin.
Myndin þar sem ég tek gelgjukast í miðjum Hallormsstaðarskógi því ég byrjuð að fá of stóran skammt af hormónum á unglingsárunum. Í dag hefði ég farið í símann hjá mömmu og eytt myndinni, en þarna var það ekki hægt. Þetta augnablik mun að vera inn í gráa albúminu sem inniheldur ferðalög okkar um landið svo lengi sem við lifum.
Við sem vorum það heppin að vera uppi á framköllunartímanum munum öll eftir atviki þar sem gestir fengu að skoða barnamyndir og rekja augun í mynd þar sem þú ert nýfæddur einstaklingur, eða skríðandi um á bleyjunni nýbúin að gera eitthvað af þér.
Talandi ekki um ef það náðist mynd þegar þú varst búin að gera þarfir þínar í heita pottinn, eða þegar þú varst lasinn og lást með kaldan þrottapoka að horfa á teiknimynd í náttfötunum, þegar þú dast á kassabílnum og fórst að gráta á mjög dramatískan hátt. Sú tilhugsun að tveir gestir í heimsókn myndu sjá þessar myndir af þér, var nokkuð skömmustuleg á köflum.
Í dag eru þessir gestir heima nokkur hundruð til þúsund manns….
Filmur og pappírsmyndir eru eyðanlegir hlutir, en internetið ekki – enn sem komið er.
Hvernig á börnunum okkar eftir að líða með þá tilhugsun að mörg hundruð eða jafnvel mörg þúsund manns ( fer eftir því hversu vinsæl mamma og pabbi eru = hversu marga ókunnuga þau eru með á miðlum sínum ) hafa séð þeirra stundir ?
Hvernig myndi mér finnast sú tilhugsun að mörg hundruð mannst hafi séð og geti ennþá leitað að og fundið myndir af mér lítilli ?
Nú er ég bara að velta þessu fyrir mér, því okkar börn eru sú kynslóð sem er að upplifa þetta. Við eigum bara eftir að heyra betur í þeim í framtíðinni hvað þeim finnst um að hafa verið á netinu fyrir alla að sjá á viðkvæmum augnablikum í þroskaferli sínu. Nú eru börn farin að móðgast ef mamma og pabbi eru ekki að skrásetja allar þeirra stundir á netið, afhverju ertu ekki að taka myndir mamma ? Er ég ekki að gera eitthvað sniðugt núna ? Ætli þeim muni ekki finnast þetta sjálfsagður hlutur, að uppeldi þeirra hafi verið sýnilegt ókunnugu fólki ?
Ætli þeim muni hlýna um hjartarætur þegar þau sjá að heilt bæjarfélag hafi óskað þeim góðs bata þegar þau voru með hlaupabólu ?
Þetta er ákveðið áhyggjumál, ef þau eru vön því frá unga aldri að fá athygli og hrós frá svo mörgum einstaklingum, hvernig eiga þau eftir að höndla það í framtíðinni ef athyglin fer dvínandi ? Við erum byrjuð að sjá þetta í ungum börnum sem falla saman andlega yfir því að fáir smella like á myndina þeirra. Þetta er sjokk fyrir sálina þeirra, því þeirra áfangar og árangur eru metnir út frá athygli á internetinu. Nú er ég eins og allir, ég tek myndir af barninu mínu og læt inn á netið. Ég hef líka látið mynd af sjálfri mér sem barn inn á internetið. Geri það í þessum pistli. Svo ég skrifa þetta ekki sem eitthvað prent- eða siðferðisgúrú.
Það sem mig langar til þess að gera sjálfri er að búa til albúm, ég þekki fólk sem hefur gert það eða býr til bækur á netinu og sendir í prentun. Slide show á skjá er líka vinsælt, en það vantar þá þetta áþreifanlega.
Það er nefnilega eitthvað sérstakt við þessa stund, að fara og ná í myndirnar og að skoða lífið sitt í föstu formi með sínum nánasta hring. Við verðum að gæta þessarar hefðar því eins og staðan er núna fer þetta að hverfa. Myndir eftir ljósmyndara á veggjum og hillum þar sem allir eru fínir og prúðir er yndislegar, en myndirnar í albúminu sem hægt að hlæja að eru ómetanlegar. Eitt í lokin, munum að setja allar myndir á harðan disk eða í skýjið og hvað sem þetta heitir allt saman. Ég er alltaf að minna sjálfa mig á það og gleymi því jafn óðum, en ef síminn glatast og myndirnar eru allar í honum, þá getum við ekki gert neitt af ofanverðu.
Þá er hugleiðingum mínum um þetta lokið í bili.
Í bili…