Almannafé og baráttan um brauðið

Eftir Ernu Ýr Öldudóttur:

Nú mætast stálin stinn í vinnumarkaðsdeilum, þar sem samtök launþega, fulltrúar vinnumarkaðarins og jafnvel ríkið eigast við.

Allir telja þeir sig hafa réttlætið sín megin og fyrir þá sem hafa þó ekki nema lágmarksþekkingu á því hvernig hagkerfið virkar, þá er auðvelt að sjá að verkföll og launahækkanir í gegnum kjarasamninga sem ekki er innistæða fyrir, munu leiða til versnandi lífskjara á landinu. Sérstaklega fyrir þá sem eru illa staddir.

Ástæðan er einföld, launahækkanir geta kippt rekstrargrundvellinum undan fjölmörgum fyrirtækjum, sem munu neyðast til að hætta starfsemi eða fækka störfum. Aðrir munu þurfa að velta hækkununum út í verðlagið, þar sem það eru jú launþegar sem vinna við að búa til vörurnar og þjónustuna sem þau selja. Verðmæt störf munu glatast og launahækkanirnar tapast inn í verðlagið.

Þar sem er reykur, þar er eldur

En það má ekki skella við skolleyrum og forherðast gagnvart kröfum launþega — auðvitað hafa launþegar og fulltrúar þeirra eitthvað til síns máls. Þar sem er reykur, þar er eldur og stundum gleymist að það er mikilvægara að hlusta en að tala.

Eitthvað um 95% allra fyrirtækja í landinu eru smáfyrirtæki. Þetta eru lítil fyrirtæki, þar sem eigendur hafa jafnvel lagt allt sitt undir, lánshæfi, sparnað, laun, heilsu og tíma með fjölskyldu og vinum til að byggja upp. Að skapa þó ekki nema eitt starf, fyrir þessa aðila, er grettistak sem ekki einu sinni öllum lánast að framkvæma.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra kynnti skattaútspil í vikunni.

Jafnan er lítið um ofurlaun hjá þessum fyrirtækjum, einstaka hvalreki þegar vel gengur, en áhyggjur og aðhald þegar harðnar á dalnum.

Fyrirtækjarekstur á Íslandi er og hefur alltaf verið fjárhættuspil, oft sökum ósanngjarnra og erfiðra skilyrða sem sett eru m.a. af hinu opinbera í umhverfinu.

Hvar eru ofurlaunin?

En hvar ætli mestu ofurlaunin sé að finna?

Þau er varla að finna hjá fyrirtækjum í almannaeigu sem njóta engrar sérstakrar verndar eða fyrirgreiðslu í lögum og reglum, því að þar sem hagnað er að finna, þangað flykkist samkeppnin og með henni þarf að skipta gróðanum til lengri tíma litið í heilbrigðu og eðlilegu samkeppnisumhverfi.

Fyrirtæki í eigu hluthafa, munu á einhverjum tímapunkti þurfa að svara fyrir ofurlaun, nema auðvitað að stjórnendur þeirra séu að standa sig svo gríðarvel að hluthafarnir ákveði að þeir séu algerlega ómissandi miðað við góða arðsemi.

Ef maður skoðar á hinn bóginn þá aðila sem þurfa ekki að keppa af hörku um gróðann, heldur starfa í skjóli valdboðs, greiðsluskyldu, leyfisveitinga, viðskiptahindrana, fákeppni, einokunar og annarra takmarkana, kemur í ljós að minna þarf að hafa áhyggjur af daglegum rekstri.

Þessir aðilar eru gjarnan í áskrift að almannafé, ekki ósvipað og ríkið og sveitarfélögin. Þeir sem búa við þetta þægilega rekstrarumhverfi eru að sjálfsögðu ríki og sveitarfélög sem hækka sín eigin laun og álögur á móti eins og þeim hentar, ýmsir sjóðir sem settir hafa verið á laggirnar af hinu opinbera, lífeyrissjóðir sem sækja sínar tekjur í gegnum greiðsluskyldu upp úr vasa almennings, ríkisfjölmiðillinn og tryggingafélögin sem geta að hluta sótt sínar tekjur í gegnum greiðsluskyldu, veitufyrirtæki, tæknifyrirtæki, bankar, greiðslukortafyrirtæki og flugrekstrarfyrirtæki sem starfa í skjóli fákeppni og þeirrar staðreyndar að fólk getur ekki verið án þjónustunnar, og verkalýðsfélögin og fjarskiptafyrirtækin að hluta.

Almannafé víðar en í ríkissjóði

Almannafé er því víðar að finna en í ríkissjóði og hjá sveitarfélögunum. Einhvernveginn grunar mann að mestu ofurlaunin til lengri tíma litið sé einmitt að finna einmitt hjá hinu opinbera, hálf-opinbera og aðilum sem starfa í skjóli hagstæðra reglna, sem hið opinbera vald hefur sett um þeirra rekstrarumhverfi.

Frá upphafi fundar í Karphúsinu í gær. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

Það má alveg kalla suma þessa aðila einkaaðila, en þegar betur er að gáð eru þeir það ekki nema að nafninu til. Almenningur hefur ekkert val um að hætta að skipta við þá eins og neytendur og hluthafar geta gert hjá einkafyrirtækjum í eðlilegu samkeppnisumhverfi.

Þarna er að finna stjórnir og stjórnendur sem sitja í skjóli þess að neytendur eru algerlega varnarlausir gagnvart sjálftöku þeirra, þar sem ekki er möguleiki á að gera það sem neytendur og almennir hluthafar ættu að geta gert. Hætta í viðskiptum eða beint þeim til samkeppnisaðila. 

Hvað með ofurskatta?

Nú gæti einhverjum dottið í huga að setja ofurskatta á ofurlaun þessa fólks, en það er gott að átta sig á því hvaðan ofurlaunin koma áður en farið er að velta slíkum möguleikum upp.

Þau koma nefnilega beint úr vasa almennings og ofurskattur af þeim rynni því þaðan í ríkissjóð. Gott dæmi um það er bankaskatturinn. Það eru viðskiptavinir bankanna sem borga hann — ekki flóknara en það.

Skynsamlegra væri að draga úr opinberum umsvifum, stuðla að heilbrigðu rekstrarumhverfi og endurskoða forsjárhyggjuna sem ríkir um skyldu fólks til að eiga viðskipti og á hvaða máta.

Ég vona svo innilega að deiluaðilar nú átti sig á því hvaðan óánægja fólks kemur að þessu sinni og hvað það er, sem verður þeim sem vilja leggja allt þjóðfélagið undir í átökum að vopni.

Ég er þess fullviss um almennir atvinnurekendur eru ekki síður óánægðir en almennir launþegar.

Breytinga er þörf áður en það verður um seinan.

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.