Andstæðingar lögreglunnar á þingi?

Af facebooksíðu mótmælenda.

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

Þrákelkni við prinsippin henta  þeim stjórnmálamönnum illa sem eiga erfitt með að selja kjósendum áherslur sínar, stefnur og verk. Þess vegna má hafa vissa samúð með Samfylkingunni vegna þess að fáir flokkar hafa lagt eins mikið á sig til að höfða til kjósenda og oftast mistekist ætlunarverkið.

Helsta markmið flokksins var innganga í ESB og boðun jafnaðarstefnunnar. Þegar í ljós kom að fáir vilja þetta tvennt var nauðsynlegt að bregðast við.

Forysta flokksins uppgötvaði í byrjun þessarar aldar að idol alþýðunnar voru í hópi auðmanna og þá var ekkert annað en daðra við þá. Það leiddi til þess að helsti málssvari íslenskra krata ákvað að hvíla jafnaðarstefnuna um stund og halla sér að auðvaldinu. Það kom þeim í ríkisstjórn með íhaldinu og mátti varla á milli sjá hvor vildi veg auðvaldsins öflugri og meiri.

En hjörtu þessara tveggja flokka og auðvaldsins slógu í takt og mynduðu heilaga þrenningu. Svo kom hrunið og þá var jafnaðarstefnan tekin úr geymslunni og enginn vildi kannast við neitt auðvaldsdekur lengur.

Svo spunnu örlaganornirnar vef sem varð til þess að þingflokkur SF varð þrenning á þingi um stund en óþarft er að nudda þeim upp úr því.

Undrandi formaður

Í örvæntingarfullri leit að vinsældum mætir formaðurinn í mótmæli hælisleitenda á Austurvelli og undrast meinta hörku lögreglunnar.

Fulltrúi flokksins í allsherjar og menntamálanefnd grípur fegins hendi tillögu Pírata um að stefna lögreglunni á fund nefndarinnar. Núna virðist Samfylkingin veðja á Pírata vegna þess að þeir eru svo hipp og kúl.

Jón Ragnar Ríkharðsson.

Fulltrúi Samfylingar í allsherjar og menntamálanefnd hefur að eigin sögn sjaldan séð eins friðsöm mótmæli og telur umgengni mótmælenda ekkert að kvarta yfir. Líklega finnst honum umgengnin við styttu helstu frelsishetju íslensku þjóðarinnar ekkert til að kvarta yfir og mark um úrelt íhald að ergja sig á því.

Nú skal hin meinta réttlætiskennd krata sýnd í verki og löggan tekin á teppið fyrir það eitt að sinna sínum skyldustörfum. Jafnvel þótt athafnir laganna þjóna séu til skoðunar hjá nefnd innan lögreglunnar. Þingmenn hafa almennt ekki næga þekkingu á störfum lögreglunnar til að dæma þau en það hefur nefndin.

Þingmennirnir á vinstri kantinum fullyrða að lögreglan hafi farið offari í sínum störfum. Jafnvel þótt mótmælendur hafi ekki fengið leyfi fyrir þeim í byrjun (eins og öllum er skylt). Þegar fyrirmælum lögreglu er ekki hlýtt er valdbeiting eðlileg afleiðing. Það er heldur ekki í anda gildandi laga og almennrar kurteisi að sparka í lögregluþjóna.

Sporðdrekinn verður að stinga

Ekki er sanngjarnt að hengja þetta allt á Samfylkinguna, en flokkur sem vill verða burðarás íslenskra stjórnmála og láta taka sig alvarlega getur ekki hagað sér með þessum hætti.

Sporðdrekinn verður að stinga og Píratar verða að mótmæla. Ég efast um að það sé þannig hjá Samfylkingunni. Hún er þrátt fyrir allt alvöru flokkur með stefnu (sem stundum þarf að laga að tíðarandanum)  og fullt af fólki þar sem veit hvernig stjórnmálin virka.

Að sjálfsögðu ber þingmönnum öllum skylda til að styðja lögregluna í erfiðum störfum og ekki dæma hennar verk í vafasömum pólitískum tilgangi.

Eða það sem verra er — dæma á grundvelli fordóma og almennrar vanþekkingar.

Höfundur er sjómaður og formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.