Eftir Gísla Sigurðsson:
Ég veit ég þreyti stundum fólk með pólitískri umræðu, í ræðu eða riti. Það er þó sök sér með það sem ég skrifa, enginn er neyddur til að lesa það, en þeir sem umgangast mig daglega eiga ekki þá undankomuleið að slökkva á tölvunni. Ég geri því mitt besta til að tala bærilega við þá.
Frá því á unglingsárum hef ég haft gaman af að velta fyrir mér pólitískum álitaefnum og taka þátt í rökræðum um þau. Á skólaárum tók ég þátt í starfi ungra Framsóknarmanna og seinna var ég formaður Framsóknarfélags Ljósavatnshrepps um tíma. Lengra hefur frami minn í pólitík nú ekki náð, ja fyrir utan að hafa verið notaður sem uppfyllingarefni á lista Framsóknar í örfá skipti.
Skoðanir mínar á þjóðfélagsmálum mótuðust snemma og hafa örugglega tekið mið af því umhverfi sem ég ólst upp í, bænda- og kaupfélagssamfélaginu.
Ég aðhyllist jöfnuð með frjálsri samvinnu frekar en þvingaðan jöfnuð sósíalisma eða alfrjálsa tillitslausa samkeppni. Kannski var ég meira til vinstri þegar ég var yngri, allavega róttækari, en hef held ég færst frekar til hægri með aldrinum. Allar stefnur hafa þó sína kosti og engin er alröng eða alrétt.
Meira sammála sumum en öðrum
Í ein 45 ár hef ég lesið um og hlustað á málflutning stjórnmálamanna. Og eðlilega verður maður þá meira sammála sumum en öðrum. Ég tel líka að það skipti máli að fylgjast með og taka afstöðu, það er ekki alveg sama hvað gert er. Maður styður þann flokk sem býður fram þá menn sem maður er oftast sammála. Engum er maður þó alltaf sammála né alltaf ósammála.
Ég hef líka reynt að lesa og hlusta á það sem þeir sem ég er oftast ósammála segja og skrifa. Þess vegna les ég bæði það sem Davíð Oddsson skrifar og líka Ögmundur Jónasson. Jafnvel Jón Baldvin. Og það er svo merkilegt að ef maður leggur sig fram þá má oftast finna eitthvað í máli hvers og eins sem maður getur tekið undir.
Ég hef áður lýst því að í janúar 2009 sá ég í viðtali ungan mann sem ég hafði ekki tekið eftir áður. Hann var þá nýkjörinn formaður Framsóknar. Hann vakti strax athygli mína fyrir hvað hann hafði skýrar hugmyndir um hvað þyrfti að gera og líka hvernig hægt væri að framkvæma það. Ég varð því fljótlega stuðningsmaður hans.
Eitt af því sem að hreif mig var hvað mér fannst honum oftast takast að halda sig við að ræða málefni frekar en menn. Það finnst mér afar mikill kostur, þó ég viti að mér gangi alla vega að halda mig við það sjálfum. Hann hefur fengið fyllilega sinn skammt af persónulegum árásum frá mótherjum sínum. Mér dettur ekki í hug að þær hafi allar verið tilefnislausar, en oft hefur mér fundist nokkuð vanta á sanngirnina. Og eflaust hefur hann einhvern tíma svarað í sömu mynt.
Ég held þó að margir mættu taka hann sér til fyrirmyndar í málefnalegri umræðu.
Aðkoma hans skipti mestu máli
Á ýmsu hefur gengið síðan og ekki hef ég alltaf verið hrifinn af allri hans framgöngu. Það hefur þó ekki breyst að þegar hann fær frið til að tala, sem honum gengur stundum brösuglega, þá er ég oftar sammála honum en flestum öðrum. Það er heldur ekki vafi í mínum huga að við endurreisn landsins eftir hrun þá skiptu hugmyndir hans og aðkoma meira máli en nokkurs annars stjórnmálamanns, þó margir hafi að sjálfsögðu lagt þar hönd á plóg.
Ég held að sagan eigi eftir að segja alveg skýrt að það sem honum tókst að koma í framkvæmd með sinni ríkisstjórn á þeim þremur árum sem hún sat, var stórvirki. Ekkert minna en stórvirki.
Ég hef því hugsað mér að styðja Sigmund Davíð áfram á þessu ári, að minnsta kosti á meðan hann skiptir ekki um skoðun í veigamiklum málum. Ekki vegna þess að ég telji hann gallalausan eða að honum hafi aldrei orðið neitt á. Ekki heldur vegna þess að ég telji að honum verði ekki á framar. Okkur verður öllum á.
Mér hefur oft orðið á og ég veit að mér á eftir að verða ýmislegt á í framtíðinni, þrátt fyrir vilja til að gera rétt. Það sama á örugglega við um Sigmund Davíð. Það er meira en nóg framboð af stjórnmálamönnum sem hafa fátt fram að færa annað en að geta bent á galla mótherjanna. Þeir eru meðlimir haturskirkju góða fólksins. En þeir gera engin stórvirki og það kæmi mér á óvart ef þeirra verður að nokkru getið í sögubókum framtíðarinnar.
Ég styð Sigmund Davíð vegna þeirra góðu verka sem hann hefur þegar komið í framkvæmd og vegna þeirra góðu verka sem þarf að ráðast í og ég tel að hann eigi eftir að framkvæma. Þar ber nú einna hæst umbreyting fjármálakerfisins, úr kerfi sem drottnar yfir fólki og leggur á það klyfjar, einkum fátækt fólki, í kerfi sem þjónar fólkinu og léttir því lífið.
Slík umbreyting er ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. En ég trúi að hún muni koma, hún verður ekki framkvæmd af einum manni, en ég treysti engum betur en Sigmundi Davíð til að fara fyrir þeirri umbreytingu.
Höfundur er skrifstofustjóri í Þingeyjarsveit.