Axarsköft efni í heilan bókaflokk

Eftir Kristinn Karl Brynjarsson:

Þegar maður hugsar um það, þá er ansi langt síðan borgarstjóri, sem er nú framkvæmdastjóri borgarinnar, að minnsta kosti samkvæmt sveitastjórnarlögum, mætti í debatt vegna einhvers sem aflaga fór í rekstri borgarinnar. Eru þó axarsköftin efni í heilan bókaflokk eða sápuóperu í sjónvarpi.

Okkur er þó hjálpað við það  að muna hver sé borgarstjóri Reykjavíkur með því að reglulega má sjá í fréttum mann með stunguskóflu, skæri eða glas í hendi, við hin ýmsu tilefni. 

Er borgarstjóri þá gjarnan tekinn tali og ryður hann þá útúr sér illskiljanlegum  orðaflaumi um „öll þessi stóru verkefni“ sem borgin er að ráðast í.  Fæst eru þó þessi verkefni beinlínis á vegum borgarinnar, nema þá þegar átt er við bragga eða mathöll. Flest annað sem í gangi er, er í höndum byggingaraðila sem keypt hafa dýrum dómum af borginni byggingarrétt, með eða án innviðagjalds.

Kristinn Karl Brynjarsson verkamaður.

Verði einhverjum blaðamanni það á að spyrja borgarstjóra út í gagnrýni kvenkynsfulltrúa minnihlutans í borgarstjórn á athafnir eða athafnaleysi hans, þá er ekki óalgengt að  borgarstjóri sjái brúðustjóra í öllum hornum,  í Hádegismóum og víðar sem stjórni þessum konum og skrifi handritið fyrir þær. Sjálfsagt er  þá borgarstjóri  að vísa til þess að þessi kona geti vart haft til þess vitsburði eða þekkingu til þess að geta haft álit á því máli sem er til umræðu. 

Maður freistast þó til þess að draga þær ályktanir að  brúðustjórn sé  ekki með öllu ókunn borgarstjóra. Enda oftar en ekki konur sendar í  fjölmiðla til þess að svara fyrir flest ef ekki öll axarsköft hans sjálfs.

Oftar en er þar um að ræða konu eða konur sem ekki einu sinni voru í borgarstjórn þegar áðurnefnd axarsköft áttu sér stað og því væntanlega takmarkað inn í málum og varla til svars um eitt eða neitt. Nema þær séu settar inn í málin fyrirfram og þeim í raun sagt hvað segja skuli.  Að öðrum kosti er varla hægt að útskýra málin  og eða afsaka þau.  Hvað þá að draga af þeim lærdóm. Líkt og  „línan“ frá skrifstofu borgarstjóra virðist vera.

Það skildi þó ekki vera að Dagur hafi bætt stjórn Brúðubílsins við annars óljósar skyldur sýnar?

Höfundur er verkamaður og situr í verkalýðsráði Sjálfstæðisflokksins.