Banki sem ætlar sér að koma á fyrirmyndarríki femínista?

Femínistar beina gjarnan sjónum að þeim stöðum sem konur eru í minnihluta.

Lítið hefur farið fyrir umræðu um að einstaklingar og fyrirtæki séu í viðkvæmri stöðu gagnvart pólitískri sýn fyrirtækja og stofnana á samfélagið — aðilum sem ættu stöðu og ábyrgðar sinnar vegna að gæta hlutleysis í þeim efnum.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Kannski eru augu fólks að opnast fyrir því núna, eftir að markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka hefur gefið út að bankinn muni veigra sér við að kaupa auglýsingar af fjölmiðlum sem gæta ekki að því að ráða dagskrárgerðarmenn, og fá viðmælendur, sem eru kvenkyns — í ásættanlegum mæli að mati bankans. Einu virðist gilda þó að kynjahlutfall bankans sjálfs sé þannig að karlar eru í minnihluta.

Þarna er í fyrsta lagi um ríkisfyrirtæki á fákeppnismarkaði að ræða, sem ætlar sér að nota almannafé og peninga viðskiptavina sinna, við að þrengja að frelsi fjölmiðla til að hafa sjálfstætt dagskrárvald og ritstjórnarstefnu. Bankarnir eru, í skjóli einokunar á greiðsluþjónustu, viðskiptahindrana og fákeppni – fyrirferðarmiklir í íslensku atvinnulífi.

Stjórnendur Íslandsbanka virðast með þessari ákvörðun gera sér fulla grein fyrir fjárhagslegu afli bankans á auglýsingamarkaði.

Samfélagsverkfræði byggð á pólitískri sýn

Lesa mátti úr svari fjármálaráðherra við fyrirspurn um málið á Alþingi í morgun að uppátækið samræmdist ekki eigendastefnu bankans – ríkinu. Það gefur vísbendingu um að stjórnendur hans hafi upp á eigin spýtur ákveðið nota samfélagsverkfræði til að reyna að stýra dagskrárvaldi fjölmiðla – og til athugunar sé að skoða fleiri fyrirtæki í þessu tilliti hjá rekstrardeild bankans, að því er fram kom í frétt Vísis.

Í frjálsu samfélagi hlýtur það að teljast alvarlegt atriði út af fyrir sig, en í annan stað, og ekki síður ógnvekjandi, kom fram í samtali Vísis við umræddan markaðs- og samskiptastjóra, að bankinn sé byrjaður að „flagga við“ þá aðila sem laga sig ekki nægilega vel að sýn bankans á samfélagið.

Vert er að hafa í huga að fáir – ef einhverjir – safna eins viðamiklum upplýsingum um fyrirtæki og einstaklinga, og hegðun þeirra, og bankar. Nánast útilokað er að komast af í samfélaginu nema skipta við banka. Við það þarf að láta þeim mýgrút upplýsinga og persónuupplýsinga í té.

Fólk hefur ekkert val um afhendingu og skráningu upplýsinga

Einnig er rétt að rifja upp að Advania geystist fram með pólitíska sýn á málefni hinsegin fólks við heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands, í byrjun september. Við það hváðu ýmsir – en raddir þeirra voru fljótlega kæfðar vegna þess að málstaðurinn var svo góður. En ekki má gleyma því að Advania rekur og þjónustar tölvukerfi og gagnagrunna opinberra aðila og ríkisfyrirtækja – sem einnig safna og geyma mikið magn upplýsinga um einstaklinga og fyrirtæki. Eðlilegt væri því að vænta hlutleysis af fyrirtækinu – jafnvel þegar málstaðurinn kann að virðast góður.

Höfum það á hreinu að upplýsingar hjá bönkum, opinberum og hálf-opinberum fyrirtækjum og stofnunum eru ekki upplýsingar sem fólk hefur val um að láta af hendi. Fólk er skyldað til að afhenda hinu opinbera og bönkunum upplýsingar um sig. Einstaklingar eru þó að einhverju leyti varðir með löggjöf um persónuvernd – en að hve miklu leyti er ekki endilega ljóst.

Gætum við endað með hegðunarmatskerfi eins og í Kína?

Spurningin er: Hvað stöðvar þessi fyrirtæki og stofnanir í að taka næsta skref og byrja að flokka okkur eftir hinum ýmsu upplýsingum og vísbendingum sem þau hafa um hegðun og pólitískar skoðanir – til að refsa okkur eða verðlauna? Getur verið að við séum að sjá fæðingu hegðunarmatskerfis (e. social credit system) eins og Kínverski kommúnistaflokkurinn er með, til að fylgjast með því að borgararnir hugsi og hegði sér rétt í fyrirmyndarríkinu þeirra?

Við þurfum að fara að ákveða hvert skal haldið – og hvernig þjóðfélag næsta kynslóð mun erfa. Gleymum ekki að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi.

Erna Ýr er blaðamaður á Viljanum.