Deilt er um það hvort nú séu áratugamót ásamt áramótum, en sumir trúa því að talið sé frá núll og upp í níu, á meðan aðrir eru vissir um að talið sé frá einum og upp í tíu. Hvort heldur sem er, þá eru að minnsta kosti áramót, árleg tímamót þar sem litið er yfir farinn veg og horft til framtíðar.
Undanfarið ár hafa dómsdagsspár af ýmsu tagi verið ofarlega á baugi í umræðunni, ásamt ásökunum í allar áttir um falsfréttir og annarlegan tilgang. Hverju er best að trúa, þegar hagsmunir hópa og valdamikilla aðila takast á, og upplýsingar eiga það til að týnast í offramboði á margvíslega fram settu efni á nýrri öld upplýsinga?
Það eina sem ég get mælt með er bjartsýni, í bland við gagnrýna hugsun, ásamt hugrekki til að trúa því áfram að allt haldi áfram að verða betra – ef við leyfum því að gerast og truflum það ekki.
Trúum við öllu sem okkur er sagt?
Oft hafa okkur betur menntaðir sérfræðingar og talið sig vita hitt og þetta fyrir víst. Þeir hafa jafnvel sett fram dómsdagspár um að allt sé að fara norður og niður. Það hefur enn ekki ræst.
Er allt rétt sem okkur vitrari menn segja?
Þeir vissu einu sinni fyrir víst að:
Að jörðin væri flöt.
Að jörðin miðpunktur alheimsins.
Að manngerðir hlutir, þyngri en loft, gætu ekki flogið.
Vitrir menn sögðu á sínum tíma:
- 1850: spáði maður nokkur því að árið 1950 yrði þriggja metra lag af hrossataði á götum Lundúna.
- 1876: „Vel má vera að Ameríkanar hafi þörf fyrir síma en ekki við. Við eigum nóg af sendisveinum.“ – William Preece, starfsmaður Breska póstsins.
- 1883: „Röntgengeislar eiga eftir að sanna sig sem gabb.“– Kelvin lávarður, forseti Konunglega félagsins.
- 1888: Kanadíski stjörnufræðingurinn Simon Newcomb sagði: „við eru líklega að nálgast það að vita allt sem hægt er að vita um stjörnufræði”.
- 1894: sagði Nóbelsverðlaunahafinn í eðlisfræði, Albert Michelson, „að grundvallarlögmál eðlisfræðinnar væru nú þegar komin fram og það væri búið að sanna þau það rækilega að líkurnar á að þeim yrði hnekkt með nýjum væru mjög litlar.“
- 1895: „Það er útilokað að vélar þyngri en andrúmsloftið geti flogið.“-Kelvin lávarður, forseti Konunglega félagsins.
- 1899: sagði yfirmaður einkaleyfisstofu Bandaríkjanna, Charles H. Duell: „Allt sem hægt er að finna upp, hefur verið fundið upp.”
- 1900: sagði Lord Kelvin „Það á ekki eftir að finna upp neitt nýtt í eðlisfræðinni. Allt það sem er eftir eru bara nákvæmari útfærslur á núverandi mælingum.” Einstein kom fram með afstæðiskenninguna fimm árum síðar og sneri vægast sagt öllu á hvolf.
- 1903: „Hesturinn er kominn til að vera en bifreiðin er ekkert annað en stundardella – tískufyrirbrigði.“ – Forstjóri Sparisjóðs Michigan sem ráðlagði viðskiptavini frá því að fjárfesta í bílaframleiðandanum Ford.
- 1927: sagði Harry Warner (Warner Brothers): „Hver vill eiginlega heyra leikara tala?“
- 1932: „Það er ekki hin minnsta vísbending um að kjarnorka verði nokkurntíman fáanleg. Það mundi þýða að við þyrftum að kljúfa atómið að vild.“ – Albert Einstein.
- 1936: „Geimflaug mun aldrei komast út fyrir lofthjúp jarðarinnar.“ The New York Times.
- 1943: Sagði Thomas Watson (IBM): “Ég held að alheimsmarkaðurinn fyrir tölvur sé fimm vélar.”
- 1946: „Sjónvarpið mun ekki halda markaðshlutdeild neins staðar lengur en í sex mánuði. Fólk mun fá nóg af því að sitja og glápa á kassa úr krossviði hvert einasta kvöld.“ – Darryl Zanuck, yfirmaður kvikmyndaframleiðandans 20th Century Fox.
- 1949: „Framtíðartölvur munu verða þyngri en eitt og hálft tonn.“ Popular Mechanics, að spá fyrir um framtíð tækninnar.
- 1954: „Hafi stórreykingar einhver áhrif á líkur á lungnakrabbameini, þá virðast þau sáralítil.“ -W.C. Heuper, National Cancer Institute.
- 1955: „Þetta verður búið í júní.“ – Variety Magazine, spáir fyrir um framtíð rokktónlistarinnar.
- 1957: „Geimferðir eru rugl.” — Sir Harold Spencer Jones, breskur geimfari, (tveimur vikum síðar komst Sputnik á braut jarðar).
- 1959: „Markaðurinn fyrir ljósritunarvélar er í mesta lagi 5000 stykki.“— sögðu forsvarsmenn IBM, við stofnendur Xerox.
- 1961: „Nánast engar líkur eru á að gervihnattasamskiptin verði notuð til að veita betri síma-, skeyta-, sjónvarps- eða útvarpsþjónustu í Bandaríkjunum.” — T.A.M. Craven, hjá Póst- og fjarskiptastofnun Bandaríkjanna.
- 1964: „Reagan er ekki nógu forsetalegur.“ – yfirmaður hjá United Artists eftir að hafa hafnað Reagan í aðalhlutverk myndarinnar The Best Man árið 1964.
- 1977: Sagði Ken Olson, stofnandi Digital Equipment Corporation „Engin ástæða er til að ætla að neinn vilji hafa tölvu á heimili sínu.“ –
- 1981: „Enginn mun þurfa meira en 637KB af minni á einstaklingstölvu. 640KB ætti að vera nóg fyrir hvern sem er.” – Bill Gates, meðstofnandi og forstjóri Microsoft.
- 1981: „Farsímar munu svo sannarlega ekki leysa landlínuna af hólmi.“ Marty Cooper, uppfinningamaður.
- 1989: „Við getum aldrei búið til 32-bita stýrikerfi.” — Bill Gates, meðstofnandi og forstjóri Microsoft.
- 1992: „Hugmyndin um persónulegt samskiptatæki í hverjum vasa er tálsýn knúin af græðgi“.— Andy Grove, þá forstjóri Intel.
- 2007: „Það er ekki nokkur leið að iPhone nái nokkurri markaðshlutdeild.“ – Steve Ballmer, framkvæmdastjóri Microsoft.
„Hvaða lögmál kveður á um það, að þegar við komum aðeins auga á framfarir að baki, sé okkur ekki ætlað að sjá annað en hnignun framundan?“ – Thomas Babington Macaulay, (1800-1859).
Jafnvel þegar konunglegi breski stjörnufræðingurinn og ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar í málefnum geimsins, sagði að geimferðir væru „þvættingur“ og „algjör bábilja“, rétt áður en Spútnik fór út í geiminn, var fullyrðing hans ekki röng, þegar hún var sögð.
Það sem fer úrskeiðis í svona spádómum er, að gert er ráð fyrir að ekkert breytist miðað við núið. Á þeim tímapunkti sem menn gefa út spárnar eru þær ekkert endilega rangar. Ef við tökum dæmið um hrossataðið á götum Lundúna, þá hefði það eflaust aukist töluvert – en svo kom bílinn og þar með var hrossataðið farið af götunum.
Bölsýnismenn eru fastir í fortíðinni í spám sínum
Mistök bölsýnismanna eru að framreikna nútímann, og gera ráð fyrir að framtíðin sé aðeins stærri útgáfa af fortíðinni, eða eins og efnahagsráðgjafinn Herb Stein sagði eitt sinn:
„Ef eitthvað getur ekki haldið áfram til eilífðar þá mun það ekki gera það.“
Raunverulega hættan stafar af því að hægja á framförum. Ég er þeirrar skoðunar að allt mannkynið sé sameiginlegt gangverk til að leysa vanda. Það breyti í því skyni háttum sínum með nýsköpun, sem knúin er áfram af markaðnum. Skortur hækkar verð og ýtir undir þróun á einhverju skilvirku sem leysir annað lakara af hólmi. Þetta hefur oft átt sér stað í sögunni. Þegar hvölum fækkaði var jarðolía notuð í stað hvalalýsis. (Blaðamaðurinn Warren Mayer hefur sagt að veggspjald með mynd af John D. Rockefeller ætti að hanga á vegg á öllum skrifstofum Grænfriðunga.)
Höfum því hugrekki til að vera bjartsýn, það er engin ástæða til annars.
Gleðilegt nýtt ár, og takk fyrir það liðna!
(Höfundur er blaðamaður Viljans. Greinin styðst að hluta til við skrif Ásgeirs Jónssonar og bókina Heimur batnandi fer eftir Matt Ridley).