Eftir Brynjar Níelsson:
Mikilvægi borgaralegra sjónarmiða í stjórnmálum er vart umdeilanlegt og vel við hæfi að ræða hér á Viljanum sem berst fyrir þeim í opinberri umræðu og ber að þakka fyrir, enda veitir ekki af. Borgaraleg sjónarmið eru þau sem leggja áherslu á að tryggja réttindi og frelsi einstaklinga, eins og atvinnufrelsi, eignarrétt, tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs. Þessi borgaralegu gildi eru grundvöllur hins vestræna lýðræðisríkis og forsenda framfara og velferðar. Ríki sem hafa farið aðrar leiðir, jafnan í nafni réttlætis og jöfnuðar, hafa orðið undir þegar kemur að efnahagslegri velferð þegnanna og virt að vettugi öll mikilvæg réttindi þeirra.
Að þessum borgaralegu sjónarmiðum og gildum hefur verið sótt í hinum vestrænu lýðræðisríkjum af talsverðu afli frá því að sósíalísku ríkin hrundu fyrir rúmum þrjátíu árum. Ríkisvæðing og miðstýring hafa sótt í sig veðrið, bæði hér á landi og Evrópu, með tilheyrandi takmörkunum á atvinnufrelsi og eignarréttindum. Tjáningarfrelsið á allt í einu undir högg að sækja og óæskilegar skoðanir og sjónarmið er kallað hatursorðræða eða uppplýsingaóreiða sem þarf að stöðva með þvingunarúrræðum ríkisvaldsins. Það er meira að segja komið til alvöru umræðu að setja mannréttindamál, sem varða fyrst og fremst frelsi einstaklingsins gagnvart ofríki ríkisvaldsins, undir sérstaka ríkisstofnun í allt öðrum tilgangi sem má ekki verða.
Nýlegt dæmi um aðför að eignarréttinum og atvinnufrelsinu er ákvörðun matvælaráðherra um að banna hvalveiðar án nokkurs fyrirvara með tilheyrandi tjóni fyrir fyrirtækið og fjölda heimila. Margir réttlæta þessa ákvörðun því þeir eru andvígir hvalveiðum. Virðist engu máli skipta í huga þessa fólks að lögmætisreglan er sú mikilvægasta í lýðræðislegum réttarríkjum. Vitað var allan tímann að þessi ákvörðun stæðist ekki lög og miðað við viðbrögð ráðherrans við áliti Umboðsmanns Alþingis er honum alveg sama. Honum finnst greinilega bæði lögin og stjórnarskráin gömul og úrelt og því þurfi ekki að fara eftir þeim. Svona geta hlutirnir ekki gengið fyrir sig í lýðræðissamfélagi, alveg sama hvaða skoðun við höfum á hvalveiðum. Þetta mál er alvarlegra og gjörólikt þeim málum þar sem metið var að fjármálaráðherra hafi verið vanhæfur í einstöku máli eða dómsmálaráðherra hafi ekki rökstutt sem skyldi mat sitt á hæfni umsækjenda í tillögu til þingsins um skipun dómara.
Sókn hægri flokka erlendis, en ekki hér
Víðast hvar í lýðræðisríkjum eru menn að átta sig á að mörg þeirra stefna í að verða ósjálfbær og eru kannski mörg þegar orðin það. Draga verði úr ríkisvæðingu og bákninu öllu, lækka skatta og álögur á atvinnulífið og einstaklinga og tryggja betur atvinnufrelsið og eignarréttinn svo ríkin verði samkeppnishæf. Þess vegna hafa hægri flokkar sótt mjög í sig veðrið í Evrópu og jafnvel jafnaðarmannaflokkar tekið upp í ríkari mæli það sem við kölluð borgaraleg sjónarmið. En á Íslandi hefur þróunin af einhverjum ástæðum verið í þveröfuga átt, einhverra hluta vegna. Hér er enn verið að boða víðtæka ríkisvæðingu, hærri skatta og meiri útgjöld í formi millifærslna. Þeir sem boða slíkt eru meðhöndlaðir eins og rokkstjörnur.
Sjálfstæðisflokkurinn var lengi vel eini flokkurinn hér á landi sem barðist fyrir borgarlegum sjónarmiðum og gildum. Viðreisn varð til með klofningi úr Sjálfstæðisflokknum og varð að einhverjum hatursorðræðu- og wokeflokki með áherslu á miðstýringu og alþjóðavæðingu. Borgaralegu sjónarmiðin eru ekki í forgrunni þar. Miðflokkurinn, sem mér sýnist vera blanda af gömlum félagsmönnum úr Framsókn og Sjálfstæðisflokknum, virðast leggja áherslu á borgaraleg gildi, allavega í orði kveðnu. Það virðist vera að skila þeim auknu fylgi og undrast ég það ekki.
Satt best að segja hafa sjálfstæðismenn ekki talað sem skyldi fyrir þessum mikilvægu gildum þegar sótt hefur verið að þeim. Má segja að við höfum verið hálfsofandi á verðinum og látið allt yfir okkur ganga. Því verður að breyta, það gengur auðvitað ekki lengur. Það er ekki margt sem borgaralega sinnað sinnað fólk getur sótt úr smiðju sósíalismans. En Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér, er sennilega það eina sem við getum sótt þangað.
Höfundur er fv. alþingismaður.