Bráðaofnæmi, andremma og óbragð

Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur:

Undanfarin tæp sjö ár höfum við fylgst með verkstola ríkisstjórn eiga í stórkostlegum erfiðleikum með að þoka málum áfram því hún kemur sér ekki saman um neitt. Afleiðingin er sú að þjóðþrifamál sitja á hakanum og skiptir þá litlu máli hvar borið er niður; orkumál, menntamál, heilbrigðismál eða útlendingamál.

Hvergi virðist nokkuð hreyfast nema ef vera skyldi glærukynningar einstakra, hróðugra ráðherra um framtíð sem enginn samhugur er um innan stjórnarinnar eða meirihluti fyrir. Með öðrum orðum, gagnslaus plögg um ekki neitt.

Ríkisstjórnin virðist hafa bráðaofnæmi fyrir ákvörðunum og kveður þess vegna ekki uppúr um nokkurn skapaðan hlut. Þetta dregur svo hala á eftir sér því ríkisstjórn þarf eftir allt saman að skera á hnúta og segja af eða á um mál sem varða framtíð þjóðar. Meira að segja einföldustu framfaramál eru ekki afgreidd.

Á meðan fólk berst við þennan sjálfskapaða bjargarbrest á stjórnarheimilinu fylgjumst við hin með skrautlegum skeytasendingunum milli stjórnarflokkanna. Sérstaklega eru áberandi orðsendingarnar á milli þeirra tveggja flokka sem lengst er á milli. Þeir eru ýmist að “kyngja ælunni” í samskiptum hvert við annað, líkt og fulltrúi Sjálfstæðisflokks komst svo eftirminnilega að orði eða að “éta skít” eins og fulltrúi VG greindi skilmerkilega frá.

Ekki er gott að segja hvort andremma eða óbragð hrjáir þann þriðja í stjórnarsamstarfinu en Framsóknarflokkurinn virðist hafa séð þann kost vænstan að láta sig hreinlega hverfa af sjónarsviðinu, eins og hann á reyndar til þegar eitthvað bjátar á.

Okkur hinum er svo gert að fylgjast með þessari atvikaröð. Og við höfum vart undan að fylgjast með útgáfu aflátsbréfa frá stjórnarheimilinu. Nú síðast af flokksráðsfundi VG um helgina þaðan sem skilaboðin voru meira og minna eitraðar pillur til samstarfsflokks í ríkisstjórn, að því er virðist til heimabrúks því enn situr stjórnin.

Ályktanirnar voru í meginatriðum upptalning á því hvernig koma mætti í veg fyrir flest þau mál sem Sjálfstæðismenn hafa nú skyndilega fengið áhuga á en ekki sinnt í þau 7 ár sem samlífið við VG hefur varað. Þannig vilja VG alls ekki greiða götu einkareksturs í heilbrigðisþjónustu, þau vilja stofna ný ráð og stofnanir í ríkisbákninu, taka á móti fleiri hælisleitendum, telja “svokallaða” gullhúðun ekki sérstakt vandamál og vilja síst sækja frekari orku, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Þetta sjá allir að kann ekki góðri lukku að stýra. En þeir eru þrákálfar forystumennirnir þrír og kalla greinilega ekki allt ömmu sína í þeim efnum.

Höfundur er alþingismaður og formaður Viðreisnar.