Bréfaskipti við sóttvarnalækni um bætt gögn á Covid.is

Gunnlaugur Jónsson framkvæmdastjóri skrifar.

Í vikunni birti ég grein hér á Viljanum með 7 tillögum um bætt gögn á Covid.is. Ég sendi tillögurnar á Landlæknisembættið og fékk eftirfarandi svar frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, sem mér finnst rétt að deila með lesendum:

Bréf sóttvarnalæknis:

„Blessaður Gunnlaugur og takk fyrir þessar hugleiðingar.

Söfnun upplýsinga um COVID-19 er samkvæmt sóttvarnalögum þar sem fjallað er um smitsjúkdómaskrá sem sóttvarnalæknir ber ábyrgð á. Upplýsingar í smitsjúkdómaskrá eru til stuðnings sóttvarnastarfi og einnig faraldsfræði rannsóknum sem nauðsynlegar eru til að sóttvarnalæknir geti sinnt sínu starfi.

Upplýsingunum er ekki ætlað að vera tæmandi gagnasöfnun fyrir aðra sem áhuga hafa á að kanna hinar ýmsu hliðar faraldursins.

Margt sem þú bendir á væri áhugavert að kanna en fyrirkomulag gagnaöflunarinnar leyfir það á margan hátt ekki. Auk þess þyrfti meiri mannskap til að ná þessum gögnum og vinna úr þeim en okkur stendur nú til boða.

Þannig þurfum við sífellt að forgangsraða í okkar gagnaöflun og úrvinnslu í þágu þeirra sóttvarnaspurninga sem við teljum mikilvægastar. Þetta er hins vegar sífellt í endurskoðun.

Það væri vissulega gott að geta safnað öllum þeim upplýsingum sem þú stingur upp á en er hins vegar ekki framkvæmanlegt því miður.

Með góðri kveðju

Þórólfur Guðnason“

Svar mitt er þetta:

„Sæll Þórólfur og takk fyrir svarið,

Eðli málsins samkvæmt eru þetta upplýsingar sem geta haft mjög mikið að segja um stefnuna sem tekin er, fræðilegar rannsóknir og lýðræðislegar umræður.

Jafnvel þótt ráða þyrfti fólk til starfans væri um að ræða brotabrot af undirliggjandi hagsmunum, hvort sem um er að ræða efnahagslega (hundruð milljarða), líf fólks og heilsu, svo ekki séu talin mannréttindi.

Öll þessi gögn eru til og þið eruð þegar að vinna úr þeim til birtingar á Covid.is. Þetta er spurning um aðeins fagmannlegri framsetningu á þeim. Það krefst einhverrar vinnu, vel innan við eitt stöðugildi í skamman tíma, kannski 1-2 vikur. Ég tala af reynslu í meðferð gagna. Þetta er í raun bara hluti af starfi þess sem hefur þetta hlutverk nú þegar og er ekki mjög flókið.

Í gær var byrjað að birta nánari gögn um innlagnir á Landspítalanum. Það tel ég að auki traust, eins og þessi frekari birting myndi gera.

Þú nefnir að upplýsingunum sé ekki ætlað að vera tæmandi gagnasöfnun fyrir aðra sem áhuga hafa á að kanna hinar ýmsu hliðar faraldursins. Engar upplýsingar eru tæmandi, en fyrir því eru sterk málefnaleg rök að þessum upplýsingum sé deilt. Þetta er ekki einkamál embættis Landlæknis, heldur varðar þetta heilsu, líf, efnahag og mannréttindi hverrar einustu manneskju í landinu. Svo varðar þetta mannkyn allt í þokkabót og það er ekki útilokað að gögn frá Íslandi geti verið verðmæt í alþjóðlegri greiningu og ákvarðanatöku. Tillögurnar tala fyrir sig sjálfar. Það gefur auga leið að gögn af þessu tagi geta haft veruleg áhrif á mat á faraldrinum.

Við höfum traust á vísindum vegna þess að þau byggja á deilingu gagna og staðfestingu óháðra aðila. Vísindaleg nálgun byggist á því að gögn séu birt.

Kær kveðja,

Gunnlaugur Jónsson“