Breytingar í Þýskalandi sýna að borgaraleg gildi eiga enn upp á pallborðið hjá kjósendum

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Hinn ‘borgaralegi stjórnmálaflokkur’ Kristilegir demókratar í Þýskalandi (CDU) er skv. skoðanakönnunum nú með um 32% atkvæða eða það sama og allir stjórnarflokkarnir þar í landi samanlagt (Sósíaldemókratar 15%, Græningjar 12% og Frjálslyndir 5%). Nýr formaður CDU, Friedrich Merz, hefur nú sýnt og sannað að ‘borgaraleg gildi’ eiga enn upp á pallborðið hjá kjósendum. Öfgahægri flokkurinn AfD er með um 23%. Samanlagt eru því hægri flokkar í Þýskalandi (CDU/AfD/FDP) nú með um 60% atkvæða.

Þessa sömu gríðarlegu hægri sveiflu má sjá um alla Evrópu nema hér norður í Íshafi. Við Íslendingar höfum alla tíð verið frekar seinþroska eða þroskaheftir og eftir á í öllum hlutum. En það er ekki öll von úti enn, því það verður fyrst kosið hér á landi eftir 1 1/2 ár. Hugsanlega sjá kjósendur að við þurfum að skipta núverandi vinstri stjórn út fyrir alvöru hægri stjórn. Það er voðalegt þegar hægri flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn og CDU breytast úr borgaralegum flokki í hálfgerða sósíalistaflokka.

En hvernig fóru Kristilegir demókratar (CDU/CSU), sem er í raun systurflokkur Sjálfstæðisflokksins, að þessu? Jú, þeir tóku til heima hjá sér og öllum stefnumálum dr. Angelu Merkel – m.a. fjölmenningunni (þ. Multikulti) – var hent á haugana. Það mikilvægasta við þetta er innleiðing á gömlu góðu ‘Deutsche Leitkultur’ stefnunni. Hugtakið mætti þýða sem ‘Þýska leiðandi menningu’, en er ekkert annað en hollusta við þýsku stjórnarskrána, en einnig tryggð við önnur vestræn gildi og evrópska menningu.

Hugtakið kynnti einmitt núverandi formaður CDU, Friedrich Merz, til sögunnar á sínum tíma árið 2003, en Merkel hafnaði þessari hugmynd gjörsamlega. Stuttu síðar rak hún Merz sem þingflokksformann og hann fór í langa pólitíska útlegð til ársins 2019, þegar hann gaf aftur kost á sér eftir að Merkel hætti á þingi. Allt frá valdatöku Merkel réðu sósíalistar völdum innan CDU. Nú má segja að Friedrich Merz, formaður CDU, hafi náð fram fullkominni pólitískri hefnd og endanlega jarðað dr. Merkel og hennar vinstri stjórnmál innan CDU.

Leitkultur-stefnan snýst um að hafa hugrekki til að krefjast þess af útlendingum, sem setjast að í Þýskalandi, að þeir samþykki skilyrðislaust og án undanbragða grundvallargildi þýsku stjórnarskrárinnar, að átthagar, ættjörð þess og menning sé í grunninn þýsk, að innflytjendurnir tilheyri nú þýsku þjóðinni og eigi að haga sér sem slíkir. Útlendingarnir verða eins og áður er sagt að samþykkja vestræn gildi á borð við lýðræði, jafnrétti og almenn mannréttindi.

Þetta er að mínu mati eðlileg og sanngjörn krafa vilji menn setjast að í öðru landi, en að öðrum kosti snúi fólk til síns heima.

Að auki verða útlendingar að skilja og samþykkja þýskar siðvenjur og hefðir, þýska menningu og tungumálið, en einnig séreinkenni þýskrar sögu og þá sérstöku ábyrgð sem Þjóðverjar bera vegna heimsstyrjaldanna á síðustu öld, m.a. þegar horft er til Ísrael og Gyðinga. Þarna eru skýr skilaboð send til múslima sem búa í Þýskalandi að gyðingahatur verði ekki liðið. Skipulögð glæpastarfsemi og hryðjuverk útlendinga verða heldur ekki liðin.

Að auki vill CDU að ytri landamæra ESB (Schengen-svæðisins) verði betur gætt, m.a. með rafrænu eftirliti og vörnum, en einnig með því að byggja betri landamæravarnir (landamæragirðingar/múra), þar sem það er nauðsynlegt. Þá vill CDU að í framtíðinni verði flóttamönnum komið fyrir í 3. ríkjum utan ESB, þar sem bæði verður farið yfir það hvort þeir eigi rétt á pólitísku hæli, en einnig að flóttamennirnir dvelji þar, nema að Þjóðverjar sjálfir ákveði að hleypa þeim til sín, sem er alls víst að verði gert.

CDU varar einnig við íslömskum hryðjuverkum og þeim pólitíska Íslam sem hefur fengið að vaxa í Evrópu, sem sé vanmetin hætta fyrir öryggi Evrópu. CDU vill ‘ekkert samtal’ við öfgafullar Íslamistahreyfingar á borð við Hamas, sem Innraöryggisstofnun Sambandslýðveldisins Þýskalands (þ. Verfassungsschutz) fylgist með. Auka á eftirlit lögreglu og leyniþjónustu með öfga íslömskum hryðjuverkasamtökum, sem stafi meiri hætta af en hægri öfgamönnum.

Þessu til viðbótar vilja Kristilegir demókratar (CDU) fara aftur á fullu að byggja ný kjarnorkuver, sem dr. Merkel ákvað á sínum tíma að loka. Þá vilja þeir ‘alvöru þýsku’ (þ. richtiges Deutsch) en ekki kynjað tungumál og þetta á að tryggja með því að banna slíkt hjá stofnunum, skólum, háskólum og öðrum ríkisreknum fyrirtækjum. Hér er um 180° beygju að ræða hjá Kristilegum demókrötum, ekkert minna og það í flestum málaflokkum.

Kannski að Sjálfstæðisflokkurinn ætti að skoða sinn gang, reyna að drullast úr 18% fylgi í að minnsta kosti 32% líkt og félagar okkar í Kristilegum demókrötum (CDU/CSU) í Þýskalandi. Það er ár og dagur síðan að alvöru stefnumótun hefur átt sér stað hjá Sjálfstæðisflokknum, en þá er ég að tala um svipaða hluti og gerðir voru á sínum tíma þegar við fylgdum í fótspor Ronalds Reagan og Margaret Thatcher.

Við þurfum nýjan Eimreiðarhóp en kannski með aðrar áherslur en á 8. áratug 20. aldarinnar. Það hljóta að vera til einhversstaðar konur og menn á borð við Davíð, Hannes, Hrafn, Jón Steinar, Þór o.fl. sem geta komið X-D aftur á réttan kjöl.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.