Dagur foreldrafirringar á sumardaginn fyrsta

Eftir Kristinn Sigurjónsson:

Nú 25. apríl 2019 er sumardagurinn fyrsti.   Þá sýna skátar ungu fólki náttúruna í allri sinni dásemd sem hún hefur upp á að bjóða.   Skátar eru mörgum börnum glæsileg fyrirmynd, þar sem þau finna öryggi og jákvætt hugarfar og virðingu fyrir umhverfinu.   

Því miður hafa ekki öll börn þessa jákvæðu fyrirmynd. Öryggi er börnum mjög mikilvægt og geta leitað til einhvers sem það treystir.   Hluti af því er að þekkja uppruna sinn, bæði foreldra, afa og ömmur ásamt frændum og frænkum. Það er því gríðarlega mikilvægt að annað foreldrið fari ekki að tala illa um hitt foreldrið í áheyrn barnsins.

Foreldrafirring

Fyrir ca. 25 árum kom fram og var þróað hugtakið foreldarfirring (Parental Alienation).

Foreldrafirring getur verið þótt foreldrar séu í sambúð eða börnin búi hjá báðum foreldrum, en oftast verður hún við hjónaskilnað sem leysir hjóna-, umgengnis- og forræðideilur úr læðingi.   Samkvæmt breskum athugunum er foreldrafirring allt að 11 – 15 %  í hjónaskilnuðum þar sem börn koma við sögu, og er talsvert algengara en almennt er talið.   

Dagur foreldrafirringar  var upphaflega 2005 en síðan 2011 hefur hann verið skráður sem dagur foreldrafirringar í mörgum löndum,  en Ísland er ekki þar á meðal.

Það er eðlilegt börnum að elska foreldra sína sem veita þeim öryggi.

Foreldrar eru fyrirmynd barnanna og börnin eru stolt af þeim. Það eru margir brandarar þar sem strákar metast um pabba sína.  Við hjónaskilnað er því mjög mikilvægt að börnin verði ekki í átökum foreldranna. Hætta er á að þau fari að kenna sér um skilnaðinn og ástandið versnar enn ef annað foreldrið talar illa um hitt foreldrið, en það er kjarninn í foreldrafirringunni.   

Kristinn Sigurjónsson.

Fylgifiskur þess er að lögheimilisforeldrið (það foreldri sem barnið býr hjá) fari að hindra umgengni hins foreldrisins (umgengnisforeldri). Sökum þess hvað kerfið er seinvirkt þá getur þessi hindrun varið í áravís og hefur þingmaðurinn Helga Vala Helgadóttir sagt á RÚV þann 16.04.17 að afgreiðsla tálmunarmála hjá sýslumanni væri „katastrofa“.  Þetta áréttaði svo Helga á FaceBook síðu sinni 4.10.18 (þá orðin þingkona).

Tálmun

Þegar kemur svo loksins (eftir 2-3 ár) úrskurður um að það sé barninu fyrir bestu að umgangast umgengnisforeldri sitt, þá flokkast það sem tálmun ef lögheimilisforeldri sinnir ekki þessari skyldu.  Tálmun er brot á úrskurði sýslumanns, en þá bregður svo við að það er refsilaust að brjóta þennan úrskurð sýslumanns og tálmunin getur gengið út í það óendanlega.

Ég þekki dæmi þar sem barn hefur ekki hitt foreldri sitt í áratug.

Foreldrafirring er alltaf alvarleg, en þegar því fylgir líka mikil eða algjör tálmun þá er sjálfsvitund barnanna brotin niður.   Þau skilja ekki af hverju þau fá ekki að hitta foreldri sitt, fyrrum fyrirmynd og af hverju það sé svo slæmt.

Á meðan tálmunin varir er barnið sannfært um ágæti lögheimilisforeldrisins, að það sé eina foreldrið sem þykir vænt um það,  gagnstætt því sem umgengnisforeldrið er sagt gera. Með þessu er viljinn til að hitta tálmaða foreldrið brotið niður og barnið sannfært um að það vilji ekki hitta það. Þegar umfjöllun um þessi mál rata í fjölmiðla, þá fyllast samfélagsmiðlar af athugasemdum  um að „börnin eigi að njóta vafans“ þegar búið er að innræta þeim skoðun lögheimilisforeldris á umgengnisforeldri.

Þegar þetta varir lengi þá getur hér orðið um algjöran heilaþvott að ræða sem veldur því að barnið hatar foreldi sitt og efast mjög um uppruna sinn.

Þetta veldur barninu mikilli andlegri streitu og áfallaröskun. Fjölmargar nýjar og gamlar rannsóknir sýna að það er mikil hætta á að þau dragi sig í hlé, dragist aftur úr í námi, einangrist og því fylgir oft að þau leiðast í eiturlyf.

Með öðrum orðum möguleiki er verulega lakari við að koma undir sig fótunum þegar þau verða eldri.

Skaði á uppvaxtarárum

Nú á allra síðustu tímum hefur komið í ljós að fólk sem verður fyrir andlegu áfalli er einnig miklu meiri hætta búin á líkamlegum veikindum,  (Læknablaðið 06. tbl.103 árg 2017 og BB 11.04.19). Þetta getur hrjáð þau 50 árum eftir að þau urðu fyrir áfallinu.

Lykilatriði í foreldrafirringu er tálmunin, sem er líka alvarlegt ofbeldi gegn börnum.  Það er því ekki bara dapurlegt, heldur mjög sorglegt þegar þingmenn geta ekki sameinast um að stöðva tálmun (úrskurð sýslumanns) og enn sorglegra þegar 156 persónur skrifa bréf til þingmanna um að hafna frumvarpi sem er ætlað að stöðva þetta ofbeldi gegn börnum sem tálmun og foreldrafirring er.

Sagt var frá sænskri rannsókn á norsku sjónvarpsstöðinni, TV2  þann 14. 02 2017 að mikið samhengi sé á milli þess hversu jafnt börn deila samverunni með foreldunum og velgengni í lífinu..  

Það kom líka fram í rannsókninni að þegar börnin gista jafnt hjá foreldrum  þá sofa þau betur sem einnig hefur verið sýnt fram á að er börnunum mikilvægt við þroska.

Hvað skyldi þurfa langan tíma þar til þingmenn átti sig á því að verið er að brjóta 7 mgr. Mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna og skerða framtíðarmöguleika þeirra?

Mikið væri það gaman ef öll börn í landinu gætu glaðst jafn innilega með skátum á sumardaginn fyrsta.

Höfundur er verkfræðingur og fv. lektor.