Deilt um dómarana

Eftir Ernu Ýri Öldudóttur:

Orðatiltækið „með lögum skal land vort byggja“ var vel þekkt til forna um öll Norðurlönd. Það kemur fyrir í Jótalögum, Upplendinga- og Helsingjalögum og í Frostaþingslögum. Í íslenskum heimildum er orðatiltækið þekkt úr Njáls sögu með viðbótinni „…en með ólögum eyða“ sem einnig er í Frostaþingslögum. Í Njálu segir frá því er Mörður Valgarðsson sakar Gunnar á Hlíðarenda um að hafa rofið sætt sem gerð hafði verið. Þá svaraði Njáll á Bergþórshvoli: „Eigi er það sættarrof … að hver hafi lög við annan því að með lögum skal land vort byggja en með ólögum eyða“. 

Í frjálsum ríkjum og jafnvel öðrum ríkjum tekst borgurunum að búa saman í félagi við hvorn annan og með einhverri, en þó mismikilli, sátt við opinbert vald undir stjórn laganna (e. „Rule of Law“), sem liggur til grundvallar öðru samkomulagi sem er byggt er þar ofan á, eins og t.d. lýðræðinu í tilfelli lýðveldisins Íslands.

Þegar ofvöxtur hleypur í báknið, eins og gerist með tímanum þegar samfélag mannanna flækist og bólga hleypur í umsvif hins opinbera valds, þá leiðir það til þess að að það hleður utan á sig gríðarmiklu magni af lögum, reglum, venjum, dómafordæmum, lögskýringum, samningum, þjóðréttarlegum skuldbindingum og áliti sérfróðra og þar til bærra manna. Í tilfelli lýðveldisins Íslands, liggur þó til grundvallar öllu þessu, einfaldur bæklingur sem læra mætti utan að eins og hvert annað kver, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Réttlátur og óumdeildur

Til þess að komast megi til botns í stórum sem smáum ágreiningi aðila sem deila í dag, þarf því að þreifa sig í gegnum þennan frumskóg og leggja röksemdirnar sem þar finnast fyrir dóm, en hann þarf að vera réttlátur og óumdeildur til að sættir náist, ekki aðeins á milli ágreiningsaðila í hverju deilumáli, heldur líka til þess að traust sé um réttarríkið og að menn geti haldið áfram að búa saman við frið og framfarir, í stað ófriðar og niðurrifs.
Þar sem að áðurnefnt bákn er orðið gríðarstórt og ágreiningsefnum borgaranna í flóknu samfélaginu fjölgar dag frá degi, fóru miklar biðraðir að myndast við Hæstarétt. Áríðandi var að leysa úr því ófremdarástandi, en ólíðandi óréttlæti er fólgið í því að verða að bíða lengi úrlausnar mála sinna og á endanum stöðvast samfélagið allt við slíkar aðstæður óhindraðar. 

Því var ákveðið að stofna millidómsstig, Landsrétt, en víða er tilhneiging til að leysa vandamál sem skapast af stóru bákni með því að stækka það enn frekar. Síðasta ríkisstjórn fékk þetta mikla og erfiða verkefni í fangið og fyrrverandi dómsmálaráðherra sat uppi með þann Svarta-Pétur, að bera ábyrgð á að koma því í framkvæmd skv. þeim reglum sem ákveðnar höfðu verið.

Óveðurský hrannast upp

Saga þeirra sem liggja sárir eða dauðir vegna atburða sem verða þegar réttarríkið býður upp á efasemdir og óréttlæti, varð til þess að mjög rík krafa var gerð í þjóðfélaginu og af löglærðum um að skipan í Landsrétt yrði með sem faglegustum og óvilhöllustum hætti, án afskipta stjórnmálanna og hagsmunaaðila. Samdar voru reglur sem áttu að veita farveg til að af því gæti orðið. En eins og öll önnur mannanna verk eru þær líklega ófullkomnar, og jafnan koma helstu gallarnir ekki bersýnilega í ljós fyrr en að verkefnum skv. nýjum reglum er hrint í framkvæmd í fyrsta skiptið.

Landsréttur.

Sjálfur dómsmálaráðherra, ásamt fleirum, voru frá upphafi efins um gæði og notagildi reglnanna sem samdar höfðu verið um skipun dómara í hinn nýja rétt, en sinnti þó skyldu sinni og hljóp í verkefnið, af meira kappi en forsjá af mati sumra, en fyrir lá að afar áríðandi var orðið að Landsréttur gæti hafið störf sem allra fyrst. 

Óveðursskýin byrjuðu að hrannast upp þegar formenn og þingmenn stjórnmálaflokka sem sátu með dómsmálaráðherranum í ríkisstjórn, en líka aðrir inni á Alþingi, kváðust ekki treysta sér til að samþykkja tillögur hinnar óvilhöllu matsnefndar, þar sem að kynjasamsetning hinna útvöldu á listanum féll ekki að pólitískri stefnu þeirra. Strax og þetta lá fyrir má segja að málið í heild hafi fallið um sjálft sig, því ekki virtist lengur vera mögulegt að stofna Landsrétt á kjörtímabilinu fyrir pólitískum afskiptum og hagsmunapoti stjórnmálamanna og hópa í samfélaginu.

En dómsmálaráðherra var ekki af baki dottin. Hún tók á sig rögg og nýtti það svigrúm sem hún taldi sig hafa skv. áður ónotuðum reglum sem hún átti að vinna eftir, og með stoð í jafnréttislögum sem hún hefði átt hættu á að brjóta með framlagningu og samþykkt tillögu matsnefndarinnar, til að reyna að ná þinglegri sátt og rumpa hinu mjög svo aðkallandi verkefni um stofnun Landsréttar af.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Leiðtogahlutverkið felur ekki í sér að klippa á borða, láta klappa sér á bakið og opna kampavínsflöskur, heldur að taka erfiðar og óvinsælar ákvarðanir, og standa og falla með þeim. Dómsmálaráðherrann tók því til sinna ráða og ákvað að láta dómarareynslu vega þyngra í matskerfi dómnefndarinnar, að manni sýnist í viðleitni til að fá m.a. pólitískt ásættanlega niðurstöðu margra þingmanna þess efnis að kyn skeri úr um hæfi dómara framsvo að málið hlyti örugglega brautargengi á Alþingi.Málið flaug svo í gegnum atkvæðagreiðslu þingsins eftir að hrókeringar höfðu verið gerðar á listanum, að upplagi ráðherrans. 

Meiri „fokking tíma“

En ekki voru allir sáttir, einn þingmaður Pírata gerði mikið skurk við mestalla afgreiðslu málsins, þar eð honum fannst, og líklega með réttu, að það þyrfti meiri „fokking tíma,“ til að vinna það, alveg þar til að kosið var um listann á þinginu. Ótrúlegt en satt, þá komu engin andmæli þingmanna fram, við tillögu þingforseta sem gerð var með stoð í lögum og venjum, um að greiða atkvæði um dómaraefnin á einu bretti í stað þess að kjósa um hvern og einn í einu, eins og dómsmálaráðherrann hafði lagt til og mælt er fyrir um í dómstólalögum. Þetta atriði nú virðist ætla að valda nánast óyfirstíganlegum erfiðleikum.

Ekki er með góðu móti hægt að fullyrða að skipunin hafi verið án pólitískra afskipta, hvað þá óvilhöll.

Ólga hefur verið víða í lögfræðasamfélaginu og víðar æ síðan Landsréttur var settur á fót og nú er svo komið að meirihluti Mannréttindadómstóls Evrópu hefur gert alvarlegar athugasemdir við skipanina í Landsrétt og dómsmálaráðherrann hefur þurft að segja af sér, eins og henni bar, við þær aðstæður sem komnar eru upp í framhaldinu. 

Í fyrsta lagi ríkir nú óvissa þar eð Ísland hefur þjóðréttarlega skuldbindingu um að taka tillit til ákvarðana MDE, jafnvel þó að í þessu tilfelli hafi dómurinn verið klofinn og margir átelji dómstólinn fyrir þann slettirekuskap að hafa ákveðið að skipta sér af framkvæmd laga á Íslandi í dómi sínum, frekar en að einbeita sér að því að skera úr um réttláta málsmeðferð þess einstaklings sem kærði, sem er hlutverk MDE. Ekki sér fyrir endann á því drama, en óhreyfður gæti dómur MDE kollvarpað dómstólum úti um alla Evrópu. Kannski væri það til bóta en amk. má búast við talsverðri ringulreið, sem ekki er á bætandi þar.

Mannréttindadómstóll Evrrópu í Strassborg. Arkitekt byggingarinnar er Richard Rogers.

Í annan stað, og það sem höfundi þessa pistils finnst sýnu verra, er komið enn berlegar í ljós að ekki er hægt að treysta því fullkomlega að skipunin í Landsrétt hafi verið réttlát og óvilhöll eins og lagt var af stað með í upphafi. Ekki er með góðu móti hægt að fullyrða að skipunin hafi verið án pólitískra afskipta, hvað þá óvilhöll. Nú fyrrum dómsmálaráðherra, er nefnilega sjálf fulltrúi stjórnmálaflokks, og þrátt fyrir að við gefum okkur, að sjálfsögðu, heiðarleika og góðan vilja hennar í öllum hennar störfum, þá verður ásýnd framkvæmdarinnar allt önnur eftir að dómaralista matsnefndarinnar var breytt að hennar upplagi.

Að ná sátt um tíðarandann

Mistökin felast ef til vill í að hafa tekið áhættuna á að reyna að ná sáttum hjá þjóð og þingi um tíðarandann ásamt því að hafa setið undir gríðarlegum þrýstingi um að opna sem fyrst flöskuhálsinn í dómskerfinu, þar eð í neyðarástand stefndi vegna biðtíma fólks með málarekstur sinn. En eins og áður segir, dómsmálaráðherrann sat uppi með Svarta-Pétur þar sem málið hefði að líkindum verið fellt vegna frekju tíðarandans og stjórnmálanna inni á Alþingi. Hvort það hefði verið farsælla fyrir ráðherrann að fara þá leið og láta í framhaldinu endurskoða reglurnar og leyfa frekjunum að horfa í eigin barm á meðan, skal ósagt látið, en úrlausn þess klúðurs sem liggur í bili á borði nýskipaðs dómsmálaráðherra, sem jafnframt er atvinnuvega- og nýsköpunarmálaráðherra, er mjög flókin og aðkallandi og bíður nú úrlausnar bæði hérlendis og jafnvel erlendis.

Það er einlæg von pistlahöfundar að þrátt fyrir þetta stórslys, verði ekki flanað að neinu, og að andað verði með nefinu, þar til að staðið verður undir þeirri kröfu sem gerð var í upphafi, um réttlátan og óvilhallan dómstól og flekklausa ásýnd réttarríkisins. 

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.