Dómnefndir valdsins ráða í Eurovision en ekki atkvæði fólksins

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:

Aldrei þessu vant fylgdist ég með Júróvisjón í gærkvöldi. Eftir að dómnefndir höfðu skilað af sér en ekki var búið að telja atkvæði hlustenda var staðan þessi:

1.     Sviss 365 stig

2.     Frakkland 218 stig

3.     Króatía 210 stig

4.     Ítalía 164 stig

12. Ísrael 52 stig

Svo komu tölurnar frá hlustendum:

1.     Króatía 337 stig eða samtals 547 sem gaf 2. sæti í keppninni

2.     Ísrael 323 stig eða samtals 375 sem gaf 5. sæti

3.     Úkraína 307 stig eða samtals 453 sem gaf 3. sæti

4.     Frakkland 227 stig eða samtals 445 sem gaf 2. sæti

5.     Sviss 226 stig eða samtals 591 stig sem gaf 1. sæti

Haft skal í huga að búið er hér að ofan að smætta tölurnar frá hlustendum til þess að þær vegi samtals helming heildarstiganna á móti dómnefndarstigunum. Innbyrðis röð stiga frá hlustendum er samt sú sem greinir töflunni að ofan.

Í heildina samkvæmt tölunum frá hlustendum varð Ísrael í 2. sæti (!) en hafði verið í 12. sæti hjá dómnefndunum. Sigurvegarinn Sviss varð í 5. sæti hjá hlustendum!

Þetta sýnir að þessi keppni er einhvers konar grín. Dómnefndirnar, sem eru skipaðar fulltrúum valdsins, ráða niðurstöðunni en ekki fólkið sem leggur það á sig að skila inn atkvæðum. Nú virðist þetta hafa þjónað þeim tilgangi að hindra að ísraelska lagið gæti sigrað. Það mætti ætla að þetta kerfi hafi verið samið hér á landi því við Íslendingar erum sérstaklega slungnir í að afbaka úrslit (sbr. vægi atkvæða í alþingiskosningum) þannig að geðþóttinn fái að ráða en ekki stjórnlaus lýðurinn, sem sýnilega taldi hér að þetta væri söngvakeppni en ekki vinsældakeppni milli stríðsaðila á Gasa. Þar að auki virðast dómnefndirnar hafa sameinast um eitt lag sem átti að vinna.

Það er mín skoðun að svissneska lagið hafi ekki verið upp á marga fiska og hið ísraelska verið miklu áheyrilegra.

Höfundur er lögmaður og fv. hæstarréttardómari.