Eftir allmörg frábær ár hjá landsliðunum olli árið 2018 vonbrigðum

Eftir Geir Þorsteinsson:

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér að nýju í embætti formanns Knattspyrnusambands Íslands.

Fyrir tveimur árum sagði ég staðar numið eftir að hafa starfað sem formaður KSÍ í 10 ár, en í reynd eftir um 35 ára samfelld störf innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Ungur ákvað ég að tileinka líf mitt framgangi íslenskrar knattspyrnu. Ástríðan og viljinn til að láta gott af mér leiða er enn til staðar.

Síðastliðinum tveimur árum hef ég varið í að safna kröftum, ferðast um heiminn í störfum fyrir UEFA og FIFA, ræða við hina ýmsu forystumenn í knattspyrnu um þróun leiksins og hef því haft tækifæri til að greina íslenska knattspyrnu frá nýju sjónarhorni. Á þessum tíma hef ég fengið margar nýjar hugmyndir um hvernig megi stuðla að auknum framgangi íslenskrar knattspyrnu.

Ljóst er að fjölmargar áskoranir blasa nú við í íslenskri knattspyrnu, bæði er varðar þróun leiksins með aðildarfélögum KSÍ og árangur í alþjóðlegri keppni. Þekking og góð stjórnun er undirstaða velgengni íslenskrar knattspyrnu og árangurs innan vallar. Ég er tilbúinn til að takast á við fyrrgreind verkefni af einurð, festu og gleði.

Íslensk knattspyrna verður aðeins í fremstu röð með öflugu starfi innan aðildarfélaga KSÍ. Markmið KSÍ á því að vera, að auka fagmennsku í aðildarfélögunum og efla þau fjárhagslega þannig að þau geti sinnt starfi sínu enn betur og mætt öllum sínum áskorunum. Gjá er að myndast á milli aðildarfélaganna og KSÍ. Aðildarfélögin standa í stað á meðan starfsemi KSÍ blæs út. Árangur fellst ekki í aukinni yfirbyggingu KSÍ heldur í uppbyggingu innan aðildarfélaganna sem er hornsteinn alls knattspyrnustarfs á Íslandi.

Nýtt skipulag íslenskrar knattspyrnu

Þróun og framfarir í íslenskri knattspyrnu kalla á nýtt skipulag knattspyrnustarfsins. Íslensk íþróttahreyfing byggir á skipulagi sem að mestu hefur verið óbreytt áratugum saman. Íþróttastarfsemi hefur breyst mikið með aukinni fagmennsku en skipulag íþróttahreyfingarinnar hefur lítið breyst.

Knattspyrnan er langstærsta íþróttagreinin á Íslandi hvað varðar þátttöku, vinsældir og umfang reksturs. Nú er svo komið að skipulagi knattspyrnustarfsins þarf að breyta til að efla aðildarfélögin og auka tekjumöguleika þeirra. Þau eru grunnurinn að öllu knattspyrnustarfi.

Góður árangur landsliða Íslands í knattspyrnu sl. áratug hefur lagt auknar kröfur á herðar Knattspyrnusambands Íslands allt árið um kring. Það hefur leitt til þess að Íslandsmótið í knattspyrnu hefur ekki hlotið þann undirbúning og athygli sem skyldi.

Félögin í efstu deildum hafa myndað með sér samstarfsvettvang, til að fjalla um sameiginleg málefni en einnig til hagsmunagæslu og hefur það skapað togstreytu innan knattspyrnuhreyfingarinnar sem leysa þarf. Mikilvægt er að allir hagsmunaaðilar íslenskrar knattspyrnu gangi í takt og nái einingu um leiðina áfram til árangurs fyrir alla.

Tímabært er að breyta skipulagi KSÍ og festa í lögum sambandsins Deildina (deildasamtök) og starfsemi hennar, þannig að aðilarfélögin, Deildin og KSÍ vinni saman að uppbyggingu íslenskrar knattspyrnu. Þessi breyting mun ekki aðeins gagnast félögum í efstu deildum heldur mun hún einnig hafa jákvæð áhrif á allar deildir og í heild þróun allra knattspyrnufélaga líkt og leyfiskerfið gerði þegar það var tekið upp.

Slíkt skipulag á sér langa sögu í Skandinavíu og er nú kominn tími til að stíga skrefið hér á landi. Þetta verður mesta kerfisbreyting íslenskrar knattspyrnu frá stofnun KSÍ 1947. Breytingin er nauðsynleg til að íslensk knattspyrnufélög geti aukið fagmennsku, styrkt rekstargrundvöll sinn og haft með beinum hætti stjórn á mikilvægum hagsmunamálum sínum, s.s. markaðs- og sjónvarpsrétti.

Draumurinn um fyrsta íslenska félagsliðið í riðlakeppni Evrópumóts í knattspyrnu lifir góðu lífi – hann þarf að rætast.

Knattspyrna fyrir alla

Grunnur KSÍ eru aðildarfélögin sem vinna hið raunverulega uppbyggingarstarf í knattspyrnu. Innan þeirra fer fram þróun leiksins, leikmanna, þjálfara, dómara, stjórnenda og sjálfboðaliða – í raun upphaf og þróun alls knattspyrnustarfs á Íslandi. Störf sjálfboðaliða skipta sköpum í rekstri knattspyrnufélaga ólíkt rekstri hefðbundinna fyrirtækja.

KSÍ þarf að miðla bestu lausnum og aðferðum á hverjum tíma, en mikilvægast er að efla aðildarfélögin og styrkja þau fjárhagslega. KSÍ hefur á sl. áratug gert þátttöku í Íslandsmóti auðveldari og um leið ódýrari fyrir félögin á öllum stigum íslenskrar knattspyrnu. Má þar nefna yfirtöku á kostnaði í meistaraflokki við dómgæslu og upptöku ferðaþátttökugjalds til að jafna kostnað við ferðalög vegna leikja.

Mikilvægt er halda þeirri vinnu áfram í áföngum, ferðaþátttökugjald þarf að þróa til að koma enn betur til móts við þau félög sem ferðast mest auk þess sem taka þarf upp slíkt fyrirkomulag í Íslandsmótum 2. og 3. aldursflokks þar sem leikið er í landsdeildum.

Knattspyrnustarf stendur höllum fæti á ýmsum landssvæðum og í heild má segja að varnarbarátta sé háð víða utan höfuðborgarsvæðisins, svo sem á Vestfjörðum, á svæðum á Vestur-, Norður-, Austur- og Suðurlandi.

Það er mikilvægt að KSÍ komi að grasrótarstarfinu á þessum svæðum til þess að halda leiknum gangandi og hvetja sveitarfélög til að standa vörð um uppbyggingarstarf knattspyrnunnar.

Fræðsla og mannvirki

Fræðslustarf í fremstu röð innan knattspyrnuheimsins er lykillinn að góðum árangri í uppbyggingu og þróun leiksins. KSÍ hefur veigamiklu hlutverki að gegna í fræðslu fyrir þjálfara, dómara, stjórnendur og alla aðra sem að starfinu koma. Miðstýring á uppeldis- og afreksstarfi aðildarfélaga á ekki rétt á sér því að fjölbreyttni er af hinu góða. Með þekkingu og aðstöðu sem sífellt verður að bæta, getur íslensk knattspyrna sótt fram í alþjóðlegri keppni.

Úrslit kunngjörð í formannskosningu 2007, Geir með forvera sínum í embætti, Eggert Magnússyni. Þeir höfðu unnið náið saman í áratug./Ljósmynd KSÍ.

Halda þarf áfram uppbyggingu mannvirkja með aðstoð mannvirkjasjóðs KSÍ, sveitarfélaga og ríkisvaldsins með hagfelldu regluverki um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Landsliðin

Eftir allmörg frábær ár hjá A landsliðum Íslands í knattspyrnu olli árið 2018 á ýmsan hátt vonbrigðum þrátt fyrir þátttöku Íslands í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn. Árangur næst með góðu skipulagi, þekkingu og áræðni og með leikmönnum og þjálfurum sem skara fram úr.

Ef vel er haldið á málum á A landslið karla góða möguleika á þátttöku í úrslitakeppni EM 2020 og A landslið kvenna í úrslitakeppni EM 2021.

KSÍ í fremstu röð

Það hefur verið leiðarljós í mínu starfi fyrir knattspyrnuhreyfinguna að veita aðildarfélögum KSÍ og félagsmönnum þeirra góða þjónustu og aðstoð á öllum sviðum og öllum stundum.

Það tel ég vera kjarnann í starfi formanns KSÍ. Með það í huga er ég reiðubúinn að leiða Knattspyrnusamband Íslands á nýjan leik þannig að KSÍ verði í fremstu röð knattspyrnusambanda í heiminum.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri og síðar formaður KSÍ.

(Bréf sama efnis var sent öllum aðildarfélögum KSÍ í dag.)