Ég hvet landsmenn til að bera grímur — þær virka

Eftir Guðmund Pálsson:

Fyrst nokkur lykilatriði:

  • Heilsugæslan notar grímur. Læknavaktin notar grímur.
  • Heilbrigðisstarfsfólk í skimun fyrir veirusmiti notar grímur.
  • Engum dettur í hug að þær virki ekki.

En það er svolítill þröskuldur að setja grímuna upp og ganga með hana á meðal fólks. Það er bara að gera það, þá hverfur hindrunin. Maður horfir í augu fólks í staðinn. Og sá sem er með grímu fær töluverða öryggistilfinningu, sérstakega ef hann er með hanska líka.

Hvarvetna í heiminum gengur nú stór hluti fólks um með slíkar grímur. Líklega er minnst um það hér á landi. Því þarf að breyta. En á meðan ekki koma tilmæli frá heilbrigðisyfirvöldum um þetta, þá gerist ekkert í þessum efnum.

Undanfarnar vikur hef ég komið við í matvöruverslunum á borð við Bónus og Krónuna og þar sést enginn maður varinn, hvorki með grímu né hanska. Fyrst í gær var maður að dreifa hönskum í Krónunni á Fiskislóð. Það er eins og við séum í einhverjum draumi og höldum að veiran smiti síður við hátæknilegt upplýsingaflæði, gröf og spálíkön.

Það gerist ekki. Það er verklegt atriði að vinna á þessari veiru, það eru hegðun okkar og venjur sem sigra hana. Þá þarf að leggja upp plan í nokkrar vikur og fara eftir því. Það er allt í lagi að þegja á meðan — í alvöru, og gríni sagt.

Harðari aðgerða er þörf

Aðal boðskapur minn við fólk undanfarna daga er að það þurfi harðari aðgerðir gegn veirunni ef okkur á að takast að verja þann hóp sem er í mestri hættu. Það dugar ekki að hægja á veirunni heldur þarf að slá hana niður. Þessi greinarmunur er heita kartaflan í dag, því menn eru að skilja betur og betur að með því aðeins að hemja veiruna þá mun taka mjög langan tíma að ná upp hjarðónæmi með 60% landsmanna smitaða — yfir 200.000 manns — og á þeim tíma smitast margir eldri og deyja.

Þetta er aðal atriðið. Í þessu ljósi er athyglisvert að Norðmenn hafa tekið algjöra U-beygju í sinni aðferðafræði á síðustu dögum. Þeir hafa horfið frá því að hemja veiruna (eins og til stendur að gera hér á landi) yfir í að slá hana niður að hætti Asíubúa.

Þetta gerðist ekki að tillögu lækna heldur vegna ógnarþrýstings á ráðamenn frá norskum almenningi og rökum sem dundu á þeim frá Bretlandi. Faraldursfræðingurinn Neil Ferguson sannfærði þá um að ástandið myndi versna svo dramatískt á næstunni við núverandi strategíu að spítalakerfið þyldi það ekki.

Veigamestu rökin sem dundu á ríkisstjórn Noregs voru samt þau að það þegar gamla fólkið fer að deyja verða það stjórvöld sem bera ábyrgðina ef kemur í ljós eftir á að aðferðafræðin hafi verið of mild.

Gera þarf upp á milli aðferða

Allt leiðir þetta til þess að nú, einmitt nú, eru að kristallast tvær megin aðferðir sem þarf að gera upp á milli. Það er í fyrsta lagi hjarðónæmisleiðin sem felur í sér að hemja útbreiðsluna og fletja kúrfuna og fá samfélagslegt ónæmi. Okkar menn eru á þessari leið. Hin leiðin er að slá veiruna niður með nokkuð einbeittu og sameiginlegu átaki. Það er hægt að gera í 6-8 vikur til að fá Ro stuðulinn niður fyrir 1 og þá missir veiran virulensinn, sýkingarmáttinn því hún hefur ekki borist í næsta mann.

Ein árangursríkasta leiðin til að lækka smithlutfallið (Ro) er að nota grímur úti á meðal almennings, í búðum og í öllum útréttingum. Við heilbrigðisstarfsmenn notum grímur og almenningur ætti að gera það líka.

Þá lækkar Ro stuðullinn sem oft er talað um. Hann er án grímuvarna og annarra aðgerða 2,5 (þetta þýðir að hver smitaður sýkir 2-3 aðra) en hann þarf að lækka niður fyrir 1. Þá mun nýgengi (ný tilfelli) sjúkdómsins lækka, að vísu ekki strax en við munum sjá breytingu eftir ca 10-20 daga ef allir eru með í samstilltu átaki.

Af hverju skiptu Norðmenn um skoðun?

Eins og ég sagði fyrr í grein minni hafa Norðmenn ákveðið að skipta um Covid stefnu og ,,slá niður“ veiruna að hætti Asíuþjóða en ekki bara ,,hægja á“ henni, eins og þeir gerðu áður.

Þetta finnst mér skynsamlegt. Því meira sem maður kynnir sér reynslu Asíuþjóðanna af faraldrinum sér maður að leið þeirra var rétt.

Guðmundur Pálsson sérfræðingur í heimilislækningum.

Það sem opnaði augu mín var að sjá að tilfellum fækkaði í þessum löndum vegna þess að smitleiðum var lokað. Lokað eins og mögulegt var með samstilltu átaki allra. Vissulega þarf árvekni áfram (eftir að nýgengi fellur) til að fá ekki smit aftur t.d. erlendis frá en það er vel þess virði.

Af hverju?

Vegna þess að það bjargar mörgum eldri og veikluðum frá alvarlegum veikindum og dauða. Leiðin sem kennd er við hjarðónæmi er siðferðilega röng vegna þess hversu illa sjúkdómurinn leggst á sérstakan hóp manna.

Hvar er ríkisstjórnin?

Mér finnst kominn tími til að þetta mál fái sambærilega þyngd pólitískt hér á landi og í öðrum löndum. Það er að segja að ríkistjórnin taki formlega á sig ábyrgðina af þeirri leið sem við erum að fara.

Þetta er nauðsynlegt og gagnlegt svo menn hugsi í alvöru um þessi mál og taki rétt skref. Það vantar aðeins upp á að menn skilji ábyrgðina sem við stöndum frammi fyrir.

Grímur og hanskar eru bara hluti af þessu einfalda praktíska viðhorfi mínu að breytt hegðun manna sé áhrifaríkasta meðal til að stöðva veiruna og ef það er gert í sameiginlegu átaki þá gæti málið klárast á tveimur mánuðum — apríl og maí. Faraldsfræðin hefur kennt okkur það og í júníbyrjun yrði nýgengi (ný tilfelli) komið niður og undir góðri stjórn.

Gleymum okkur ekki

Það er gott að horfa á upplýsingafundi Almannavarna, en við megum ekki gleyma okkur og hætta að horfast í augu við staðreyndir máls.

Á fundi 28. febrúar sögðu svörtustu spár: 300 smit. Nú eru þau yfir 800 og fer hratt fjölgandi. Er ekki kominn tími til að fara að bera grímur?

Yfirvöld hafa markað ákveðna stefnu sem er í rétta átt en nær of skammt að margra mati. Hún verður til þess að gamla fólkið, margt af því, mun smitast fyrr eða seinna með alvarlegum afleiðingum og aðgerðirnar dragast á langinn, með miklu meiri tilkostnaði fyrir samfélagið.

Yfirvöld sóttvarna hafa lokast inni í þessum ráðleggingum t.d., með því að segja að grímur veiti ekki vörn (sem er auðvitað þvert á brjóstvit og skynsemi), og þeir munu ekki geta bakkað úr því nema almenningur krefjist þess í ríkara mæli að ákveðnari stefna verði tekin.

Það er ekkert spurningamerki varðandi grímur. Þær hafa verið notaðar hjá þeim milljónaþjóðum í Asíum sem náðu taki á sýkingunni og án þeirra hefði það aldrei verið hægt. Við eigum ekki að vera með sérstaka visku í þessu heldur læra af öðrum þjóðum sem hafa náð árangri.

Og eitt að lokum:

Ég var á læknavaktinni í Austurveri fyrir nokkru og mætti þar konu með hósta. Hún reyndist vera með Covid-19, og það kom í ljós fjórum dögum seinna. Ég hafði þá komið mér upp þeim vana að hafa grímu og hanska í mótttöku allra sjúklinga. Það bjargaði mér.

Höfundur er heimilislæknir.