Eigum við bara að treysta sérfræðingunum?

Eftir Karólínu Einarsdóttur:

Hinn skæði heimsfaraldur sem gengur núna yfir setur líf okkar heldur betur úr skorðum. Fæst okkar hafa upplifað aðra eins tíma og það er ekki auðvelt að átta sig á því hvað raunverulega er að gerast. Samfélag okkar einkennist af miklum hraða og upplýsingarstreymið sem yfir okkur geysar daglega er svo mikið að við náum ekki utan um það. Og margar af þessum upplýsingum sem eiga að byggjast á einhverjum vísindum eru misvísandi og það er erfitt að vita hverju við eigum að trúa. Mörg okkar treysta innsæinu því það bregst okkar sjaldan. En höfum við í alvörunni forsendur til að treysta eigin dómgreind, sérstaklega þegar kemur að vísindum sem við þekkjum voða lítið til? Hvað er það sem við þurfum að hafa í huga þegar kemur að því að lesa eða skilja vísindi?

Í fyrsta lagi er mikilvægt að skilja að það er líklega margt sem er sagt á samfélagsmiðlum í dag sem var (í upphafi) byggt á einhverjum rannsóknum. Hins vegar getur túlkun eða umfjöllun á niðurstöðum misfarist hrapallega frá einum miðli til annars (bara rétt eins og í hvísluleiknum J). Eins er mikilvægt að hafa í huga er að þeir sem segja frá niðurstöðum rannsóknanna eru ekki endilega menntaðir í fræðunum, og hafa því kannski lítinn skilning á rannsókninni sem slíkri og eiga oft erfitt með að bæði túlka það sem kemur fram, eða yfirhöfuð leggja dóm á aðferðirnar eða hversu mikið sé að marka niðurstöðurnar. Enn annað sem getur líka allt eins gerst er að forsendurnar hafi breyst og nýjar rannsóknir sýnt fram á að það sem talið var í upphafi eigi ekki við rök að styðjast lengur.

Þess vegna er svo mikilvægt fyrir sérfræðinga að afla sér sífellt þekkingar og vera opnir fyrir því að það sem þeir vita í dag gæti breyst á morgun. Í þessu augnamiði er einnig afar brýnt að gera sér grein fyrir því að vísindi eru ekki trúarbrögð, þótt stundum mætti halda annað. Fólk verður að kunna að greina á milli trúar á andlegum fyrirbærum annars vegar og trausts á vísindum hinsvegar.

Þeir sem trúa á eitthvað æðra eins og Guð, trúa þótt þeir geti ekki sannað eða útskýrt að hann sé til. Þess konar trú er bara mannleg þörf á að trúa og treysta því að eitthvað æðra en við sjálf stjórni og ákveði örlög okkar. Vísindin eru aftur á móti “tæki” til að afla þekkingar og skilnings á ákveðnum fyrirbærum og þau verða að byggja á einhverju áþreifanlegu sem hægt er að útskýra og sanna/afsanna með rannsóknum. Og þótt vísindamenn sem upplýsa almenning minni óneitanlega á spámenn eða boðbera Guðs í Biblíunni, þá er stóri munurinn sá að þessir vísindamenn eru ekki heilagir eða hafnir yfir gagnrýni.

Þess vegna er það grafalvarlegt mál þegar einstakir sérfræðingar eða vísindamenn taka upp á því að misnota bæði stöðu sína og það mikla traust sem fólk hefur á vísindasamfélaginu og byrja að haga sér eins og þeir séu boðberar hins heilaga sannleiks og afvegaleiða jafnvel almenning. Það veit aldrei á gott ef fólk eða jafnvel heilt samfélag fer að trúa og fylgja einstaka sérfræðingum í blindni. Slík trúarbrögð grafa undan lýðræðinu og þagga niður alla rökræðu. Í þessu ljósi er líka ástæða að nefna að almenningur spilar stórt hlutverk í vísinda-og þekkingarsamfélaginu sem gagnrýnandi. Það á að spyrja spurninga, biðja um sannanir og útskýringar.

Við ættum aldrei að trúa í blindni á sérfræðinga heldur temja okkur gagnrýna hugsun, spyrja spurninga, leita eftir fleiri tilgátum og skoða aðrar rannsóknir sem kannski sýna aðra niðurstöðu.

Það er gott að hafa í huga að sérfræðingar eiga ávallt að gæta hlutlægni þegar þeir greina frá niðurstöðum rannsókna og miðla þekkingu til samfélagsins, sem felst þá einnig í að útskýra fyrir almenningi á mannamáli hvað þessar upplýsingar þýða og hvaða ályktanir megi draga af þeim. Því miður, kemur það einstaka sinnum fyrir að sérfræðingar leyna eða visvísandi rangtúlka niðurstöður vegna þess að það samræmist ekki því sem þeir hafa sjálfir haldið fram, eða vegna pólitísks þrýstings eða hagsmunaárekstra. Slíkt er náttúrulega mjög alvarlegt og er brot á siðareglum vísindasamfélagsins.

Þeir sem tilheyra vísindasamfélaginu eru þó auðvitað mannlegir og hafa skoðanir eins og aðrir, og sjálfsagt mega þeir láta þær í ljós í lýðræðissamfélagi. Þeir verða hins vegar að gera greinarmun á persónulegum skoðunum sínum annars vegar og vísindalegum ályktunum hins vegar. Auk þess þurfum við að átta okkur á að vísindamönnum ber ekki alltaf saman enda forsendur og aðferðarfræði eru oft mismunandi milli rannsókna (eða reiknilíkana) sem gerir það að verkum að niðurstöðurnar eru ekki afgerandi og jafnvel misvísandi.

Þetta þarf ekki endilega að þýða að annað sé rétt og hitt sé rangt. Að rannsóknum beri ekki saman er alveg eðlilegt og sérstaklega þegar rannsóknir hefjast á nýju fyrirbæri eins og veirunni SARS-CoV-2 og sjúkdómnum sem hún veldur, Covid-19. Margt er enn á huldu og eftir því sem rannsóknum fjölgar, virðist spurningunum bara fjölga. Nýjar tilgátur spretta upp eins og gorkúlur, og þær eru ekki aðeins ræddar meðal sérfræðinga heldur líka almennings.

Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að fram á að stór hluti sýktra er einkennalaus, og að veiran getur verið virk á rykögnum í lofti. Því er hægt að álykta að einkennislausir geti hugsanlega borið veiruna í aðra og það sé hugsanlegt að veiran geti smitast með andardrætti. Hins vegar er mikilvægt að árétta að þessar ályktanir eru tilgátur sem hvorki er búið að sanna né afsanna.

Annað sem hefur komið í ljós er að nokkur fjöldi einstaklinga virðist hafa læknast af veirunni en svo smitast aftur bara nokkrum dögum síðar. Þetta gæti bent til að mótefnin sem við myndum fyrir veirunni séu takmörkuð. En kannski er þetta bara vegna þess að meiri líkur séu á “fals-negative” útkomu úr prófi þegar okkur er að batna, og ef við hvílum okkur ekki þar til okkur er alveg batnað þá eru meiri líkur á að veiran nái sér aftur á strik og okkur slái niður.

Þetta eru bara örfá dæmi um þær tilgátur sem hafa komið fram, og í vísindum er engin tilgáta endilega betri eða verri en önnur. Það er mjög eðlilegt að ræða tilgátur og velta upp líkindum og bera þær saman, en sú umræða mun aldrei skila okkur sannleikanum. Aðeins tíminn og fleiri rannsóknir munu leiða hið rétta í ljós.

Karólína Einarsdóttir.

Annað merkilegt sem þessar rannsóknir á veirunni hafa leitt í ljós er að sumt af því sem sérfræðingar héldu fram um veiruna í upphafi faraldsins var líklega rangt. Forsendurnar sem þeir gengu út frá voru byggðar á rannsóknum á skyldum veirum og öndunarfærasjúkdómum, sem í ljósi stöðunnar er mjög eðlilegt að gera. Hins vegar er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar þegar maður yfirfærir eitt fyrirbæri yfir á annað. Maður verður að hafa það hugfast að maður er að gefa sér forsendur sem eru í raun bara tilgáta sem hefur ekki verið sönnuð. Maður verður því að ganga út frá þessum forsendum með þeim fyrirvara að þær gætu verið rangar, og vera vakandi og tilbúinn að endurskoða þær ef nýjar upplýsingar eða rannsóknir benda til þess.

Með allt þetta í huga þá getum við kannski ályktað að allt sem við heyrum og lesum, hvort sem það kemur frá prófessor Johnson eða Siggu frænku, ættum við ætíð að taka með fyrirvara.

Við ættum aldrei að trúa í blindni á sérfræðinga heldur temja okkur gagnrýna hugsun, spyrja spurninga, leita eftir fleiri tilgátum og skoða aðrar rannsóknir sem kannski sýna aðra niðurstöðu.

Við skulum muna að sérfræðingar eru ekki hafnir yfir gagnrýni en um leið hafa huga okkar opinn fyrir því að hvorki heimurinn né vísindin eru annað hvort svört eða hvít, og margt af því sem við heyrum í dag eru enn tilgátur sem hvorki er búið að sanna né afsanna.

Höfundur leggur stund á doktorsnám í líffræði við Uppsalaháskóla í Svíþjóð.