Engeyskur ættarviti

Eftir Hall Hallsson:

Enginn efast um hollustu Davíðs Oddssonar við Ísland og íslenska þjóð. Enginn efast um að hagsmunir Íslands ganga framar hagsmunum Sjálfstæðisflokksins í huga hans. Enginn efast um að Neyðarlögin björguðu íslenskri þjóð úr gini bruzzelska úlfsins.

Þjóðin hefur horft á litla pólitíkusa fórna hagsmunum þjóðar fyrir hagsmuni Brussel …  Steingrímur J. Sigfússon, Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Katrín Jakobsdóttir, Logi Einarsson, Þorgerður Katrín og Þorsteinn Pálsson pírðu öll til Brussel tilbúin að setja þjóðina undir drápsklyfjar Icesave. Öll.

Ef draumsýn um ESB á að rætast verða fiskimiðin að fara undir Brussel eða á ég að segja Berlín nú þegar forseti Þýskalands er farinn heim og lánlausi kanslarinn er á leiðinni. Þýðversk stjórn og stórkapital undir formerkjum Stór-Evrópu og glóbalisma.

Orkan er til sölu. 3jiO herðir tök Brussel og þjóðin flækist umkomulaus í netinu. Afsalssinnar vinna að því að rústa landbúnað, gjarðyrkju, stóriðju; aðförin að sjávarútvegi og landsbyggðinni nöturleg. Þetta er sannleikur máls. Ég klíp mig og sársaukinn sker en svona er þetta. Ég er ekki að ýkja. Þrír milljarðar komu í hlut heildsala fyrir að úthýsa íslenskum landbúnaði fyrir sýklamallað evrópskt kjöt. Hversu galin er staðan?

Trílógía Engeyinga

Nú hefur Davíð Oddsson opnað augu okkar fyrir tríólógíu Engeyginga innan XD. Bjarni Ben að tjaldabaki en frændurnir Halldór Blöndal og Björn Bjarnason ganga fram af engeysku offorsi og vega mann og annan. Mér er hlýtt til þremenninganna, þekkt Halldór og Björn frá Mogganum í den.

Hallur Hallsson var um árabil fréttamaður á Ríkissjónvarpinu og Stöð 2, en þar áður hafði hann verið blaðamaður á Dagblaðinu og Morgunblaðinu. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

BjarniBen fylgdi mér til Westminster með Váfuglinn þegar við vorum í góðu kompaní lorda og lávarða 2012; meðal annars Austin Mitchell labour frá Grimsby og risann Bill Cash conservative. Fjórum árum síðar samþykkti breska þjóðin Brexit. En það er eitthvað ósagt, óskýrt hjá XD bæði í Icesave & 3jaO.

Hefur DO rétt fyrir sér að XD hafi lagt gamla góða íslenska áttavitann upp á hillu fyrir engeyskan ættarvita? Tengdasonur Björns í glóbalfirmanu Vodafone bíður með milljarða í sæstreng og visir.is, stöð 2 og bylgjan dilla rófum. Ekki þarf að slá í klárinn í gerspilltu RUV á Efstaleiti.

Á föstudag fékk ég símtal frá formanni hverfisfélags sjálfstæðismanna í Neðra Breiðholti sem sagði að nánast öll stjórnin væri gengin á dyr … já gengin á dyr.

Það er með trega í hjarta að ég set þessi orð á blað. Erum við að horfa upp á Sjálfstæðisflokkinn … merkasta stjórnmálaafl þjóðarinnar … týna uppruna sínum og tilgangi?

Höfundur er blaðamaður.