Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:
Ekki er ég að saka talsmenn frjálslyndra flokka um lýðskrum enda ómögulegt fyrir mig að fella slíkan dóm. Ég nota bara þeirra eigin pólitísku skilgreiningu að þessu sinni til að sýna að frjálslyndir eru ekki minna í popúlisma en aðrir flokkar.
Skilgreining frjálslyndra á hugtakinu „lýðskrum“ er að þar sé átt við stjórnmálamenn sem skapa ótta við pólitíska andstæðinga og fullvissi kjósendur um að þeir hafi lausnir við hvers manns vanda.
Frjálslyndir skapa ótta við okkur íhaldsmenn og segja m.a. að við séum „einangrunarsinnar“. Vegna þess að okkur hugnast ekki aðild að ESB og alþjóðavæðingin sé ekki okkur að skapi.
Nú er það þannig að alþjóðavæðingin hefur ekki haft eins jákvæð áhrif á hagsmuni okkar í verkalýðsstétt og hinnar hámenntuðu hástéttar. Við horfum upp á þá staðreynd að störf flytjast úr landi til láglaunasvæða heimsins. Þegar talað er um „hagræðingu“ þýðir það oftast að okkar fólk missir vinnuna.
Fólk eins og ég sem telur dýrmætum tíma æskuáranna betur varið í annað en setu á skólabekk hlýtur að hafa líka einhvern andmælarétt. En það hugnast frjálslyndum afskaplega illa, enda er flestum illa við það þegar þeirra eigin hagsmunum er ógnað.
Hagsmunir stóru fyrirtækjanna
Aðild að ESB þjónar sennilega afskaplega vel hagsmunum stórra fyrirtækja enda virðist regluverk sambandsins hannað að þeirra þörfum. En við þessi ómenntaði pöpull þurfum að líða fyrir þarfir stórra fyrirtækja á markaði — þau verða að hámarka hagnaðinn.
Frjálslynd og framsækinn pólitík er heljarinnar streituvaldur í raun. En þar sem við upplifum flest með misjöfnum hætti, virkar streita vel á suma og illa á aðra. Þessu gleyma frjálslyndir gjarna í öllum ákafanum og sá sem fagnar ekki öllum breytingum er þá talinn afturhaldsseggur og það þykir ekki fínt á frjálslyndum tímum.
Íhaldssemi fylgir meiri stöðugleiki og hann er af fræðimönnum talinn skömminni skárri fyrir sálina en miklar og róttækar breytingar. En stöðugleiki þarf ekki að koma í veg fyrir framfarir enda eru þær oftar til góðs en ills.
Í öllum ákafanum sem fylgir boðun frjálslyndra stjórnmála gleymist sú staðreynd að við íhaldsmenn erum fyrir löngu orðnir frjálslyndir í hugsun. Frjálslyndir gleyma því að skilgreining á „frjálslyndi“ er of flókin til að hægt sé að ræða það í fáum orðum.
Svo er lýðskruminu hellt yfir okkur sem viljum frekar krónu en evru — sagt að við séum að tala fyrir sérhagsmunum á kostnað almannahagsmuna.
Þar sem mín ætt samanstendur af vinnandi fólki og ég sjálfur þrælað baki brotnu frá unglingsárum til þessa dags, er mér mjög annt um hagsmuni vinnandi stétta. Það skiptir okkur miklu máli að hafa vinnu vegna þess að atvinnuleysi er mikið böl. Við erum ekki í sömu stöðu og „elítan“ sem fær himinháar greiðslur eftir að uppsagnarbréfið berst.
Engin mynt getur breytt umhverfinu
Við búum nefnilega í litlu og óstöðugu efnahagsumhverfi sem engin mynt getur breytt. Ef það kemur niðursveifla er henni mætt með atvinnuleysi ef evran er notuð. Krónan þýðir að við höldum vinnunni og þurfum að sættast við raunlækkun launa. Þess vegna kýs ég frekra krónu en evru, því atvinnumissir er okkur almúgafólki afskaplega sár.
Vissulega höfum við almúgamenn óbeina hagsmuni af öllu þessu frjálslyndisbrölti. Við getum keypt ýmsan varning á lægra verði en áar okkur dreymdi um að eignast. Það hefur örugglega leitt margt gott af sér sem gagnast heildinni. En frjálslyndið hefur stóra galla sem ekki er hægt að hunsa.
Ekki má gleyma að geta þess að það voru raunverulega frjálslyndir sem sköpuðu lýðskrumið (áttu amk. mikinn þátt í að skapa) — svo skammast þeir yfir eigin sköpun og skilja hvorki upp né niður í öllum þessum „popúlisma“.
Streitan öll sem frjálslyndir hafa skapað okkur almúgafólki er meira íþyngjandi en orð fá lýst. Þegar fram kemur einstaklingur (eins og Trump) sem talar fyrir hagsmunum vinnandi fólks og vill skapa fleiri störf í sínu heimalandi grípa það margir fegins hendi.
Þessir frjálsyndisöfgar sem hafa tröllriðið heiminum áratugum saman kalla því miður á aðra öfga.
Sem sennilega eru verri ef eitthvað er.
Þess vegna þurfa frjálslyndir að staldra við og hugsa hvort þeir vilja í alvöru almannahagsmuni umfram sérhagsmuni.
Það er sem betur fer sameiginlegt með okkur íhaldsmönnum og frjálslyndum — er að við erum friðsamt fólk upp til hópa.
Ekki viljum við sósíalismann sem drepa mun lýðræðið og frjálsa hugsun um leið ef hann fær að blómstra.
En frjálslyndir öfgar geta skapað grundvöll fyrir þjóðfélag sósíalismans.
Þá er ekkert annað en biðja Guð að blessa Ísland og vera snöggur að því.
Það verður sennilega bannað þegar sósíalisminn nær völdum.
Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.