Er málefnaleg umræða ómöguleg?

Eftir Ívar Pál Jónsson:

Nú ætla ég, gegn betri vitund, að hætta mér út á foraðið. Mín sýn á málefni kyn- og hinseginfræðslu er um það bil þessi:

1. Hver og einn fullveðja einstaklingur á líkama sinn og á að hafa skilyrðislausan rétt til þess að haga lífi sínu eins og hann vill, svo lengi sem hann skaðar ekki aðra.

2. Af því leiðir auðvitað að um leið hefur hann ekki rétt til þess að hefta samsvarandi hegðun eða tjáningu annarra.

3. Maðurinn er hjarðdýr og ræðst miskunnarlaust á einstaklinga sem skera sig úr hópnum á einhvern hátt. Það er ömurleg staðreynd að margir hafa þurft að sæta ofsóknum og einelti í barnæsku fyrir það að vera ekki eins og allir hinir.

4. Það er mikilvægt að fræða krakka um fjölbreytileika lífsins og rétt þeirra og annarra til þess að haga lífi sínu eins og þeir kjósa.

5. Eftir því sem ég hef séð hefur fræðsla Samtakanna ‘78 (S78) ekki snúist um annað en það. Ef aðrir eru annarrar skoðunar má rökræða það. (https://samtokin78.is/…/Kennsluaaetlun-hinsegin…)

6. Öll fræðsla fyrir ungmenni er vandmeðfarin, því börn og unglingar eru áhrifagjörn og viðkvæm, enda eru þau ennþá að mótast sem einstaklingar og gjarnan í ójafnvægi vegna efnaskipta og líkamlegra breytinga.

7. Foreldrar hafa allan rétt á því að hafa skoðun á því efni sem er borið á borð fyrir börn þeirra.

8. Sumt efni sem vitnað hefur verið í úr bókinni „Kyn, kynlíf og allt hitt“ (https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/kyn_kynlif/) orkar að mínu mati mjög tvímælis, sér í lagi fyrir 1.-4. bekk grunnskóla. Þetta má ræða. Ábyrgð þeirra sem ákveða námsefni af þessu tagi er mikil.

9. Er þetta efni á vegum S78? Eftir því sem ég best sé er það á vegum Menntamálastofnunar. Athugasemdir foreldra ættu því að beinast að þeirri stofnun.

10. Að mínu viti er engin ástæða til þess að yfirfæra óánægju með þetta kynfræðsluefni á hinseginfólk, sem á rétt til þess að lifa lífi sínu eins og það kýs.

11. Margt sómakært fólk sem hefur gert athugasemdir við fræðsluefnið fellur ekki í þá gryfju og gremst að vera vænt um hatur á einstaklingum sem hafa þurft að sæta ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar og heyja baráttu fyrir réttinum til að vera þeir sjálfir.

12. Tilfinningar eru þess vegna miklar á báða bóga og málefnaleg umræða virðist vera ómöguleg. Öllu ægir saman og fáar tilraunir eru gerðar til þess að brjóta málið til mergjar og ræða það á yfirvegaðan hátt.

Höfundur er hagfræðingur og tónlistarmaður.