Eftir Friðrik Jónsson:
Er þriðja heimsstyrjöldin hafin? Kannski hófst hún fyrir allnokkru síðan og er háð á hefðbundnum og óhefðbundnum vígvöllum andans og akranna.
Í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem undirritaður var 26. júní 1945, segir í inngangsorðum m.a. að þær þjóðir sem að þeim standa staðfesti „trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar.“ Ennfremur „að sýna umburðarlyndi og lifa saman í friði, svo sem góðum nágrönnum sæmir, að sameina mátt vorn til að varðveita heimsfrið og öryggi…“ og „…að vopnavaldi skuli eigi beita, nema í þágu sameiginlegra hagsmuna.“
Á þeim nær 77 árum sem liðin eru frá því þessi orð voru rituð, hefur framkvæmd þessara háleitu markmiða gengið misjafnlega. Þó hefur sveigur nútíma mannskynssögu frekar hneigt í átt til aukins frelsis, réttinda og velsældar.
Það hugnast hins vegar ekki öllum.
Samhliða hefur hraði breytinga, þróun þjóðfélagsgerða og streymi upplýsinga vaxið með miklum hraða. Svo mjög að um margt verður það yfirþyrmandi. Það ýtir þá mögulega undir óöryggi og ótta sem, jafnvel þegar það á rétt á sér, er auðvelt að misnota og misbeita.
Við þekkjum öll hugtakið „landsfaðir“. Washington, Gandhi, Ataturk, svo dæmi séu nefnd. Heyrum minna um „landsmóður“ í sömu merkingu þó okkar eigin Margrét fyrsta danadrotting ætti t.d. augljóslega tilkall til slíks og líkast til Viktoría bretadrotting sem ríkti yfir breska heimsveldinu meginhluta nítjándu aldar.
Reglulega koma hins vegar fram á sjónarsviðið nýjir leikendur sem vilja gera tilkall til þess að verða landsfeður. Þeir eru óvenju margir á alþjóðasviðinu þessa dagana – og óvenju hættulegir sumir, því oft grundvallast tilvera þeirra á röksemdafærslum sem byggir á vanvirðingu mannréttinda, upphafningu eigin sérstöðu og ógeðfelldri þjóðerniskennd.
Það leiðir óneitanlega til smættunar á tilvist og tilverurétti annarra, sem aftur verður eldsneyti ófriðar.
Þar erum við því miður stödd.
Leiðin frá þessu er endurnýjuð „trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti [allra kynja] og allra þjóða, hvort sem stórar eru eða smáar.“
Höfundur er sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum.
Þetta er fyrsti pistillinn í greinaflokki sem birtast mun næstu daga á Viljanum, þar sem sérfróðir aðilar velta fyrir sér þýðingu innrásar Rússa í Úkraínu og hvort sá möguleiki sé í reynd til staðar að nýr heimsófriður kunni að vera í kortunum eða sé þegar hafinn.