Er unnið eftir þaulhugsaðri áætlun?

Í framtíðinni verða matvæli ræktuð í landi sem nú um stundir er ekki samkeppnishæft – en verður það áður en langt um líður.

Eftir Áskel Þórisson:

Líklega tekst að draga allar tennurnar úr íslenskum landbúnaði. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri hefur lagt sitt af mörkum og það er engu líkara en að um þaulhugsaða áætlun sé að ræða. Forsvarmenn verslunar og innflutnings hafa trommað undir og réttilega bent á að hægt sé að fá ódýra matvöru í útlöndum. Auðvelt er að fá ódýran mat frá verksmiðjubúum á svæðum sem eru þekkt fyrir lág laun og lítið eftirlit.  

Sagt er að aukinn innflutningur matvæla til Íslands muni skila neytendum um 900 milljónum króna á ári. Á sama tíma er gert ráð fyrir 500-600 milljón króna tekjuskerðingu landbúnaðar. Þetta kemur fram í frumvarpsdrögum að breytingum á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim.

Ég efast ekki um að innflutningur landbúnaðarafurða verður gerður nánast frjáls. Innflutningsaðlar munu í upphafi vinna eins og framvarpið gerir ráð fyrir en síðan herða tökin – og ná til sín því sem frumvarpsdrögin tala um að hafni í vasa almennings. 

Það er búið að ákveða þetta

Það er þýðingarlaust að tala um að líklega séu fjölónæmar bakteríur mesta heilsufarsógn mannkyns. Lítt heftur innflutningur er ávísun á slíkan vanda. Enn minni þýðingu hefur að tala um mögulega sýkingu íslensks búfjár og að hér á landi sé lítið um misnotkun fúkalyfja.  Þetta er þýðingarlaust vegna þess að búið er að ákveða hömlulítinn innflutning.

Áskell Þórisson fv. ritstjóri Bændablaðsins.

Athygli vekur að lítið er rætt um kolefnisspor fæðunnar né heldur um fæðuöryggi. Það þarf ekki mikið að gerast í heiminum til þess að hér skorti mat sem hefði verið hægt að framleiða á Íslandi. 

Ekki er einleikið hvernig staðið er að málum. Það er eins og unnið sé eftir þaulhugsaðri áætlun.

Ég leyfi mér að spá því að íslenskt landbúnaðarland muni í æ ríkari mæli komast í hendur erlendra stóreignamanna (eða íslenskra umboðsmanna þeirra) sem horfa mjög langt fram á veginn. Þeir vita að hér verður líklega hægt að framleiða matvæli þegar hækkaður lofthiti og hærri sjávarstaða kemur í veg fyrir það í ýmsum öðrum löndum. Þeir vita líka að verð á landi verður hagstæðara eftir því sem fleiri íslenskir bændur gefast upp.

Stórbú þessara auðkýfinga verða ekkert endilega með íslenska hagmuni í huga.

Höfundur er fyrrum ritstjóri. Hann er félagi í Landvernd.