Fjórir þingmenn Miðflokksins hafa sent Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis, bréf, þar sem þeir mótmæla harðlega vinnubrögðum hans og áformum um kosningu nýrra varaforseta um afgreiðslu Klaustursmálsins til siðanefndar Alþingis. Segja þeir forseta hafa haldið sér í myrkrinu um málsmeðferð, hann svari ekki erindum og virði ekki þingsköp.
Bréf fjórmenninganna fer hér á eftir:
I.
Vísað er til bréfs okkar til þín 17. jan. sl. sem þú virðist hafa kosið að virða ekki svars.
Þessi málsmeðferð er andstæð 3. mgr. 17. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Þar er mælt fortakslaust fyrir um að þingmaður sem sakaður er um að hafa brotið siðareglur skuli „ávallt eiga þess kost, meðan mál hans er til umfjöllunar hjá forsætisnefnd, að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og upplýsingum.“
Þetta er ekki aðeins ámælisvert heldur er þetta einnig til þess fallið að gera meðferð málsins óvandaðri, líkt og lýst er í bréfinu frá 17. jan. sl. Erfitt er að taka þessu sem öðru en vísbendingu um óvild forseta í okkar garð. Sama má segja um ítrekaða vanrækslu að verða við beiðni okkar um afhendingu gagna sem upphaflega var sett fram 13. des. sl.
II.
Þótt ætlunin sé greinilega að halda okkur í myrkrinu um hvað þú sérð fyrir þér fram undan teljum við rétt að koma hér á framfæri okkar sjónarmiðum um þá hugmynd um „viðbótarvaraforseta“ sem höfð hefur verið eftir þér í fjölmiðlum. Skv. því sem þar greinir virðist hugmynd þín vera sú að þingið kjósi svonefnda „viðbótarvaraforseta“ úr hópi þingmanna sem sagðir eru „hæfir til umfjöllunar“ um mál okkar. Þeir myndi síðan „eins konar undirforsætisnefnd“ og eigi að fjalla um mál okkar. Þetta verði gert „með afbrigðum frá þingsköpum.“ Sjá frétt á mbl.is frá 15. jan. sl.
III.
Við mótmælum lögmæti þessarar tillögu og bendum m.a. á að þessi aðferð er andstæð siðareglum fyrir alþingismenn. Þær eru afdráttarlausar um að forsætisnefnd eigi að fjalla um mál skv. þeim og heimila engin afbrigði. Þegar af þeirri ástæðu virðist tillaga þín enga skoðun geta staðist.
Auk þessa viljum við vekja athygli á eftirfarandi:
1) Siðareglur fyrir alþingismenn fela forsætisnefnd meðferð og afgreiðslu mála skv. reglunum. Þegar siðareglurnar vísa til forsætisnefndar er óhjákvæmilegt að líta svo á að þar sé vísað til þeirra tilteknu forsætisnefndar sem starfar skv. ákvæðum laga um þingsköp. Hvergi í siðareglunum er að finna heimild til að víkja frá þessu og fela öðrum nefndum meðferð og afgreiðslu þessara mála. Tillaga um að sérstök nefnd þingmanna sem eru titlaðir „viðbótarvaraforsetar“ er því andstæð ákvæðum siðareglna. Breytir þar engu þótt nefndin sé sögð „eins konar undirforsætisnefnd.“
2) Forsætisnefnd er skipuð með sérstökum hætti og hefur sérstöku hlutverki að gegna í störfum þingsins.
a. Forsætisnefnd er skipuð forseta og sex varaforsetum. Fjöldi varaforseta var ákveðinn með lögum nr. 74/1992 með það í huga að varaforsetar endurspegluðu þingflokkana sem þá störfuðu. Nú hefur þetta fyrirkomulag hins vegar staðið óbreytt um langa hríð. Þingflokkum hefur fjölgað og forsætisnefnd er skipuð færri nefndarmönnum en fastanefndir þingsins sem eru að jafnaði skipaðar níu mönnum. Af þessu leiðir að við kosningu varaforseta þurfa þingmenn einstakra þingflokka að huga sérstaklega að því hvernig þeir kasta atkvæðum sínum, enda ekki sjálfgefið að þingflokki þeirra lánist að tryggja að einn varaforseta komi úr þingflokknum.
b. Forseta og varaforseta skal kjósa fyrst eftir að þing kemur saman eftir alþingskosningar. Sjá 3. gr. laga um þingsköp. Kosningin gildir fyrir allt kjörtímabilið þó unnt sé skv. beiðni meiri hluta þingmanna að kjósa forseta og varaforseta aftur. Gerist þetta fellur hins vegar hin fyrri kosning úr gildi er ný kosning hefur farið fram. Sjá 6. gr. laga um þingsköp. Þetta er ólíkt þeirri reglu sem gildir um fastanefndir þingsins en þingflokkum er heimilt að „hrókera,“ ef svo má segja, sínum þingmönnum milli þeirra. Sjá 16. gr. laga um þingsköp.
c. Forsætisnefnd ber alveg sérstaka ábyrgð á störfum þingsins, skipuleggur þinghaldið og gerir starfsáætlun fyrir hvert þing. Forseti og varaforseti stýra síðan þinghaldi innan marka þingskapa. Sjá 10. gr. laga um þingsköp. Nefndin ræður jafnframt skrifstofustjóra. Sjá 11. gr. laga um þingsköp. Þá setur forsætisnefnd reglur um skrá þingmanna á fjárhagslegum hagsmunum sínum og trúnaðarstörfum utan þings. Sjá 87. gr. laga um þingsköp. Þá skal forsætisnefnd undirbúa og leggja fram þingsályktunartillögu um siðareglur fyrir alþingismenn og fjalla um mál er varða siðareglur alþingismanna, framkvæmd þeirra og brot á þeim. Sjá 88. gr. laga um þingsköp.
3) Skipun forsætisnefndar og hlutverk er skv. þessu slíkt að búast má við að nefndarmenn, forseti og varaforsetar, séu reyndir þingmenn. Þeir þekki sérstaklega til starfa þingsins og þingmanna og njóti sérstaks trausts í sínum þingflokkum og jafnvel út fyrir raðir þeirra. Þá gildir skipan nefndarinnar út allt kjörtímabilið. Því má búast við að hrókeringar geti lítt átt sér stað með sæti í nefndinni og nefndarsetan sé eins varanleg og unnt sé. Hafa þessi atriði öll væntanlega skipt máli þegar hlutverk forsætisnefndar var ákveðið í siðareglunum.
4) Þegar siðareglur fyrir alþingsmenn voru samþykktar var út frá því gengið að forsætisnefnd myndi fjalla um mál skv. siðareglunum. Orðalag siðareglnanna er afdráttarlaust um þetta og forsaga setningar þeirra undirstrikar þetta. Við setningu þeirra voru nefnilega gerðar breytingar til að árétta að það væri forsætisnefnd sem færi með „úrskurðarvald“ í þessum málum, ekki siðanefnd sem var einungis ætlað ráðgefandi hlutverk gagnvart forsætisnefnd. Tæpast hefði því, við umfjöllun um setningu siðareglnanna, hlotið brautargengi tillaga um að „úrskurðarvald“ í málum sem þessum skyldi fyrir komið í sérstakri nefnd, ótilgreinds fjölda þingmanna, sem yrðu kosnir eftir að kvörtun lægi fyrir, sem „viðbótarvaraforsetar.“
5) Virðist því óhjákvæmilegt að skýra siðareglurnar svo að umfjöllun „viðbótarvaraforseta“ í stað forsætisnefndar um mál skv. siðareglunum væri andstæð þeim.
5) Ekkert í lögum um þingsköp virðist geta breytt þessu. Þvert á móti virðist kosning „viðbótarvaraforseta“ í þessu augnamiði andstæð lögum um þingsköp. Þannig mælir 88. gr. þeirra laga sérstaklega fyrir um að forsætisnefnd fjalli um mál er varða siðareglur alþingismanna, framkvæmd þeirra og ætluð brot gegn þeim. Ákvæðið er fortakslaust og sérstaks eðlis, sbr. m.a. það sem að framan greinir. Alþingi virðist því t.d. óheimilt vísa þessum málum til annarrar nefndar, sbr. almenna heimild í 32. gr. um kosningu sérnefndar til að „íhuga einstök mál.“
6) Óhugsandi virðist að 94. gr. laga um þingsköp geti breytt einhverju um niðurstöðuna. Ákvæðið víkur frá þeirri meginreglu stjórnskipunarinnar að sett lög þurfi til að breyta öðrum settum lögum. Heimild 94. gr. verður því aðeins beitt af ítrustu varúð. Hefur enda verið litið svo á að hún heimili einkum að brugðið sé frá þingsköpum fyrir frumvörpum og öðrum þingmálum, t.d. um fresti fyrir framlagningu og tíma á milli umræða. Greinargerðin með því frumvarpi sem varð að lögum um þingsköp gefur þetta eindregið í skyn. Tveir þriðju hlutar þingmanna geta því vart í skjóli þessa ákvæðis sett nýjar leikreglur, eftir að mál er komið upp skv. siðreglum, um meðferð mála skv. þeim. Meðferð þeirra er á forræði forsætisnefndar skv. bæði siðareglunum og sérstöku ófrávíkjanlegu ákvæði 88. gr. laga um þingsköp. Hér má reyndar, svo það sé nefnt, einnig horfa til þess að 88. gr. laga um þingsköp var sett með lögum nr. 84/2011. Þau lög teljast því yngri en ákvæði 94. gr. og skv. meginreglunni gilda yngri ákvæði umfram eldri.
IV.
Loks viljum við vekja athygli á siðferðislegri og laglegri þýðingu þess að málsmeðferð kvartana gegn þingmönnum fari fram skv. fyrirfram ákveðnum og fyrirsjáanlegum leikreglum. Slík málsmeðferð hefur verið talin aðalsmerki réttarríkisins og réttlátrar og sanngjarnrar málsmeðferðar.
Anna Kolbrún Árnadóttir
Bergþór Ólason
Gunnar Bragi Sveinsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson