Eftir Ernu Ýri Öldudóttur:
Ár hvert safnast áhorfendur í sal og fyrir framan flatskjái eða túbusjónvörp, eftir því hvern hinum evrópska efnahag hefur þóknast að heimsækja fram að þessu, til að horfa á krúnudjásn menningarstjórnsemi hins opinbera valds, Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Ýmsir hafa gaman af keppninni, mörgum þykir hún góð fjölskylduskemmtun, aðrir eru síður hrifnir, eins og gengur. Fyrir alla er þó jafnan möguleiki á að fylgjast með pólitískum rétttrúnaði, þjóðernisrembu og milliríkjadeilum misgetulausra, en þó jafnmisheppnaðra, valdhafa hinna ýmsu þjóða. Þeir senda hver um sig skrúðgöngu skrumskælingar síns staðbundna tíðaranda upp á svið keppninnar í von um að sigra á þann hátt sem hið opinbera vald gerir oftar en ekki, í gegnum bræðralag þjóða sem á mannamáli heitir klíkuskapur, en stundum til að ofbjóða gestgjafa, keppinautum og áhorfendum, í ofan á lag.
Sigurþjóðin fær ávallt í sinn hlut að þurrsjúga vasa og veski skattgreiðenda, til að halda að nýju einvígi meðalmennskunnar að ári liðnu, í sínu heimalandi, þar sem þau fá svipað vanþakklætisvæl að launum, og veitt eru ár hvert, svo sem vegna utan- og innanríkismála, flóttamannavanda, hvalveiða, kolefnislosunar o.s.fr.v.
Afrakstri keppninnar, sem undantekningarlaust, þrátt fyrir einstaka þokkalegt framlag, hefur verið tónlistar- og menningarlegur fjóshaugur, er komið fyrir í áburðardreifara samkrullaðra málpípa þátttökuríkjanna, þar sem honum er dreift hnífjafnt og í eilífðaráskrift ánauðar yfir hvern einasta fermetra mannlegs vistkerfis á EES-svæðinu og víðar.
Haugarfinn, sem vex upp úr hinum vel dreifða, en umfram allt lífrænt vottaða áburði, kolefnisjafnar smekkleysuna og hrærir henni saman í kynjajafnað fjölmenningarsalat með jafnlaunavottun. Hver og ein rækja í þessu kólesterólsnauða mæjónessalati á þó fullan rétt á upplifunum sínum, byggðum á einstaklingsbundnum reynsluheimi, en um leið á sjálfsmyndardýrkun undirokaðra, fjölskipaðra minnihlutahópa með meirihlutavægi.
Reynsluheimur hinna rétt fremur en vel upplýstu rækja í salatinu, sem margar eru með núvitund, en tæplega við meðvitund, er sneisafullur af glæstum vonum og væntingum, en þó aðallega vonbrigðum, með svo margt annað en sjálfan sig, og rétt þykir þeim að tæpa aðeins á því í umboði útsendara sinna.
Enda fátt eðlilegra, hin nýjasta kynslóð verður ávallt bjartasta von hverrar þjóðar, og það gildir einnig í milliríkjakapphlaupi meðalmennskunnar, Eurovision.
Fullyrða má að eftir að Ísland skreið með skyrbjúg, beinkröm og hor upp úr lundaholum og Evrópa klöngraðist kalin með kynsjúkdóm og fótfúa, upp úr skotgröfum, kjarnorkubyrgjum og vinnubúðum, þá hafa þjóðirnar, sem nú taka ár hvert þátt í Eurovision, teflt þar fram hverri kynslóðinni fegurri og betri og því ætti að vera fullvíst, að hin nýjasta útgáfa þess besta sem framleitt hefur verið, muni skáka öllu því sem áður hefur verið prófað.
Góða skemmtun.
Höfundur er blaðamaður á Viljanum.