Eftir Diljá Mist Einarsdóttur:
Á dögunum voru tveir ungir menn dæmdir í Rússlandi fyrir að flytja ljóð og vera viðstaddir upplesturinn. Ljóðalesturinn var liður í mótmælum gegn átökunum í Úkraínu enda þótt gagnrýni á innrás Rússa í Úkraínu sé ólögleg í Rússlandi. Fljótlega eftir innrásina lét Pútín setja lög sem gerðu ólöglegt að „vanvirða“ (e. discredit) rússneska herinn. Síðan þá hafa þúsundir manna verið handteknir og/eða sektaðir í Rússlandi á þessum grundvelli. Til dæmis fyrir að bera gulan og bláan trefil eða biðja plötusnúð að spila úkraínskt lag.
Þetta er eins órafjarri hugmyndum okkar um frjálst og lýðræðislegt samfélag og hugsast getur. Staðreyndin er samt sú að mikill minnihluti fólks í heiminum býr við raunverulegt tjáningarfrelsi. Og þessi hópur fer minnkandi. Mikill meirihluti fólks býr við stöðugan ótta við áreiti, ofbeldi og lagalegar afleiðingar þess að tjá hug sinn; segja skoðanir sínar. Það er því óhætt að segja að við búum við mikil forréttindi, réttindi sem eru ekki sjálfgefin eða sjálfsköpuð og raunverulega hætt við að glatist.
Ég hef ekki starfað lengi sem kjörinn fulltrúi, í rauninni aðeins í skamman tíma. Þó hafa mér þegar borist fjöldi skilaboða og tölvupósta með harðorðri og jafnvel illgjarnri gagnrýni. Mér hafa líka borist hótanir frá fólki sem mislíkar skoðanir mínar (eða jafnvel bara rödd eða klæðaburður). Ég hef séð alls konar hluti skrifaða um mig og fólk hefur dundað sér við að skreyta myndir af mér með miður fallegum orðum og deilt þeim sem víðast. Ég er sjálf alin upp við það að sýna öllu fólki kurteisi og virðingu í samskiptum. Líka þeim sem ég er ósammála. En ég get ekki annað en glaðst yfir því að búa í samfélagi þar sem fólk leyfir sér óheflaða framkomu af þessum toga. Ég er reyndar ekki viss um að þetta fólk kunni eins vel að meta þetta frjálsa samfélag sem við höfum byggt hér upp, en það er önnur saga.
Ein helsta ógnin við þessa forréttindastöðu okkar er vaxandi samfélagslegt umburðarleysi og aukin tilhneiging til þess að veitast að fólki og útskúfa fyrir skoðanir þess. Tiltölulega fámennur en hávær hópur fólks viðhefur svo vanstillta orðræðu og hegðun að afleiðingin er að þeim virðist fækka sem hætta sér út í skoðanaskipti. Enda hefur þessi fámenni hópur engan áhuga á skoðanaskiptum, heldur öllu fremur að yfirgnæfa umræðuna með eigin skoðunum og upphrópunum. Það þarf ekki að koma á óvart að nýlegar rannsóknir benda til þess að fólk þori í auknum mæli ekki að tjá skoðanir sínar, heldur láti í ljós skoðanir sem það telur viðurkenndar eða „réttar“.
Við þurfum því að spyrna við fótum. Ef við gerum það ekki tapast tjáningarfrelsið. Vonandi er það ekki um seinan.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis