Fjórða höfuðborg Íslands – Kaupmannahöfn

Eftir Tryggva Gíslason:

Þegar Peder Jensen loðhöttur biskup í Hróarskeldu lést 19. október 1416, tók konungurinn, Eiríkur af Pommern [1397-1439], Kaupmannahöfn úr hendi kirkjunnar og gerði að konungssetri. Sat hann í Absalonsborg frá árinu 1417. Er talið að þá hafi Kaupmannahöfn orðið höfuðborg danska ríkisins og þar með hjálendunnar Íslands. Kaupmannahöfn var því höfuðborg Íslands 501 ár. Það er því ekki að undra þótt margir Íslendingar hafi tengst „Borginni við Sundið“ og hugsi iðulega til þessarar gömlu höfuðborgar landsins.

Tryggvi Gíslason fv. skólameistari bjó um árabil í Kaupmannahöfn, er hann starfaði hjá Norrænu ráðherranefndinni.

Kaupmannahöfn er á miðri austurströnd Sjálands. Talið er að upphaflega hafi Sjáland og Skánn verið samföst þar til sjór gekk á milli og skildi að löndin tvö. Í því sambandi er fróðlegt að rifja upp sögn sem Snorri Sturluson rekur í Gylfaginningu um Gefjun og Gylfa sækonung:

Gylfi konungur réð þar löndum er nú heitir Svíþjóð. Frá honum er það sagt að hann gaf einni farandi konu að launum skemmtunar sinnar eitt plógsland í ríki sínu það er fjórir öxn drægi upp dag og nótt. En sú kona var ein af Ása ætt. Hún er nefnd Gefjun. Hún tók öxn norðan úr Jötunheimum, en það voru synir jötuns og hennar, og setti þá fyrir plóg. En plógurinn gekk svo og djúpt að upp leysti landið, og drógu öxnirnir það land út á hafið og vestur og námu staðar í sundi nokkru. Þar setti Gefjun landið og gaf nafn og kallaði Sjáland. Og þar sem landið hafði upp gengið, var þar eftir vatn.

Ekki er þess getið hver skemmtan sú var sem Gylfi konungur vildi launa. En Gefjun gaf Dönum Sjáland enda merkir nafn hennar „sú sem gefur”. Sögnina byggir Snorri á vísu eftir norska skáldið Braga hinn gamla Boddason, sem uppi var á 9. öld, elsta vísa eftir nafngreindan höfund á Norðurlöndum. 

Gefjun dró frá Gylfa
glöð djúpröðul óðla
svo að af rennirauknum
rauk, Danmarkar auka.
Báru öxn og átta
ennitungl þar er gengu
fyrir vineyjar víðri
valrauf, fjögur höfuð.

Í vísunni segir að Gefjun dró glöð frá Gylfa dýrmætt land (djúpröðul óðla) sem aukið var við Danmörku (Danmarkar auka) svo að rauk af dráttardýrunum (rennirauknum). Uxarnir báru átta augu (ennitungl) og fjögur höfuð þar sem þeir gengu á undan ránsfengnum (valrauf), hinni víðáttumiklu, grasivöxnu eyju.

Biskupssetur

Á siðskiptatímanum varð Kaupmannahöfn vettvangur átaka ólíkra trúarskoðana og andstæðra hagsmuna. Þrjú klaustur höfðu verið stofnuð innan borgveggjanna, elst Grábræðraklaustur stofnað 1238 og stóð þar sem nú er Gråbrødretorv, kyrrlát vin í borginni með notaleg veitingahús þar á meðal eftirlætisveitingahús blekbera Peder Oxe.

Í upphafi þessara átaka í ágúst 1523 kom Jón biskup Arason [1484-1550] norðan af Íslandi og gekk á fund Friðriks I [1471-1533] með erindi er varðaði biskupskjör hansá Alþingi. Konungur staðfesti biskupskjörið, enda þótt hann væri hallur undir kenningar Lúters og siðskiptamanna.

Þetta dugði skammt, því að Jóns Arasonar var hálshöggvinn í Skálholti 7. nóvember 1550, eins og allir þekkja. Þar með hófst „danski tíminn“ á Íslandi.

Danskurinn og fjandskurinn á Djúpavog

Danskir konungar og danskir embættismenn stjórnuðu Íslandi eftir dönskum lögum og urðu Íslendingar að sækja margt til Kaupmannahafnar.

Um aldir sóttu Íslendingar einnig menntun sína til Kaupmannahafnar, bæði handverks- og iðnmenntun svo og verslunar- og háskólamenntun og þaðan var landinu stjórnað fimm aldir, þar var æðsti dómstóll Íslendinga til 1920 og háskóli Íslendinga til ársins 1911. Á tímum einokunarverslunarinnar 1602 til 1786 þótti Íslendingum iðulega að sér sorfið og lá mörgum illt orð til dönsku kaupmannanna.

Upp úr miðri 17. öld orti séra Stefán Ólafsson í Vallanesi [1620-1688] um kaupmanninn á Djúpavogi:

Danskurinn og fjandskurinn á Djúpavog,
hann dregur að sér auðinn við brimseltusog
með fjandlega gilding og falska vog,
færi betur reyrðist um hálsinn hans tog.
Við landsfólkið setur hann upp ragnið og rog,
reiðin hann tekur sem geysilegt flog,
margt hann fyllir af mörnum trog,
maðurinn kann í íslensku já, já og og.

Hafa ber í huga að í Danmörku giltu sömu lög og dönsk alþýða leið undir einræði, harðstjórn og misrétti á sama hátt og íslenskur almúgi. En hvað sem gömlum væringjum líður og þótt enn taki einstaka maður sér í munn orðin „djöfullinn danskur”, finnst flestum Íslendingum eins og að koma heim þegar komið er til Kaupmannahafnar, enda er þar að finna fleiri „íslenska” sögustaði en annars staðar erlendis. 

Kaupauðgisstefnan

Þegar leið á 15. öld varð Kaupmannahöfn helsta verslunarborg við Eystrasalt. Borgin efldist enn frekar við stefnu þá í viðskiptum sem ruddi sér til rúms á 16. öld í kjölfar landafundanna miklu þegar konungsvald tók að eflast og fjaraði undan hinu gamla lénsveldi aðalsmanna Evrópu og verkaskipting kom í stað sjálfsþurftarbúskapar miðalda. Verslunarstefna þessi hefur verið nefnd kaupauðgisstefna eða kaupskaparstefna, merkantílismi.

Til að treysta vald sitt þurftu konungar fé til þess að halda fastaher, standa undir samkvæmislífi við hirðina og til að greiða laun nýrri stétt – stétt embættismanna, sem átti eftir að auka völd sín í Danmörku og öðrum löndum Evrópu allt til þessa dags.

Konungar gripu þá til þess ráðs að hækka skatta og leggja á tolla. Skyldi sérhvert ríki vera efnahagslega sjálfstætt og útflutningur meiri en innflutningur, vöruskipti við útlönd vera hagstæð, eins og seinna var sagt. Einvaldskonungum var því nauðsyn að hafa stjórn á atvinnulífi og verslun. Tollur var lagður á innfluttar vörur til að vernda vaxandi iðnað og innlenda framleiðslu og kapp lagt á að vinna nýlendur til að afla hráefna og markaða. Varð þetta upphaf nýlendustefnu Evrópuríkja og auðvaldsstefnu samtímans.

Til þess að þjóna hagsmunum konungs í anda kaupauðgisstefnunnar voru stofnuð einokunarfélög sem önnuðust verslun og viðskipti í umboði konungs og nutu styrkja frá ríkinu til þess að koma í veg fyrir samkeppni frá öðrum þjóðum. Í anda kaupauðgisstefnunnar stofnuðu Danir einokunarverslun á Íslandi árið 1602. Var öðrum þjóðum bannað að eiga viðskipti við Íslendinga og var beitt þungum viðurlögum ef út af var brugðið.

Kongens København

Meir en þrjár aldir var öll byggð Kaupmannahafnar innan gömlu borgveggjanna á um það bil 70 ha landsvæði. Þegar ófriðvænlega horfði eða eftir árásir óvinaherja á borgina voru borgveggirnir endurnýjaðir og bættir. Þegar kom fram um 1600 og farið var að nota fallbyssur í stríðsátökum í Evrópu. Borgveggurinn var því smám saman hlaðinn í múr og settir á hann varðturnar, bastioner. 

Þegar einn svipmesti konungur Dana, Kristján IV [1577/1588-1648] tók við konungdæmi 1588, hófst eitt glæsilegasta tímabil í sögu Kaupmannahafnar. Danir nefna hann Christian firtal auk þess sem hann hefur verið nefndur byggekongen, vegna þess að hann reisti borgir og bæi víðs vegar um ríki sitt. Starf hans beindist að því að efla ríkið og gera Kaupmannahöfn að miðstöð menningar og viðskipta um norðanverða Evrópu. Stóð hann að stofnun danskra verslunarfélaga í anda kaupauðgisstefnunnar. Fengu þessi verslunarfélög danskra kaupmanna einokun á verslun í löndum konungs og réðu verðlagi á vörum og varningi sem þau seldu – og á þeim afurðum sem þau keyptu. Liðu bæði skattlöndin og einstaklingar undan þessari skipan en hagur ríkisins, kaupmanna og konungs batnaði. Christian firtal hefur því ekki verið jafn virtur og elskaður á Íslandi og hann var í Danmörku.

Greinarhöfundur hefur skrifað talsvert um Kaupmannahöfn gegnum tíðina.

Eldur í Kaupinhafn

Eldur hefur oft herjað á Kaupmannahöfn eins og flestar aðrar borgir í Evrópu. Árið 1386 brann íbúðarhverfið umhverfis Frúarkirkju og varð mikið tjón á eignum. Árið 1596 brunnu 14 hús í miðborginni og var bruninn rakinn til hátíðahalda við krýningu Kristjáns IV. Árið 1685 brunnu 40 hús við Vimmelskaftet og Badhusstræde þar sem nú er Jorcks Passage.

Miðvikudaginn 20. október 1728 gerði mikið rigningarveður í Kaupmannahöfn. Þegar upp stytti undir kvöld tók að blása af suðaustri. Um nóttina sá lögregluvaktin við Vesturport eld gjósa upp úr þaki húss við Vestervold á þeim slóðum þar sem nú er Hotel Palace við Ráðhústorg. Er slökkvilið kom á vettvang hafði eldurinn þegar náð til húsanna við Sankt Klemensstræde. Tveimur stundum seinna hafði eldurinn náð Studiestræde.

Yfirvöld staðarins voru ekki undir þetta búin. Hermenn fengu ekkert að gert vegna óstjórnar og lögreglustjóri Kaupmannahafnar var drukkinn og varð að sofa úr sér vímuna.

Að kvöldi laugardagsins 23. október, þegar eldurinn hafði herjað þrjá daga og þrjár nætur, voru brunnar fjórar kirkjur: Frúarkirkja, Péturskirkja, Kirkja heilags anda og Þrenningarkirkjan, ráðhúsið og öll önnur hús við Gammel Torv, háskólinn og ellefu prófessorsgarðar í Latínuhverfinu. Af byggingum á þessum slóðum var Konsistorium eina húsið sem stóð af sér eldinn – og stendur raunar enn sem elsta hús Kaupmannahafnar, reist um 1420. 

Eldur í Kaupinhafn. Leikmynd eftir Lárus Ingólfsson.

Eldurinn í Kaupinhafn 1728 kemur við sögu Íslands og Íslendinga því að í brunanum brann hús Árna Magnússonar [1661-1730] við Stóra Kanúkastræti sem stóð þar sem veitingastaðurinn Det lille Apotek stendur nú. „Brann þar mörg gömul og góð bók, skrifuð og þrykkt, að það er óbætandi, því sumar þeirra eru aldeilis eigi til, sumar fást ei svo góðar hér eftir,” eins og stendur í frásögn Jóns Ólafssonar frá Grunnavík [1705-1779], skrifara Árna Magnússonar, en hann ritaði frásögn af brunanum, sem er ein aðalheimild um eldsvoðann. Bruninn 1728 er ein uppistaða í mikilfenglegum þríleik Halldórs Laxness um Jón Hreggviðsson, Snæfríði Íslandssól og Arnas Arneus. 

Árásir Englendinga á Kaupmannahöfn

Í miðjum Napóleonsstyrjöldunum árið 1801 gerðu Danir hernaðarbandalag við Frakka, erkióvini Englendinga. Dró það dilk á eftir sér. Á skírdag 2. apríl 1801 gerði enski flotinn undir stjórn hins kunna sjóliðsforingja Horatio Nelsons [1758-1805] árás á hafnarhverfi borgarinnar.

Urðu þarna mikil átök sem Danir nefna Slaget på Reden. Voru Danir bornir ofurliði. Rúmum sex árum síðar, aðfaranótt 5. september 1807, hóf enski flotinn fallbyssuárás á Kaupmannahöfn. Stóð sú árás fjóra daga. Þá gáfust Danir upp.

Urðu þarna mikil átök sem Danir nefna Slaget på Reden

Varð eignatjón mikið í borginni. Um 300 hús brunnu til grunna, þar á meðal gamla háskólabyggingin frá dögum Kristjáns fjórða [1577/1588-1648] og Frúarkirkja varð rústir eina. Englendingar tóku auk þess allan verslunar- og herskipaflota Dana, alls um 1400 skip, og sigldu honum til Englands. Urðu Danir því að smíða sér ný skip. Gekk því mjög á eikarskóga Danmerkur.

Af fyrirhyggju sinni plöntuðu Danir þá nýjum eikarskógum víða um landið til þess að eiga áfram eik í skip. En þegar þeir skógar voru vaxnir upp hundrað árum síðar var að mestu hætt að nota eik í skip og herskip og verslunarskip smíðuð úr járni og stáli. Í staðinn varð eikin úr skógunum smíðaefni í húsgögn og margs konar annan húsbúnað og muni.

Urðu Danir fyrir vikið frægir fyrir danska hönnun, Dansk design, sem borið hefur hróður Dana víða um lönd.

Ríkisgjaldþrot Dana 1813

Bandalag það sem Danir og Frakkar gerðu með sér árið 1801 varð dönskum efnahag þungt í skauti og undir lok Napóleonstímans, árið 1813, varð danska ríkið gjaldþrota. Gætti þessa gjaldþrots víða og hafði það margvísleg áhrif á efnahag Danmerkur, ekki síst efnahag Kaupmannahafnar.

Við friðarsamningana í Kiel 1814 urðu Danir að láta Noreg af hendi við Svía en fengu að halda Íslandi, Færeyjum og Grænlandi af því að Englendingar vildu ekki auka veldi Svía um of, að því er sagan segir. Þessar breytingar á stöðu danska ríkisins höfðu mikil áhrif á viðhorf Dana og breyttist staða Danmerkur í Evrópu.

Við upphaf Napóleonsstyrjaldanna hafði Danmörk verið eitt af stórveldum álfunnar en eftir friðarsamningana voru Danir orðin ein af smáþjóðum Evrópu og hafa verið það síðan. 

En Danir gáfust ekki upp. Með lögum frá 5. janúar 1813 var stofnaður ríkisbanki Danmerkur, Rigsbanken, sem síðar varð Danmarks Nationalbank. Nýrra viðhorfa tók að gæta í efnahags- og atvinnumálum sem byggði á aukinni menntun og mannauði auk þess sem Danir sóttu til annarra þjóða um hugmyndir. etja svip sinn á Kaupmannahöfn.

Fjögur tímabil í sögu Kaupmannahafnar

Sögu Kaupmannahafnar hefur verið skipt í fjögur megintímabil. Fyrsta tímabilið er kallað Bispens og Kongens København frá stofnun borgarinnar 1167 til upphafs einveldisins árið 1660. Frá þeim tíma er talað um Eneveldens København fram um 1840. Þá hefst tímabil borgaranna, Borgerskabets København, sem talið er hafa staðið til 1915. Þá er sagt að hefjist alþýðustjórn í Kaupmannahöfn, Folkestyrets København.

Sagt er að þetta fjórða tímabil standi enn, þótt ef til vill megi segja að við inngöngu Danmerkur í Efnahagsbandalag Evrópu árið 1973 hefjist fimmta tímabilið í sögu Danmerkur og Kaupmannahafnar, tímabil alþjóðahyggju og alþjóðasamstarfs. 

Ný borg

Árið 1852 heimiluðu yfirvöld í Kaupmannahöfn að reist yrði íbúðarbyggð utan gömlu borgveggjanna, norðan og vestan vatnanna. Á árunum fram yfir aldamótin 1900 reis á þessu svæði mikil byggð. Eru þetta hverfin sem í daglegu tali eru nú kölluð Vesterbro, Nørrebro og Østerbro eða Brokvartererne.

Þegar leið á 20. öld voru íbúðir í Brokvartererne orðnar lélegar í aldagömlum húsum þar sem efnalítið fólk og utangarðsmenn höfðust við. Nú hafa flest þessara húsa verið gerð upp, önnur hafa verið rifin og reist ný hús í staðinn sem falla vel að fyrri byggð.

Vaxandi höfuðborg

Árið 1880 voru íbúar Kaupmannahafnar 235 þúsund. Tíu árum seinna voru þeir orðnir 312 þúsund og hafði því fjölgað um þriðjung. Á næstu tveimur áratugum voru gömlu sveitaþorpin á Amager, Søvang, Store Magleby, Tårnby og Dragør sameinuð Kaupmannahöfn og árið 1901 fylgdi Brønshøj og Valby í kjölfarið og árið eftir ráku lestina Sundbyerne, Sundbyøster og Sundbyvester. Árið 1906 var íbúatala borgarinnar kominn í 430 þúsund og 1916 náði íbúatalan hálfri milljón.

Í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar fyrri drógust framkvæmdir saman í Danmörku, eins og annars staðar í Evrópu, og var atvinnuleysi mikið. Olli það átökum á vinnumarkaði og um 1930 fylgdi heimskreppan í kjölfarið og fólk flykktist til borgarinnar.

Árið 1921 voru íbúar Kaupmannahafnar orðnir 561 þúsund og árið 1938 nær 700 þúsund. Mikið þurfti því að byggja á þessum tíma til þess að mæta auknum íbúafjölda borgarinnar, en víða var búið þröngt. Fólksfjölgunin leiddi til þess að ný íbúðarhverfi risu utan miðborgarinnar en jafnframt fækkaði íbúum í gömlu Kaupmannahöfn.

Árið 1911 voru íbúar í gömlu Kaupmannahöfn, sunnan vatnanna, um 128 þúsund, eða um 28% íbúa borgarinnar, 1938 bjuggu þar aðeins 103 500 manns af 693 500 íbúum borgarinnar eða tæplega 15%. Enn hefur þetta byggðarmynstur breyst og íbúum i den indre by stórlega fækkað og eru nú aðeins um 50 þúsund. 

Þegar innanbæjarlestarnar hófu göngu sína árið 1934 hafði lagning þeirra í för með sér miklar byggingarframkvæmdir og aukna atvinnu. Meðan Þjóðverjar hersátu Danmörku 1940 til 1945 drógust allar framkvæmdir saman og leið efnahagur Dana mjög undan, auk þess sem skemmdarverk andspyrnuhreyfingarinnar drógu einnig úr efnahagsvexti. Á stríðsárunum var lítið byggt af íbúðarhúsnæði.

Þegar íbúum Kaupmannahafnar tók enn að fjölga eftir lok síðari heimstyrjaldarinnar leiddi það til mikillar húsnæðiseklu. Á sjötta áratugnum dróst landbúnaður saman í Danmörku og fólk flutti tugþúsundum saman frá Jótlandi til Kaupmannahafnar og var borgin á þeim árum kölluð stærsti jóski bærinn í Danmörku. Í Ryesgade á Nørrebro og í nágrenni var ástandið verst enda kom þar til átaka á hverju ári mörg ár. Lét svokallað hústökufólk, besettere, mjög til sín taka.

Síðustu átatugi hafa á þessum slóðum risið stórar íbúðarblokkir þar sem búa þúsundir manna. Má nefna svæði eins Hedeparken í Ballerup, Høje Gladsaxe, Brøndbyøster, Galgenbakken og Albertslund þar sem risið hafa tíu til 20 hæða stórhýsi sem gnæfa yfir gömlu lágreistu byggðina í úthverfunum.

Den glade København 

Um 1970 fór frelsisandi um Kaupmannahöfn. Áhrif blómabarna í Bandaríkjunum og frá stúdentauppreisninni í París vorið 1968 settu mark sitt á borgina. Nýjar hugmyndir um frelsi einstaklinga og jafnrétti kynjanna, frelsi í kynferðismálum og nýjar hugmyndir um sambýlisform svo og aukin eiturlyfjaneysla settu svip sinn á Kaupmannahöfn. Danskar rauðsokkur, rødstrømper, börðust fyrir frjálsum ástum og kröfðust frelsis í kynferðislífi til jafns við karlmenn.

Hinn 1. júlí 1969 var öllum hömlum létt af myndasýningum sem vörðuðu kynlíf og porno bølgen flæddi yfir. Þótti ýmsum Kaupmannahöfn láta á sjá við þessar breytingar en ferðamenn víðs vegar að úr heiminum komu til þess að upplifa frelsið í The Uncensored Denmark, eins og þá stóð í enskum auglýsingabæklingum.

Kaupmannahöfn samtímans

Frá aldamótunum 2000 hafa víða um borgina risið ný hverfi með nýstárlegum húsum sem vert er að skoða fyrir þá sem áhuga hafa á borgarþróun og byggingarlist.

Má nefna borgarhverfið Ørestad við flugvöllinn í Kastrup sem skipulagt er með tilliti til umhverfis og náttúru, tilraun sem óvíða hefur verið gerð áður. Þá hefur borgarhlutinn norðan við Kastellet gengið í endurnýjun lífdaga: Nordhavn, Søndre Frihavn og Amerika Plads þar sem er að finna nýstárleg hús eins og Kobbertårnet, reist 2004, en kveikjan að því eru koparturnar og spírur gömlu Kongens København.

Sérkennilegasta húsið á þessum slóðum er Fyrtårnet við Pakhusvej, 15 hæða íbúðablokk við opinn húsagarð og hallandi veggjum og er sagt að arkitektarnir hafi haft húsaþök gömlu Kaupmannahafnar að fyrirmynd.

Óperuhúsið nýja í Kaupmannahöfn.

Það hús sem vakti einna mesta athygli og mikla umræðu í Kaupmannahöfn á árunum um og eftir aldamótin er óperuhúsið á Holmen, gegnt Amalienborg. Óperuhúsið er sannarlega þess virði að fara með ferjubátnum úr Nýhöfn út í Holmen og skoða húsið utan og innan, að ekki sé nú talað um að vera þar við sýningu á óperu eða ballett, auk þess sem þar eru frábærir veitingarstaðir.

Íslendingar í Kaupmannahöfn

Margir merkir Íslendingar hafa dvalist í Kaupmannahöfn. Fyrstan skal frægan telja Árna Magnússon [1663-1730] sem lauk námi í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1685 og byrjaði snemma að safna handritum, varð skjalaritari í leyndarskjalasafni konungs og prófessor í fornfræðum við Kaupmannahafnarháskóla árið 1701. Árið eftir var sendur til Íslands á vegum dönsku stjórnarinnar.

Árni Magnússon.

Unnu þeir Páll lögmaður Vídalín [1667-1727] að gerð Jarðabókarinnar og manntalinu 1702. Víðtækt umboð þeirra til afskipta af málefnum landsins vakti vonir um að unnt væri að bæta úr misrétti sem viðgekkst. Afskipti þeirra af embættisfærslu lögmanna og sýslumanna vöktu hins vegar andstöðu og leiddu til málaferla sem urðu þeim þung í skauti. Embættismenn báru þeim illa sögun við yfirvöld í Kaupmannahöfn sem gróf undan trausti sem þeir höfðu notið. Frægt er sakamál Jóns Hreggviðssonar á Rein sem grunaður var um manndráp og lögmaður hafði dæmt til lífláts 1684. Árni og Páll tóku máið upp 1708. Fór svo að hæstiréttur í sýknaði Jón af morðákærunni 1715, um 30 árum eftir að grunur féll á hann. 

Vorið 1709 gekk Árni að eiga auðuga ekkju, Mette Jensdatter Fischer, sem var 19 árum eldri en hann. Margir undruðust hjónaband þeirra og í þríleik sínum Íslandsklukkunni dregur Halldór Laxness upp ófagra mynd af konu Arnasar Arneusar, en fyrirmyndin er Árni Magnússon.

Segir í sögunni:

„Fram kemur í gættina kvensnift nokkur dvergvaxin, með krúng uppúr baki, stallmynt en hakan toguð niðrá miðja bríngu, hendleggirnir oflangir og jafnmjóir, með afsleppum höndum.“

Handrit og bækur Árna Magnússonar vor í húsi hans í Store Kannikestræde þar sem þær voru í brunanum mikla í október 1728. Sagt er að bruninn hafi bugað Árna sem lést í 12. janúar 1730, 66 ára að aldri, og var jarðsettur í norðanverðum kór Frúarkirkju.

Jón Eiríksson konferensráð [1728-1787] komst til einna mestra valda allra Íslendinga í Kaupmannahöfn. Eftir tveggja vetra nám í Skálholtsskóla fór hann til Þrándheims með Ludvig Harboe [1709-1783], sem danska kirkjuráðið hafði sent til Íslands 1741 að kynna sér kristnihald á Íslandi og menntun Íslendinga. Jón Eiríksson lauk prófi frá dómskólanum í Þrándheimi 1748, Trondheim katedralskole, elsta skóla í Noregi, og settist um haustið í Hafnarháskóla og lauk prófi í lögum 1758.

Árið eftir varð hann prófessor í lögum við Sorø Akademi. Árið 1771 hóf hann störf í stjórnarráði Dana og varð deildarstjóri í rentekammeret. Varð hann þar næstæðsti maður, sat í stjórn Konungsverslunarinnar síðari, Landsnefndinni síðari 1785 og sölunefnd konungseigna. Árið 1779 varð hann meðdómandi í hæstarétti og félagi í hinu konunglega norska vísindafélagi, yfirbókavörður konungsbókhlöðu 1781, sat í stjórn Árnasafns og forseti Hins konunglega íslenska lærdómslistafélags frá stofnun 1779 til dauðadags.

Sem deildarstjóri í rentukammeri reyndi hann að gæta hagsmuna Íslands og Íslendinga á hinum erfiðu tímum sem 18. öldin var með Stóru bólu 1707 til 1709, þegar um þriðjungur þjóðarinnar féll, verslunareinokun, Skaftáreldum 1783 með Móðuharðindunum sem fylgdu í kjölfarið. Mátti hann sín lítils gegn mútum kaupmanna og lögðust áhyggjur á hann með miklum þunga. Kvöld eitt í mars 1787 lét hann aka sér út á Löngubrú, bað ekilinn að nema staðar á miðri brú og kastaði sér þar fram af, hlaut mikið höfuðhögg og lést af áverkunum.

Baldvin Einarsson.

Baldvin Einarsson frá Hraunum í Fljótum [1801-1833] lauk lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla 1831 og stofnaði ásamt fleirum Bræðralagið Alþing, fyrsta félag Íslendinga í Kaupmannahöfn, og skrifaði greinar í tímaritið Ármann á alþingi, ársrit fyrir búhölda og bændafólk á Íslandi. Í desember 1832 brenndist Baldvins illa og lést 9. febrúar 1833. Í Ármanni á Alþingi lagði Baldvin Einarsson áherslu á uppeldi og fræðslu. Baldvin Einarsson er einn af frumkvöðlum íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu og forveri Fjölnismanna og Jóns Sigurðssonar forseta.

Við dauða Baldvins Einarssonar orti Bjarni Thorarensen:

Ísalands
óhamingju
verður allt að vopni;
eldur úr iðrum þess,
ár úr fjöllum
breiðum byggðum eyða.

Jónas Hallgrímsson [1807-1845] fór til Kaupmannahafnar 1832 og varð einn fyrsti menntaði náttúrufræðingur Íslendinga og ferðaðist um Ísland fimm sumur og rannsakaði náttúru landsins og landkosti. Áttu rannsóknir hans að verða undirstaða að nýtingu náttúruauðlinda.

Hann stofnaði Fjölnisfélagið ásamt Brynjólfi Péturssyni, Konráð Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni og komu út á vegum félagsins níu árgangar af Fjölni, ársrit handa Íslengingum, sem barðist fyrir endurreisn þjóðarinnar undir kjörorðunum: nytsemi, fegurð og sannleikur. Jónas Hallgrímsson er fyrsta nútímaskáld Íslendinga, skáldið sem fann fegurð íslenskrar náttúru, og hefur einn íslenska skálda borið sæmdarheitið „listaskáldið góða“.

Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson.

Hann var afkastamikill þýðandi og þýddi bæði ljóð og laust mál, m.a. fyrstu kennslubók í sundi sem út kom á íslensku og stjörnufræði danska stjörnufræðingsins Ursins, sem út kom í Viðey 1842. Þar er að finna fjölmörg nýyrði hans. Að kvöldi 21. maí 1845 hrasaði Jónas í stiga á leið upp í herbergi sitt í St. Pederstræde 22 og fótbrotnaði. Daginn eftir var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést 26. maí 1845, aðeins 37 ára gamall.

Útför hans var gerð 31. maí 1845. Var lík hans grafið í Assistentskirkjugarði. 

Jón Sigurðsson [1811-1879] kom til Kaupmannahafnar 1833 og átti heima þar óslitið til dauðadags. Hann lagði fyrst stund á málfræði og sögu en síðar á stjórnfræði og hagfræði en lauk ekki prófum.

Jón varð forseti Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags 1851 til dauðadags, forseti Þjóðvinafélags Íslendinga frá stofnun þess 1869 til æviloka og þingmaður Ísfirðinga nær óslitið frá 1845 til 1879 og lengi forseti alþingis. Af þessum sökum var nefndur Jón forseti.

Jón stofnaði Ný félagsrit 1841. Þar birtust ritgerðir um íslensk þjóðmál þar sem hann setti fram kenningar um réttarstöðu Íslands og kröfur um innlenda landsstjórn. Þegar íslenskt lýðveldi var stofnað 1944 var fæðingardagur hans 17. júní valinn sem stofnadagur þess og þjóðhátíðardagur Íslendinga.

Jón forseti Sigurðsson.

Frá hausti 1852 bjuggu þau Ingibjörgu Einarsdóttur [1804-1879] kona hans í húsinu á horni Stokkhusgade og Øster Voldgade og í þessu húsi létust þau með níu daga millibili, hann 7. desember 1879 og hún 16. desember 1879.

Voru lík þeirra flutt til Íslands og grafin í kirkjugarðinum við Hólavöll um vorið. Íslendingar í Kaupmannahöfn settu silfurskjöld með silfursveig á kistu hans þar sem á standa orðin „Sómi Íslands, sverð þess og skjöldur“.

Síðast en ekki síst skal nefna Jón Helgason [1899-1986] prófessor frá Rauðsgili í Borgarfirði sem bjó í Höfn allan starfsaldur sinn. Hann lagði stund á norræn fræði við Hafnarháskóla og lauk magistersprófi 1923 og þremur árum síðar doktorsprófi við Háskóla Íslands með ritinu Jón Ólafsson frá Grunnavík.

Jón Helgason.

Jón Helgason var forstöðumaður safns Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, Det Arnamagneanske Institut, frá 1927 til starfsloka og jafnframt prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla og gaf út fjölmörg rit um íslensk og norræn fræði.

Jón Helgason var eitt fremsta ljóðskáld Íslendinga á 20. öld. Jón Helgason lést í Kaupmannahöfn 19. janúar 1986.

Um árabil bjó blekberi í „Borginni við Sundið“ og hreifst af danskri menningu og sögu borgarinnar og töfrum, og þangað hefur leið hans legið oftar en til annarra borga undanfarna hálfa öld.

Þessi orð eru þakklætisvottur, skrifuð í þeirri von að geta aukið skilning Íslendinga á einkennum, sögu og menningu þessarar gömlu höfuðborgar Íslands.

Höfundur er fv. skólameistari.