Eftir Sóleyju Kaldal:
Þegar þjóðarpúlsinn er tekinn fyrir kosningar á Íslandi kennir ýmissa grasa og fjölmörg málefni eru þjóðinni hugleikin. Einn málaflokkur sem í áraraðir hefur hins vegar ekki haft mælanlegan púls eru öryggis- og varnarmál. Þetta sinnuleysi er að mörgu leyti af góðu einu komið, málaflokkurinn hefur um langt skeið ekki haft mikla aðkomu að daglegu lífi Íslendinga og sú staðreynd ein hlýtur að vera einhver mestu forréttindi sem þjóð getur notið. Þessi velmegun hefur meira að segja verið mæld á kerfisbundinn hátt og Ísland verið metið öruggasta land í heimi samkvæmt alþjóðlega friðarstuðlinum frá upphafi þeirra mælinga.
Það verður þó að teljast líklegt að innrásin í Úkraínu hafi virkað eins og hjartastuðtæki á málefni öryggis og varna hérlendis, alla vega ef eitthvað er að marka mest lesnu fréttir síðustu vikna. Þar sem við fylgjumst með átökunum í Úkraínu af hryllingi og vanmætti gerum við okkur grein fyrir því að öllum stríðum fylgir óhugnanlegt stjórnleysi og hætta á stigmögnun sem enginn getur spáð fyrir um af nákvæmni, hvorki þeir sem hófu stríðið né aðrir. Við vitum að stríð í hnattrænum heimi hefur ekki áhrif einungis á þá sem mætast á vígvellinu heldur varpar sá ægikraftur eyðileggingar sem á sér stað skugga á alla okkar mannlegu tilveru. Innrás í fullvalda ríki er aðför að alþjóðalögum og stríðir gegn gildum okkar um frið, lýðræði og mannréttindi, en það er einmitt í þessi lög og gildi sem Ísland sækir þá góðu stöðu sem við fáum að njóta.
Ekki tilkomið í tómarúmi
Margir hafa nú áttað sig á því að öryggið sem við njótum, og þykir svo sjálfsagt að við hugum vart að því, er ekki tilkomið í tómarúmi. Við eigum til að falla í gryfju undantekningarhyggjunnar og telja að það sé vegna þess að Íslendingar séu friðelskandi umfram aðra jarðarbúa, en það er vart meira en óskhyggja. Ástæða lengsta samfellda friðartímabils Evrópu er mun frekar það sterka alþjóðlega samstarf sem markvisst var byggt upp eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, einmitt í þeim tilgangi að styrkja ætíð samstarf þjóða á kostnað samkeppni.
Erlent samstarf er þungamiðjan í íslenskri þjóðaröryggisstefnu, en af ellefu liðum stefnunnar fjalla fyrstu fimm liðirnir um óyggjandi mikilvægi erlends samstarfs fyrir þjóðina. „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi“, kvað Kári Sölmundarson í Brennu-Njálssögu og mæli hann manna heilastur.
Friðartímar eru ekki hlutlaust ástand sem stundum er rofið með stríðsátökum – friður er þvert á móti að minnsta kosti jafn virkt ástand og stríð, ástand sem krefst mikillar vinnu og fórnfýsi til að viðhalda. Minn fyrrverandi lærifaðir Dr. Nuno Monteiro heitinn, sérfræðingur í alþjóðlegum öryggismálum sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki rannsóknarefni hvers vegna mannfólkið færi í stríð, heldur hvernig í ósköpunum okkur tækist nokkru sinni að stilla til friðar.
Þó það sé sannarlega svo að hver er sér næstur í þjóðaröryggismálum og alþjóðalög eru aðeins jafn sterk og sameiginlegi viljinn til að heiðra þau, þá er það einmitt þess vegna sem það er landi eins og Íslandi svo mikilvægt að erlent samstarf sé traust og áreiðanlegt. Þjóðir mynda ekki bandalög af manngæskunni einni saman, heldur vegna þess að þær telja hagsmunum sínum betur varið innan þeirra en utan. Rétt eins og við kjósum að vera í bandalagi við samstarfsþjóðir okkar, þá þurfum við að gæta þess að þær kjósi að vinna með okkur. Í bandalagi leggjast allir á eitt við að vinna að sameiginlegum markmiðum og ef Íslendingar vilja sannarlega leggja sitt af mörkum við að stuðla að betri heimi, mæla gegn hervæðingu og tala fyrir þeim gildum sem okkur þykja óumsemjanleg, þá gerum við það á vettvangi samstarfs samhuga þjóða.
Höfundur er sérfræðingur í þjóðaröryggismálum.
Þetta er annar pistillinn í greinaflokki sem birtast mun næstu daga á Viljanum, þar sem sérfróðir aðilar velta fyrir sér þýðingu innrásar Rússa í Úkraínu og hvort sá möguleiki sé í reynd til staðar að nýr heimsófriður kunni að vera í kortunum eða sé þegar hafinn.