Fullveldi í fulla hnefana

Jón Kr. Snæhólm alþjóðastjórnmálafræðingur.

Eftir Jón Kr. Snæhólm:

Við erum lánsöm Íslendingar að búa í auðugu og friðsælu landi.

Við erum dugleg að rífa okkur niður og oft má skilja á umræðunni að hér sé allt að fara til fjandans.

Í þjóðarflóru umheimsins spilum við litla rullu, sem betur fer. Í samfélagi þjóðanna berum við litla ábyrgð og í sögulegu tilliti erum við ekki þjökuð af hrottalegri nýlendu-stefnu né útbreiðslu alræðishugmynda og stríðsrekstri gegn öðrum þjóðum.

Ef til vill er ein sú mesta gæfa okkar að vera eyþjóð og því varin af náttúrulegum öflum frekar en vopnuðum her, hugmyndafræði einangrunar og úrvalshyggju.

Frelsi og fullveldi þjóðarinnar fellst meðal annars í samskiptum við aðrar þjóðir á sviði viðskipta, menningar, menntunar og mannlegra samskipta. Trúverðugleiki gagnvart öðrum þjóðum felst í því að örva þessi samskipti og segja öðrum frá hvernig þessi litla þjóð braust úr sárri fátækt til þess að verða eitt ríkasta ríki heimsins á rúmum 60 árum.

Í raun eru þessi öfl hér að ná yfirhöndinni í umræðunni.

Við skulum muna að frelsi og fullveldi þjóðarinnar er ekki tryggt með tortryggni og ný-búauðgisstefnu þar sem krafan um fráhvarf landsins úr alþjóðlegu samstarfi verður ofaná.

Háværari raddir um einangrun

Raddir hér gerast æ háværari um þessa leið. Úr EES samstarfinu, úr Shengen, úr NATO, engin þróunarhjálp, úr alþjóðlegu samstarfi varðandi flóttamenn, úr mannréttindaráði hinna Sameinuðu þjóða og úr öllu samstarfi þar sem hlusta verður á önnur sjónarmið en okkar.

Fullveldi í fulla hnefana.

Í raun eru þessi öfl hér að ná yfirhöndinni í umræðunni. Sérstöðustjórnmál þar sem sérstaða Íslands er markmiðið frekar en samningar og samstaða með okkar nágrönnum hefur yfirhöndina núna.

Málsmetandi einstaklingar í samfélaginu bera það á borð fyrir okkur og í fullri alvöru, að það sé markmið stjórnvalda að koma auðlindunum í annarra hendur.

Að vegna Shengen sé Ísland að verða griðastaður glæpagengja og óheftur straumur flóttamanna muni gera sanna Íslendinga að minnihluta í eigin landi.

Að með Orkupakka 3 sé verið að afhenda orku-yfirráð til ESB og stofnana þess þegar allir fyrirvarar og yfirlýsingar segja annað.

Að við göngum erinda alþjóðlegra eiturlyfjasamtaka þegar fjöldamorð og gróf mannréttindabrot eru daglegt brauð í nafni stríðs gegn eiturlyfjum.

Að Djúpríkið hafi framið valdarán hér á landi þar sem embættismenn ýmissa ráðuneyta, taglhnýtingar Soros og aðrir globalistar vinni hörðum höndum að niðurrifi íslensks þjóðríkis, menningar og mannsanda.

Þessir einstaklingar segja okkur að stjórnmálamennirnir séu vanhæfir og spilltir. 

Að ráðuneyti og stjórnkerfi landsins sé með öllu vanhæft.

Að stjórnmálaflokkarnir og forysta þeirra sé drasl og landslýður heimskur að sjá þetta ekki og kjósa þetta yfir sig.

Niðurbrot mannsandans

Þetta kalla ég niðurbrot mannsandans og fjöldaframleiðslu í óánægju-iðnaði.

Sannleikurinn er sá að á flestum sviðum erum við að standa okkur og gera vel. Okkur miðar vel áfram. Nýtum tækifæri okkar eftir bestu getu, lærum af mistökum og brosum í kampinn af eigin sérkennum, sérvisku og duttlungum.

Staða okkar er sterk.

 Á alþjóðavettvangi er borin virðing fyrir okkar lýðræðislegu arfleið. Ekki síst vegna þess að við höfum staðið í lappirnar og tekið afstöðu með sjálfsákvörðunarrétti og fullveldi þjóða. 

Staðið með mannréttindum. Staðið með fríverslun meðal þjóða. Frá byrjun staðið með varnarbandalagi frelsis og friðar, NATO. Tekið þátt í þróunarsamvinnu. Tekið þátt í hamfara samstarfi. Verði leiðandi í málefnum Norðurslóða og miðlað þekkingu í orku og umhverfismálum víða um heim.

Geimfarinn Buzz Aldrin yngri með bandaríska fánann á tunglinu. (Neil Armstrong/NASA)

Í dag er 20 júlí. 

Í tvennum skilningi er þessi dagur sigur mannsandans.

Þennan dag reyndi ungur liðsforingi í þýska hernum að binda endi á valdatíð ógnar-stjórnar Adolf Hitlers en mistókst. Minning Staufenbergs lifir og minnir okkur á að vondir hlutir gerast þegar góðir menn aðhafast ekkert.

Erum við á þessari leið, þar sem þjóðhyggja og sjúkleg tortryggni gegn eigin stjórnkerfi og utanríkissamvinnu landsins er að ná yfirhöndinni?

Þennan dag fyrir 50 árum fór maðurinn á Tunglið.

Íslandsvinurinn Njáll Armasterki og áhöfn hans hefði aldrei náð þangað nema að fyrir tíu milljón árum fóru fimm apar af tíu niður úr trénu til að athuga hvað væri handan hæðarinnar.

Þessir fimm fóru seinna á Tunglið. Hinir fimm eru ennþá uppí trénu að naga börk og banana.

Hvorum hópnum tilheyrir þú?

Höfundur er alþjóðastjórnmálafræðingur.