Fyrirvaralaus orkupakki

Eftir Hildi Sif Thorarensen:

Síðan umræður um þriðja orkupakkann hófust hafa fyrirvarar verið settir á oddinn og ríkisstjórnin haldið því fram að búið sé að koma fyrir svo skotheldum og margvottuðum fyrirvörum að við getum hætt að hafa áhyggjur eða almennt velta þessu máli fyrir okkur. Við nánari skoðun kemur hins vegar ekki í ljós að umræddir fyrirvarar eru ekki einungis lélegir heldur eru þeir hreinlega ekki til staðar er varðar reglugerðir orkupakkans.

            Innleiðing á reglugerðum Evrópusambandsins er gerð í samráði við aðrar þjóðir. Þær reglugerðir eru því eins fyrir allar þjóðir sem að sáttmálanum koma og eru þær finnanlegar á fleiri en einu tungumáli á vefnum. Það þýðir að reglugerðir orkupakkans fyrir Ísland eru nákvæmlega eins og reglugerðir orkupakkans fyrir Noreg og Liechtenstein. Ef setja á fyrirvara inn í slíkar reglugerðir þá þarf það því að gerast í samráði við þær þjóðir sem að sáttmálanum ganga sem og í sátt við EES-samninginn.

            En um hvað snýst þessi fyrirvari þá? Fyrirvarinn er loforð frá löggjafanum til síns sjálfs um að kanna hvort regluverkið standist stjórnarskrá ef það kemur til þess að hingað eigi að vera lagður sæstrengur. Við getum deilt um hversu mikils virði loforð löggjafans er gagnvart sjálfum sér, en það er ekki umfjöllunarefni þessarar greinar, heldur sú staðreynd að fyrirvarinn á eingöngu við um sæstrenginn og má þá segja að hann hafi ekkert með orkupakkann að gera.

Síðast EFTA-landanna

            Fari svo að þingsályktunartillaga um orkupakkann verði samþykkt á Alþingi Íslendinga mun Ísland verða síðasta landið í EFTA-samstarfinu til að aflétta svokölluðum „stjórnskipulegum fyrirvörum“ gagnvart orkupakkanum.[1] 

Þegar Ísland afléttir þessum stjórnskipulegu fyrirvörum verða reglugerðir orkupakkans, 713/2009, 714/2009, 543/2013, 2009/72/EB, innleiddar í IV. viðauka EES-samningsins og taka því gildi fyrir okkur. Þetta ferli er nokkuð blátt áfram og eins og glöggir lesendur sjá, þá er ekkert pláss fyrir að setja fyrirvara í reglugerðirnar nema þá hjá sameiginlegu EES-nefndinni.

            Þegar búið er að innleiða þriðja orkupakkann, eins og gert verður ef þingið samþykkir þingsályktunartillögu um hann, þá fer svo af stað ákveðið ferli við að hagræða íslensku lögunum í samræmi við reglugerðirnar. Það er nú einu sinni þannig að íslenskur lagabálkur var ekki alltaf skrifaður með EES-samstarfið í huga og því eru einhver atriði sem eru ekki á pari við þessar nýju reglugerðir og þeim verður þá kippt í liðinn.

            Víkjum nú að fyrirvaranum og hljóðar hann svo:

3. gr. Fyrirvari

Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.

Grunnvirki sem gera mögulegt að flytjaraforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB  verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.

            Þaðsem þarna kemur fram, er að Ísland ætlar sér ekki að breyta lögum núna í samræmi við þær málsgreinar í reglugerðunum sem hafa með milliríkjaviðskipti um orku að gera. Þær verða því geymdar til seinni tíma, eða þangað til einhver hefur hug á að leggja hingað sæstreng.

Gott er að vekja athygli á því, að innan ESB gilda reglur um forgangsáhrif (e. supremacy) sem kveða á um að reglur ESB-réttar séu í öllum tilfellum rétthærri en lög og reglur aðildarríkjanna.

Hildur Sif Thorarensen.

Þótt Ísland hafi því ekki breytt lögunum sínum til samræmis við reglugerðir orkupakkans þá getur jafnvel leikmaður dregið þá ályktun að þær gildi samt sem áður þar sem þær eru nú þegar orðnar rétthærri en lögin sem ekki hafa fengið rétta aðlögun sökum fyrirvarans.

Er þörf á fyrirvara?

            Innan orkupakkans er fjöldinn allur af málsgreinum og margar þeirra hafa ekkert með milliríkjaviðskipti í orkumálum að gera. Þær málsgreinar hafa engan fyrirvara og munu því taka gildi fullum fetum á Íslandi þegar búið er að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum um orkupakkann. Þessari fullyrðingu til stuðnings má nefna frumvarp til laga er ber heitið Raforkulög og orkustofnun og frumvarp er ber heitið Raforkulög, hvort tveggja sett fram af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, og er komið á dagskrá þingsins. Í þessum frumvörpum eru gerðar breytingar á raforkulögum til að samræmast þessum nýju reglugerðum sem stefnt er að að innleiða í gegnum orkupakkann.

            En er þá þörf á því að setja fyrirvara ef þeir hafa sama sem ekkert gildi? Í rauninni myndi ég telja það ekki vera svo þar sem hann hefur svo sem ekkert vægi. Það er enginn sæstrengur fyrir hendi og því hafa þær málsgreinar sem um ræðir og fjalla um viðskipta okkar við Evrópusambandið um orku ekkert vægi, þótt þær taki gildi með orkupakkanum og séu rétthærri en íslensk lög. Það er þó ágætt að vita til þess að löggjafinn ætlar sér ekki að hringla með löggjöf Íslendinga í samræmi við þessar málsgreinar fyrr en hugmyndir um sæstreng verða að veruleika.

            Þá kemur þó upp önnur staða og öllu verri. Eins og fram hefur komið í álitsgerð lögfræðinganna Stefán Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst, sem eru að mínu mati mjög hæfir og um leið hlutlausir sérfræðingar, er því haldið fram að með orkupakkanum sé ríkisvald framselt til alþjóðlegrar stofnunar og er það ekki talið standast stjórnarskrána.

En hvað þýðir þetta eiginlega?

Það þýðir það að samþykki ríkisstjórnin að leggja sæstreng til Íslands, þá brjótum við sjálfkrafa stjórnarskrána vegna þágildandi reglugerða um orkupakka þrjú.Við höfum því að mínu viti einvörðungu tvo möguleika ef einhver ríkisstjórn framtíðarinnar samþykkir lagningu sæstrengs og það er að breyta stjórnarskránni svo hún leyfi framsal á ríkisvaldi til erlendra stofnana eða segja okkur úr EES-samningnum.

Möguleg skaðabótaskylda

            Það er mjög vafasamt að brjóta stjórnarskrána því ef til þess kemur þá getur ríkið lent í þeirri stöðu að verða skaðabótaskylt. Þetta er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að lögfræðilegir sérfræðingar hvöttu ríkisstjórnina til að leysa úr þessum stjórnskipulegu álitamálum áður en þingsályktunin færi til meðferðar á þinginu. Þetta er því háalvarlegt mál og ekki eitthvað sem á að fjalla um svo léttúðlega og hefur fram að þessu verið gert í fréttamiðlunum.

            Það er öllum ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að innleiða orkupakkann og það helst á þessu þingi. Það sem ég velti því fyrir mér er hvort hún ætli sér þá að hafa þessar umdeildu reglugerðir hangandi inni í regluverki landsins uns við rekum okkur harkalega á þær eða hvort hún ætli sér næst að aðlaga stjórnarskrána á þann hátt að hún gefi rúm til að framsals á ríkisvaldi til alþjóðlegra stofnana og hvort það sé eitthvað sem Íslendingar vilja að verði gert?

            Ég vil að lokum benda á að inni á Samráðsgáttinni liggur frumvarp Katrínar Jakobsdóttur sem snýst um stjórnarskrárbreytingar er varðar auðlindirnar. Hvort það tengist þessu máli eða ekki get ég ekki svarað að svo stöddu, en hvet ég þó alla til að kynna sér það vel og senda inn viðeigandi umsagnir. Stjórnarskráin er grunnurinn að öllum okkar lögum og um hana verður að vera sátt.

Höfundur er verkfræðingur.


[1] Tekið skal fram að Sviss er einnig í EFTA en þar sem þeir eru ekki í EES heldur með tvíhliða samning við ESB þá koma þeir ekki að þessu máli.