Galopin landamæri

Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson:

Það virðist vera að renna upp fyrir fleira fólki, jafnvel ráðherrum, hversu alvarlegt stjórnleysið í hælisleitendamálum er orðið.

Nú í dag heyrðum við fréttir af því (fyrst í Morgunblaðinu) að 10 flugfélög neiti að gefa upp farþegalista sína í samræmi við íslensk lög. Viðbrögðin hafa verið lítil eða engin, eins og lögreglustjórinn á Suðurnesjum benti á.

Vandinn, þ.e. að við höfum oft ekki hugmynd um hverjum við erum að taka á móti, hefur verið þekktur lengi þótt það komi á óvart hversu umfangsmikill hann er orðinn.

En mun þetta, eða aðrar ábendingar um vandann, leiða til einhverra viðbragða?

Við í Miðflokknum höfum stöðugt reynt að benda á þróunina á undanförnum árum. Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins reyndi svo hópur fulltrúa að ná fram smávægilegum breytingum á stefnu flokksins í málinu. – Stefnu undir yfirskriftinni:„Bjóðum þau velkomin.”

Hinar smávægilegu breytingar voru samþykktar en þá var gripið til þess ráðs (að hætti ESB) að láta greiða atkvæði aftur og knýja þannig fram „rétta niðurstöðu“. 

Það tókst eftir að mektarmenn höfðu útskýrt hversu illa það liti út fyrir flokkinn að vera ekki nógu opinn í málaflokknum. Undir miklu lófataki og fagnaðarópum voru breytingarnar felldar og Valhallartillagan endurreist.

Ein tillagnanna, sem var hent út, var sú að tekin yrði upp „forskráning flugfarþega” (þ.e. að farið yrði að lögum).

Eftir nýjustu yfirlýsingar forystumanna flokksins velti ég því fyrir mér hvort eitthvað sé að marka þær og hvort þær leiði til einhverrar stefnubreytingar? Því þróun undanfarinna ára hefur orðið á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Ég veit að Sjálfstæðisráðherrar eru ekki einir með farþegalistamálið, en munu þeir fara fram á að innviðaráðherra taki á málinu eða bara halda sig við eigin landsfundarstefnu?

Höfundur er formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.