Eftir Valtý Sigurðsson:
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi ritaði grein hér í Viljann um fyrirhugaða uppbyggingu leiguíbúða og hjúkrunarrýma í landi Gunnarshólma við Suðurlandsveg.
Áður en ég lauk lestri greinarinnar fór ég að hugleiða hver gæti verið höfundurinn, enda komu upp í hugann gamankunnar setningar frá gamla Þjóðviljanum, þar sem gróði var slíkt skammaryrði að það rataði oft með rauðu letri á forsíðu blaðsins. Þannig þjónuðu að mati bæjarfulltrúans áform sem þessi aðeins fjárfestunum „sem vilja að sjálfsögðu hámarka hagnað sinn með kaupum á þessu beitarlandi.”
Höfundur kallaði framkvæmdina „Elligettó” og tíundaði því næst hveru langt þetta var frá „annarri byggð” og það tæki um „tvær klukkustundir að ganga í næsta hverfi Kópavogs”. Slík „einangrun” hlyti að draga úr tækifærum „fyrir samveru milli kynslóða, með tilheyrandi sálar og félagslegum afleiðingum” sem myndi vera andlegri og líkamlegri heilsu eldri borgara hættuleg.
Nú vil svo til að við hjónin búum við jaðar þessa svæðis. Ég er eldri borgari og kominn á eftirlaun. Við búum á þessum stað til að njóta náttúrunnar og leggjum talsvert mikið upp úr því. Raunar er það svo að við viljum hvergi annars staðar búa og fögnum því ef fleiri geta notið þessa. Ég fer daglega í líkamsrækt til höfuðborgarinnar og þarf jafnvel iðulega að bregða mér alla leið til Kópavogs, að vísu ekki gangandi. Þá stundar konan vinnu í miðbæ Reykjavíkur.
Andleg og líkamleg heilsa okkar hjóna er með ágætum og hefur samband okkar við börn, barnabörn, vini og vandamenn ekki liðið fyrir þessa „einangrun” okkar.
Ég vona að þessi ágæti bæjarfulltrúi Pírata hugleiði í framtíðinni að rökstyðja pólitiskan málstað sinn á yfirvegaðan hátt og forðist fordóma og þá neikvæðni sem svo greinilega skín út úr greininni.
Höfundur er lögfræðingur og fv. ríkissaksóknari og fangelsismálastjóri.