Gauta B. Eggertssyni svarað

Dr. Kári Stefánsson prófessor og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sent frá sér svar til Gauta B. Eggertssonar, prófessors í hagfræði við Brown-háskóla í Bandaríkjunum, en eins og Viljinn greindi frá (og lesa má hér að neðan) beindi Gauti spjótum að þeim sem hafa gagnrýnt bróður hans, Dag B. Eggertsson borgarstjóra.

Svar Kára er svofellt:

Ágæti Gauti, hann bróðir þinn gegnir opinberu embætti sem hann var kosinn til af íbúum Reykjavíkur, því fylgir vegsemd og því fylgir virðing en því fylgir líka sú hætta að hann verði fyrir óvæginni gagnrýni.

Því hefur lengi verið haldið fram að það sé ekki hægt að sýna fjölskyldu sinni meira tillitsleysi en með því að fara í framboð nema ef vera skyldi með því að ná kosningu. Þú hefur hins vegar ærna ástæðu til þess að vera montinn af bróður þínum og stjórnmálaferli hans þótt við séum nokkur sem finnst hann ekki gallalaus embættismaður.

Ég skil vel að þú rísir Degi til varnar. Bak hans er ekki bert af því hann á sér bróður. Það yljar mér um hjartarætur að verða vitni að þessu.

Ég hef hins vegar eftirfarandi athugasemdir við efnisinnihald varnar þinnar fyrir Dag:

Það er ekki frumlegt að halda því fram að þeir sem gagnrýni Dag séu haldnir Dagsheilkenni. Vinir og félagar Davíðs Oddsonar héldu því fram þegar hann var borgarstjóri að þeir sem gagnrýndu hann væru haldnir Davíðsheilkenni. Hvort tveggja er máttlaus tilraun til þess að letja menn til gagnrýni. Það er alltaf óheppilegt þegar reynt er að koma í veg fyrir gagnrýni á valdhafa vegna þess að það er mikilvægt fyrir lýðræðið að menn séu óhræddir við að gagnrýna þá.

Þeir sem gagnrýna Dag falla flestir í tvo flokka, annar gagnrýnir hann frá hægri og er Hannes Hólmsteinn einn úr þeim flokki sem þú minnist á í færslunni þinni og síðan þeir sem halda því fram að þótt hann tali sem félagshyggjumaður þá breyti hann ekki sem slíkur í embætti sínu og er ég í þeim flokki.

Í gagnrýni okkar á Dag eins og í afstöðu okkar til lífsins almennt eigum við Hannes Hólmsteinn lítið sameiginlegt, með einni undantekningu sem er afstaðan til tölvupóstanna milli Dags og Hrólfs sem var eytt. Það er með öllu óásættanlegt að eyða opinberum gögnum í tilraun til þess að fela. Það er brot á lögum og á ekki að líðast. Þessir tölvupóstar voru það sem greinin mín í gær fjallaði um en þú minnist ekki á þá í fésbókarfærslu þinni að öllum líkindum vegna þess að þú treystir þér ekki til þess að útskýra hvers vegna það sé eðlilegt og réttlætanlegt að hafa eytt þeim.

Gauti, ég endurtek að með því að verja bróður þinn sýnir þú að þú ert góður maður eins og Dagur bróðir þinn er, en þú sýnir líka að eins og hann ertu ekki með öllu gallalaus.

Kári Stefánsson.