Eftir dr. Ásgeir Jónsson:
Viðskiptaafgangur hefur verið mjög stöðugur frá 2009. Á hverjum ársfjórðungi hafa vöru- og þjónustuviðskiptin skilað um 30-40 milljarða afgangi (árstíðarleiðrétt). Það virðist liggja í augum uppi að ferðaþjónustunni sé að þakka. Það er þó ekki rétt nema að hluta. Gjaldeyristekjur landsins hafa áður vaxið hratt vegna uppgangs í sjávarútvegi en utanríkisviðskiptin samt farið fljótt í mínus. Staðreyndin er sú að viðskiptaafgangurinn er beint endurvarp af lífeyriskerfinu – og er kerfislægur.
Viðskiptaafangur er ávallt vitnisburður um sparnað – sem hérlendis er knúinn fram með skylduframlögum í lífeyrissjóði. Hér áður greiddi fólk með annarri hendi til lífeyrissjóðanna en slógu lán með hinni.
En heimilin eru hætt að safna skuldum. Ísland hefur í kjölfarið breyst frá því að vera fjármagnsinnflytjandi með krónískan viðskiptahalla (líkt og var á árunum 1945-2008) og til þess að vera fjármagnsútflytjandi með viðskiptaafgang.
Eftir 7-8 ára hagvöxt er nú tekið að hægja á hagkerfinu. Krónan hefur veikst lítillega – og gengið 140 á móti evru virðist vera orðið nýtt kennileiti fyrir áframhaldandi stöðugan viðskiptaafgang.
Allar hagsveiflur frá seinna stríði hafa endað með gengisfalli og verðbólguskoti. Það þarf ekki að gerast núna. Raunar er ekki hægt að sjá fyrir sér að krónan kollsteypist með slíkan bakstuðning – til þess þarf alvarleg hagstjórnarmistök eða feilskot í kjarasamningum.
Slíkt hefur þó oft gerst áður – og getur því miður hæglega gerst aftur.
Höfundur er dósent og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.